Í hnotskurn
Loksins skoraði Ástralinn. Fyrsta mark hans í rúmt ár tryggði dýrmætan sigur gegn Hönunum fyrir framan metáhorfendafjölda. Þetta er leikur Liverpool og Tottenham Hotspur í hnotskurn.
- Mikilvægi þessa leiks var mikið þar sem Tottenham var rétt á hælum Liverpool fyrir leikinn.
- Fernando Morientes var leikfær í fyrsta sinn á árinu. Hann meiddist í sigrinum á Everton milli jóla og nýárs.
- Scott Carson fór á varamannabekkinn eftir að hafa leikið bikarleikinn gegn Luton Town.
- Jerzy Dudek var fjarri líkt og í síðustu leikjum. Hann var síðast varamarkvörður í fyrrnefndum leik gegn Everton.
- Harry Kewell skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool í rúmt ár.
- Ástralinn skoraði síðast í 1:1 jafntefli gegn Aston Villa á Villa Park í byrjun desember 2004 og það munu vera tuttugu og níu leiki liðnir frá því marki.
- En það er enn lengra frá því Harry skoraði á heimavelli. Síðast skoraði hann á Anfield Road gegn þegar Liverpool lagði Levski Sofia 2:0 í lok febrúar 2004. Það var á fysrtu leiktíð Harry en þá skoraði hann ellefu mörk. Hann er vonandi kominn á bragðið núna.
- Enn einu sinni hélt Jose Reina marki sínu hreinu á Anfield Road. Hann hefur aðeins þurft að sækja boltann í markið í einum leik á heimavelli á leiktíðinni. Jose þurfti það reyndar fjórum sinnum gegn Chelsea. En leikmenn annarra liða hafa ekki skorað hjá honum í Musterinu!
- Einn eini sinni lauk Liverpool leik manni fleiri. Þetta var að minnsta kosti í tíunda sinn á leiktíðinni sem maður úr liði andstæðinganna er rekinn út af.
- Stephen Warnock lék síðustu sjö mínútur leiksins eftir að hafa skipt við Fernando Morientes. Þetta var fimmtugasti leikur hans fyrir Liverpool.
- Jan Kromkamp lék sinn fyrsta leik á heimavelli. Hann kom inn á lokamínútunni en hann á enn eftir að snerta boltann í leik á Anfield Road!
- Hvorki fleiri né færri en fimm leikmenn Liverpool voru valdir í lið vikunnar á BBC. Þeir sem voru valdir voru þeir Jose Reina, John Arne Riise, Mohamed Sissoko, Steven Gerrard og Harry Kewell. Það er Garth Crooks, sem lék meðal annars með Tottenham, sem velur liðið.
- Loksins náði Liverpool að vinna Tottenham en Hanarnir höfðu ekki tapað fyrir þeim Rauðu í sex síðustu leikjum. Er þó undanskilinn Deildarbikarsigur Liverpool á White Hart Lane á síðustu leiktíð í vítaspyrnukeppni.
- Það er búin að vera frábær aðsókn á heimaleiki Evrópumeistaranna á þessari leiktíð. Eins og venjulega var bekkurinn þétt setinn á Anfield í alls voru 44.983 áhorfendur vitni að sigri Liverpool. Það mun vera metáhorfendafjöldi eftir að Anfield var endurbyggður í núverandi mynd eingöngu með sætum.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko (Kromkamp 90. mín.), Kewell, Morientes (Warnock 83. mín.) og Crouch (Cissé 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Sinama Pongolle.
Mark Liverpool: Harry Kewell (59. mín.)
Tottenham: Robinson, Stalteri, Dawson, King, Lee, Tainio (Defoe 67. mín.), Jenas, Carrick, Davids (Lennon 78. mín.), Mido og Keane. Ónotaðir varamenn: Cerny, Brown og Gardner.
Rautt spjald: Paul Stalteri (87. mín.).
Gult spjald: Teemu Tainio.
Áhorfendur á Anfield Road: 44,983.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finnin var mjög gagnrýndur eftir leikinn gegn Luton þar sem hann átti einn sinn slakasta leik frá því hann kom til Liverpool. En Sami var frábær gegn Tottenham. Hann var gríðarlega sterkur og einbeittur í vörninni. Auk þess beitti hann sér af og til í sóknarleiknum. Hann svaraði öllum gagnrýnisröddum með framgöngu sinni.
Jákvætt :-) Liverpool sýndi styrk og einbeitingu. Vissulega hefur liðið leikið betur en þarna var við erfiða andstæðinga að fást og Evrópumeistararnir herjuðu fram sigur sem þeir áttu skilinn. Vörnin var mjög sterk og meðlimir hennar sýndu að óöryggið gegn Luton var undantekning. Að baki hennar var Jose Reina ekki árennilegur. Loksins náði Harry Kewell að skora mark. Langþráð mark og eitt það fallegasta á leiktíðinni. Mohamed Sissoko lék sinn besta leik í nokkurn tíma. Steven var sterkur að venju. En sigurinn endurspeglaði styrk Liverpool um þessar mundir. Ellefu deildarsigrar í tólf leikjum segja sína sögu!
Neikvætt :-( Það er nú varla hægt að segja að það hafi verið nokkuð. Sem er gott!
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Fyrri hálfleikur var mjög tíðindalítill. Það var vissulega hart barist en hvorugt liðið gaf nokkuð færi á sér. Heimamenn voru þó öllu sterkari en þeim gekk illa að skapa sér færi gegn sterkri vörn Spurs sem var mjög vel á verði. Peter Crouch fékk gott færi snemma leiks en skalli hans var ekki nógu vel heppnaður og Paul Robinson varði. Hættulegasta færið kom þegar skalli frá Fernando Morientes hafnaði í þverslánni. En það færðist fjör í leikinn eftir leikhlé. Strax í upphafi hálfleiksins fékk Robbie Keane dauðafæri eftir fyrirgjöf frá hægri en hann náði ekki almennilega að stýra boltanum svo vel væri. En svo fór Liverpool að auka sóknarþungann í átt að Kop markinu. Peter Crouch náði góðum skalla að marki en Paul varði vem miklum tilþrifum. Þar kom að boltinn lá í markinu og þvílíkt mark. Á 59. mínútu sendi Steve Finnan frábæra fyrirgjöf inn á vítateig Tottenham. Harry Kewell tók boltann viðstöðulaust á lofti og hamraði hann í markið algerlega óverjandi fyrir aðalmarkvörð enska landsliðsins. Stórkostlegt mark og því var skiljanlega innilega fagnað utan vallar sem innan. Markið var langþráð fyrir Harry Kewell sem er búinn að vera nærri því að skora í mörgum undanförnum leikjum. Það var því ekki erfitt að skilja fögnuð hans og annarra viðstaddra. En gestirnir ætluðu ekki að gefa sig og rétt á eftir markinu varði Jose Reina frábærlega frá Ahmed Mido. En Liverpool hafði yfirhöndina til leiksloka. Paul varði vel fasta aukaspyrnu frá Steven Gerrard sem notaði hvert tækifæri til að skjóta á markið. Þremur mínútum fyrir leikslok þyngdist enn róðurinn fyrir Spurs þegar Kanadamaðurinn Paul Stalteri var rekinn af leikvelli fyrir að brjóta á Harry Kewell sem var að sleppa einn í gegn. Lokamínúturnar voru spennandi. Paul Robinson varði frábærlega gott skot frá Mohamed Sissoko. Á síðusta andartaki leiksins fékk Robbie Keane boltann óvænt í góðu færi en hann hitti ekki boltann. Dómarinn flautaði til leiksloka og góðum sigri var fagnað í Musterinu.
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur