Mark spáir í spilin
Á sunnudaginn halda leikmenn Liverpool í austur og taka hús á fornum keppinautum í þeirri borg sem næst verður fyrir í þeirri áttinni. Það er vonandi á Þorrinn byrji vel fyrir Evrópumeistaranna því það verður nóg um erfiða leiki á honum. Fyrstur á dagskrá á Þorra er leikur við Manchester United. Það eru gömul tíðindi og ný að fátt er um kærleika þegar þessi lið takast á enda er jafnan all nokkuð undir þegar þau leiða saman hesta sína. Það sama er uppi núna.
Flestir sparkspekingar telja að Chelsea sé allt að því komið með enska meistaratitilinn í sínar hendur. Að minnsta kosti eru einhverjir fingur þeirra farnir að seilast í áttina að bikarnum. Þess vegna er leikur Liverpool og Manchester United nú á sunnudaginn talinn lykilleikur í baráttu liðanna um annað sætið í deildinni. Margir telja að Liverpool standi betur að vígi í þeirri baráttu enda á liðið tvo leiki óleikna. En það eru engin stig komin í hús úr þeim leik og víst er betra að hafa þau í húsi. En Liverpool getur með sigri á sunnudaginn komist upp fyrir Manchester United og það myndi óneitanlega styrkja stöðu liðsins mikið. Ekki síst sálfræðilega.
Leikmenn Liverpool hafa átt frí frá leikjum í þessari viku og líklega hefur hvíldin komið leikmönnum liðsins vel. Ekki svo að skilja að leikmenn liðsins hafi ekki hafst neitt að enda vel æft þó svo leikir hafi ekki verið á dagskrá. En Manchester United lék nú í vikunni aukaleik gegn lærisveinum Nigel Clough sem um tíma lék með Liverpool. Hver man ekki eftir því þegar hann skoraði tvö mörk fyrir Liverpool þegar liðin skildu jöfn 3:3 í ógleymanlegum leik á Anfield Road í janúar 1994. Lið Manchester United verður auðvitað gerbreytt frá leiknum við Burton þar sem flestir af bestu mönnum liðsins tóku ekki þátt í þeim leik. Liverpool hefur alla sína bestu menn leikfæra. Ekki veitir af í stórleik sem þessum.
Fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli í mjög jöfnum leik. Liverpool var þó kannski heldur nær sigri ef eitthvað var. Sá leikur markaði endalok ferils Roy Keane með Manchester United. Hann fór ristarbrotinn af leikvelli undir lok leiksis og lék aldrei aftur fyrir hönd Rauðu djöflanna. En það var svo sem kannski ekki svo slæmt að enda ferilinn í leik gegn Evrópumeisturunum! Víst er að stuðningsmenn Liverpool munu halda þeirri nafnbót hátt á lofti á Old Trafford á sunnudaginn. Fimm fingur á lofti verður algeng sjón hjá stuðningsmönnum Liverpool. Svo er bara að vona að leikmenn Liverpool fái líka tækifæri til að rétta upp fimm fingur eins og Robbie Fowler gerði í Manchester um síðustu helgi!
Manchester United v Liverpool
United hefur bætt sig í deildinni, að undanförnu, þegar á heildina er litið. En þó var rangt valið í liðið gegn Man City um síðustu helgi. Leikform Liverpool hefur verið framúrskarandi gott. En leikur liðanna fyrr á leiktíðinni var leiðinlegur enda eiga þessi lið það til að leika stál í stál þegar þau eigast við. Ef Liverpool heldur áfram á sömu braut gæti liðið hafnað í öðru sæti. En það ræðst af því hvernig liðinu gengur að fást við álagið í Meistaradeildinni. Manhcester United þarf ekki að hafa áhyggjur af truflun úr þeirri áttinni.
Úrskurður: Manchester United v Liverpool 1:1.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!