Í hnotskurn
Fyrsta mark Sami Hyypia á leiktíðinni tryggði Liverpool sigur í fyrstu heimsókn liðsins til Wigan. Metaðsókn í Wigan enda Evrópumeistarar á ferð. Þetta er leikur Liverpool og Wigan Athletic í hnotskurn.
- Ein af styttri ferðum Liverpool á leiktíðinni. Wigan er stutt frá Liverpool. Borgin er á milli Liverpool og Manchester.
- Þetta var fyrsta heimsókn Liverpool til Wigan til að leika opinberan knattspyrnuleik.
- Liverpool átti reyndar að leika á Springfield Park gamla heimavelli Wigan í Deildarbikarnum haustið 1989 en þá áttust liðin við í tveimur leikjum. Liverpool vann fyrri leikinn 5:2 á Anfield Road. Glenn Hysen skoraði fyrsta mark Liverpool. Ian Rush bætti tveimur við. Þeir Peter Beardsley og John Barnes skoruðu svo undir lok leiksins.
- En Liverpool spilaði aldrei í Wigan því seinni leikurinn fór fram á Anfield Road þar sem heimavöllur Wigan var ekki leikhæfur. Liverpool vann þann leik 3:0.
- Það gerðist sögulegur atburður í þeim leik. Steve Staunton kom inn sem varamaður og skoraði öll þrjú mörk Liverpool. Þetta er í eina skiptið sem varamður hefur skorað þrennu fyrir Liverpool.
- Liverpool spilaði því aldrei á Springfield Park. Wigan hefur leikið á JJB leikvanginum síðustu ár. Leikvangurinn ber nafn íþróttaverslunarkeðjunnar JJB.
- Það var eins gott að Wigan komst ekki yfir í leiknum. Liðið hefur unnið alla tíu deildarleikina sem liðið hefur náð forystu í á leiktíðinni.
- Wigan gengur illa að halda markinu hreinu. Liðinu hefur aðeins einu sinni tekist það í síðustu tólf leikjum.
- Sami Hyypia skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni.
- Þetta var 25. mark Finnans á ferli sínum hjá Liverpool. Hann hefur leikið 355 leiki.
- Robbie Fowler var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool eftir heimkomuna.
- Þeir fyrrum leikmenn Liverpool Stephane Henchoz og David Thompson gáfu ekkert eftir gegn gamla liðinu sínu. Svo vasklega gegnu þeir fram að báðir voru bókaðir í fyrri hálfleik!
- Mark Liverpool var einstakt. Miðvörður gaf á hinn miðvörð liðsins sem var orðinn frmmst maður í sókn og skoraði!
- Hið einstaka samband Robbie Fowler við áhorfendur kom vel í ljós þegar hann var farinn að gefa eiginhandaráritun rétt eftir að hann var sestur á varamannabekkinn þegar honum hafði verið skipt út af.
- Liverpool átti þátt í meti því það hafa aldrei fleiri áhorfendur sótt JJB leikvanginn heim. Alls mættu 25.023 áhorfendur á leikinn. Það var svo sem ekki skrýtið þótt metaðsókn væri á leikinn. Evrópumeistararnir voru í heimsókn!
- Völlurinn var mjög ósléttur enda hafði ruðningslið Wigan leikið á vellinum kvöldið fyrir leikinn.
- Ruðningsliðið hefur lengi verið stolt borgarbúa og hefur knattspyrnulið borgarinnar lengst af staðið í skugga ruðningsliðsins.
- Knattspyrnuliðið hefur samt komið sér á spjöld sögunnar á þessari leiktíð með því að leika í efstu deild í fyrsta sinn og komast í úrslitaleik Deildarbikarsins þar sem liðið mætir Manchester United seinna í mánuðinum. Víst er að stuðningsmenn Liverpool styðja Wigan í þeim leik!
Wigan: Pollitt, Jackson, Henchoz, De Zeeuw, Ziegler, Teale, Bullard, Kavanagh, Thompson, Scharner og Johansson (Baines 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Filan, Mahon, Francis og Joyce.
Gul spjöld: David Thompson og Stephane Henchoz.
Liverpool: Dudek, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso, Hamann, Kewell, Morientes (Cissé 70. mín.) og Fowler (Kromkamp 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Traore og Sissoko.
Mark Liverpool: Sami Hyypia (30. mín.).
Áhorfendur á JJB leikvanginum: 25.023.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Það var ekki nóg með að Sami hafi skorað sigurmark Liverpool. Hann lék líka mjög vel í vörninni. Enn svaraði Sami gagnrýni með stórleik. Hann var nokkuð gagnrýndur eftir leikinn gegn Charlton. En Finninn svarði með marki og stórleik.
Jákvætt :-) Liverpool náði að vinna eftir fjóra deildarleiki án sigurs. Sami Hyypia tryggði sigur með fyrsta marki sínu á leiktíðinni. Jerzy Dudek lék mjög vel í markinu. Þeir Sami og Jamie voru frábærir í hjarta varnarinnar. En þeir sköpuðu líka sigurmarkið! Robbie lék vel í sókninni. Leikmenn Liverpool börðust mjög vel og höfðu sigur þrátt fyrir að leika ekki mjög vel. Það er góðs viti.
Neikvætt :-( Líkt og svo oft á leiktíðinni gekk Liverpool hægt að bíta mótherja sína alveg af sér. Oft hefur Liverpool haft eins marks forystu í leikjum á leiktíðinni og því verið óþarfa spenna á lokamínútunum í leikjum liðsins. Sóknarmenn liðsins náðu ekki að skora.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikurinn var harður og ekkert var gefið eftir frá upphafsflauti. Ekki dró það úr hamaganginum að völlurinn var mjög ósléttur eftir að ruðningskappar borgarinnar höfðu leikið listir sínar þar kvöldið fyrir leikinn. Boltinn fór því alls ekki alltaf þangað sem leikmenn vildu. Það kom því ekki á óvart að liðunum gekk ekki vel að byggja upp góðar sóknir. Evrópumeistararnir voru þó hættulegri. Sóknarleikurinn var betri en í síðustu leikjum og var það Robbie Fowler að þakka. Hann var líflegur í sókninni og reyndi alltaf að skapa eitthvað. Hann fékk fyrsta færið en skalli hans fór beint á Mike Pollitt í marki Wigan. Eftir hálftíma náðu Evrópumeistararnir forystu. Steven Gerrard sendi þá aukaspyrnu fyrir markið. Heimamönnum tókst ekki að koma boltanum langt frá. Jamie Carragher sendi boltann aftur fyrir sig inn á teiginn. Boltinn rataði beint til Sami Hyypia, félaga hans í vörninni, sem var fremmsti maður. Sami lét fyrrum félaga sinn Stephane Henchoz ekki stöðva sig og skaut að marki. Skotið var ekki vel heppnað en boltinn fór í markið þrátt fyrir að Mike hefði hendur á boltanum. Markinu var fagnað innilega af leikmönnum Liverpool. Ekki kom á óvart að Robbie Fowler var fyrstur til að fagna Sami. Rétt undir lok hálfleiksins sendi Robbie frábæra sendingu inn fyrir á Fernando Morientes en Mike varði frábærlega frá honum. Markvarslan var frábær en Spánverjinn átti að skora. Fyrrum leikmenn Liverpool hjá Wigan þeir David Thompson og Stephane Henchoz voru báðir bókaðir fyrir leikhlé. Það var greinilegt að þeir ætluðu ekki að gefa sínum fyrri félögum eitt né neitt! Heimamenn komu grimmir til leiks eftir leikhlé. Reyndar var enginn sóknarmaður í liði Wigan en sem fyrr á leiktíðinni reyndu leikmenn liðsins sitt besta. Nú kom loks til kasta Jerzy Dudek og Pólverjinn stóð fyrir sínu. Hann varði frábærlega skalla frá Andreas Johansson með því að slá boltann yfir. Hinum megin varði Mike Pollitt vel þrumuskot frá Steven Gerrard sem komst í gott færi eftir góðan undirbúning Robbie og Fernando. Jerzy varði svo mjög vel frá félaga sínum Sami Hyypia sem sendi boltann að eigin marki þegar hann var að koma fyrirgjöf heimamanna frá. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu en leikmenn Liverpool börðust eins og ljón. Arjan De Zeeuw fyrirliði Wigan átti tvo skalla yfir úr góðum færum en nær komst heimamenn ekki. Djibril Cissé kom skoti á markið undir lokin sem Mike varði. En langþráður sigur Liverpool náðist. Liðið lék ekkert sérlega vel en í þetta sinn skipti það ekki máli.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!