Í hnotskurn
Allt snerist um endurkomuna. Endurkoma Guðs varð næstum fullkomin . Aðeins árvökull línuvörður kom í veg fyrir fullkomnum. Þetta er leikur Liverpool og Birmingham City í hnotskurn.
- Þetta var 40. leikur Evrópumeistaranna á leiktíðinni. Hún hófst eins og allir muna í júlí.
- Þetta var eitthundraðasti leikurinn sem Rafael Benítez stjórnar Liverpool í.
- Í þessum hundrað leikjum hefur Liverpool unnið 56, gert 19 jafntefli og tapað 25.
- Það snerist allt um endurkomu Robbie Fowler á Anfield Road.
- Robbie byrjaði á bekknum en það var mikill fögnuður hjá áhorfendum þegar hann kom út á völlinn til að hita upp.
- Ekki varð fögnuður áhorfenda minni þegar nafn hans var lesið upp fyrir leikinn. Þulurinn magnaði upp stemmninguna með því að geyma nafnið hans þar til síðast!
- Robbie hefur ekki gleymt gömlum hefðum. Hann snerti skiltið This is Anfield þegar hann fór til leiks með félögum sínum.
- Þegar Robbie kom inn á ætlaði allt af göflunum að ganga. Fögnuðurinn var næstum meiri en þegar Steven Gerrard skoraði mínútu fyrr!
- Þetta var 331. leikur Robbie Fowler með Liverpool. Það liðu 1.528 dagar milli þess 330. leiksins og þess 331.
- Daninn Daniel Agger lék sinn fyrsta leik með Liverpool. Hann varð þar með þriðji Daninn til að leika með Liverpool. Þeir Jan Mölby og Torben Piechnik.
- Jamie Carragher kom ekki við sögu. Hann lék hverja einustu mínútu í deildarleikjum Liverpool á síðustu leiktíð og hafði gert það fram til þessa á þessari.
- Luis Garcia sneri aftur til leiks eftir meiðsli.
- Birmingham virðist hafa náð einhverju taki á Liverpool. Liðið vann báða leikina gegn Liverpool á síðustu leiktíð. Nú á þessari leiktíð skildu liðin jöfn í báðum leikjum sínum í deildinni. En Liverpool hefur samt aðeins tapað þremur af síðustu 19 deildarleikjum við Birmingham.
- Síðasta mark Emile Heskey fyrir Liverpool kom vorið 2004 þegar Birmingham! Liverpool vann þá 3:0 útisigur og það er síðasti sigur liðsins gegn Birmingham í bili.
- Birmingham varð fyrst liða til að skora hjá Liverpool á Anfield Road frá því Chelsea skoraði fjögur mörk þar í haust. Liverpool hefur aðeins fengið á sig mark eða mörk í tveimur af 12 heimaleikjum sínum í deildinni.
- Birmingham varð líka fyrsta liðið sem skoraði hjá Liverpool í deildarleik á leiktíðinni.
- Leikmenn Liverpool hjálpuðu Birmingham full mikið við markskorun á leiktíðinni. Xabi Alonso skoraði sjálfsmark í þessum leik . Í fyrri leiknum skoraði Stephen Warnock sjálfsmark.
- Af sóknarmönnum Liverpool þá hefur aðeins Florent Sinama Pongolle skorað á árinu. Hann skoraði tvívegis í bikarsigrinum á Luton Town.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Riise, Garcia, Gerrard (Alonso 72. mín.), Hamann, Kewell, Crouch (Fowler 63. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson, Carragher og Warnock.
Mark Liverpool: Steven Gerrard (62. mín.)
Birmingham: Taylor, Melchiot, Latka, Upson, Gray, Pennant, Kilkenny (Tebily 64. mín.), Johnson, Dunn (Lazaridis 34)(Bruce 90. mín.), Heskey og Sutton. Ónotaðir varamenn: Vaesen og Forssell.
Rautt spjald: Damien Johnson (28. mín.).
Mark Birmingham: Xabi Alonso, sjálfsmark (88. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 43.851.
Maður leiksins: Harry Kewell. Ástralinn lék gríðarlega vel. Hann var alltaf á ferðinni og notaði hvert tækifæri til að herja á vörn Birmingham. Það er frábært að sjá hann leika svona vel eftir alla þá erfiðleika sem hann er búinn að ganga í gegnum.
Jákvætt :-) Robbie Fowler er kominn heim. Gleði stuðningsmanna Liverpool yfir því er mikil og stemmningin sem var á Anfield Raod vegna endurkomu hans var ótrúleg. Liverpool lék á köflum vel. Færi sköpuðust en það gekk verr að nýta þau. Danile Agger stóð sig vel í sínum fyrsta leik. Hann átti reyndar undir högg að sækja framan af en hann bætti sig og í heild virðist hann lofa góðu. Tíminn leiðir þó í ljós hvernig honum kemur endanlega til að vegna hjá Liverpool.
Neikvætt :-( Línuvörðurinn sá að Robbie Fowler var rangstæður! Hann hefði nú getað sleppt því að flagga bara svona í tilefni dagsins! Sóknarmenn Liverpool voru enn ekki fengsælir uppi við mark andstæðinga sinna. Það var ein ástæðan fyrir því að Liverpool náði ekki að gera út um leikinn. Augnabliks einbeitingarleysi kostaði dýrmætan sigur.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool réði ferðinni frá upphafi en gestirnir voru ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir. Steven Gerrard átti fyrsta færi leiksins en bylmingsskot hans eftir aukaspyrnu fór rétt yfir markið. En eftir tuttugu mínútur fékk Birmingham dauðafæri. Daniel Agger, sem lék sinn fyrsta leik, urðu þá á slæm mistök. Hann kom boltanum ekki frá. Emile Heskey fékk boltann og sendi hann á Chris Sutton sem var í dauðafæri en Jose Reina varði mjög vel. Peter Crouch átti svo skalla rétt framhjá. En á 28. mínútu fækkaði í liði heimamanna þegar Damien Johnson var rekinn af velli fyrir hörkulega tæklingu á Daniel Agger. Fátt gerðist markvert fram að leikhléi. Robbie hitaði vel upp í hléinu og það var greinilegt að hann átti að koma til leiks. Kannski virkaði sú vitneskja sem hvati á leikmenn Liverpool sem byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti. peter Crouch skallaði rétt framhjá og litlu síðar skallaði Mario Melchiot boltann í stöng á eigin marki þegar hann reyndi að bjarga marki. Þar kom að Liverpool skoraði á 62. mínútu. Þungri sókn lauk með því að Fernando Morients lagði boltann vel fyrir Steven Gerrard sem þrumaði honum í mark utarlega úr teignum. Eitthvað sneri boltinn varnarmann á leiðinni í markið en það breytti engu. Mikill fögnuður braust út þegar markinu var fagnað en hávaðinn varð enn meiri þegar Robbie Fowler kom til leiks áður en leikinn hófst að býju eftir markið. Varamanni hefur líklega aldrei verið fagnað eins mikið í sögu Liverpool. Hver einasti og einn einasti stuðningsmaður Liverpool stóð á fætur og klappaði fyrir Robbie. Á eftir var nafn hans sungið hástöfum. Leikmenn Liverpool ætluðu sér greinilega að gera út um leikinn en það gekk brösuglega. Besta færið fékk Luis Garcia en hann skaut framhjá í dauðafæri. Eins hefði Fernando Morientes átt að skora. En Liverpool átti líka að fá vítaspyrnu og jafnvel tvær. En undir lok leiksins fóru gestirnir allt í einu að reyna að sækja. Jose Reina varði þá frábærlega skalla frá Emile Heskey. Rétt á eftir, tveimur mínútum fyrir leikslok, skallaði Chris Sutton fyrirgjöf inn á markteiginn. Xabi Alonso kom þar að og stýrði boltanum í eigið net með brjóstkassanum. Það var ómögulegt að segja hvað hann ætlaðist fyrir. Þá upphófst ein mesta orrahríð sem Liverpool hefur haldið uppi að marki andstæðinga í langan tíma. Maik Taylor varði fyrst frábærlega fasta aukaspyrnu frá Xabi Alonso. Eftir hornspyrnuna sem fylgdi fékk Xabi aftur færi á að bæta fyrir mistök sín en aftur varði Maik frá honum nú af stuttu færi. Enn kom hornspyrna og eftir hana átti Dietmar Hamann skot sem hafnaði í þverslá. Ekki var allt búið enn og eftir langt innkast skoraði Robbie Fowler frábært mark með stórkostlegri hjólhestaspyrnu. En því miður þá var hann rangstæður. Endurkoman var næstum fullkomin en því miður ekki alveg.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!