Síðbúið sigurmark skaut Skytturnar niður
Luis Garcia færði stuðningsmönnum Liverpool síðbúinn Valantínusarglaðning með því að skora sigurmarkið gegn Skyttunum rétt fyrir leikslok. Stórleikur Jens Lehmann kom í veg fyrir stórsigur Evrópumeistaranna sem áttu leikinn með húð og hári. Jens varði meðal annars vítaspyrnu frá Steven Gerrard. Það sagði sína sögu um framgöngu Þjóðverjans að áhorfendur á The Kop klöppuðu honum lof í lófa í leikslok. Sigurinn var sætur og Jamie Carragher gat glaðst eftir fjögurhundraðasta leik sinn með Liverpool.
Fyrir leikinn var meistarans Bob Paisley minnst á tíu ára dánardægri hans með því að áhorfendur á Anfield Road klöppuðu fyrir honum. Bob hefði verið ánægður með leik Evrópumeistaranna í kvöld. Nema þá það hversu treglega gekk að koma boltanum í markið. Líkt og í síðustu leikjum þá gekk það illa. Liverpool tók leikinn strax í sínar hendur og bikarmeistararnir áttu í vök að verjast. Gestirnir fengu þó fyrsta hættulega færið. Kolo Toure skallaði þá framhjá úr mjög góðu færi. Þetta reyndist eina færi Arsenal í fyrri hálfleik. John Arne Riise var nærri búinn að skora en fast skot hans fór rétt framhjá. Jens Lehmann varði næst frábærlega þegar afmælisbarnið Philippe Senderos var næstum búinn að skora sjálfsmark. Svisslendingurinn skallaði þá fyrirgjöf Steven Gerrard í átt að eigin marki en Jens varði á síðustu stundu. Á 32. mínútu fékk Liverpool vítaspyrnu þegar dómarinn taldi að Emmanuel Eboue hefði ýtt við Fernando Morientes. Dómurinn þótti nokkuð harður en líklega mátti réttlæta hann. Gestunum fannst samt réttlætinu fullnægt þegar Jens varði góða vítaspyrnu Steven Gerrard með því að skutla sér til hægri og slá boltann frá. Frábær markvarsla. Það dró heldur úr ákafa Liverpool fram að leikhléi en Skytturnar ógnuðu heimamönnum aldrei.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og sem fyrr lá á Skyttunum. Eftir svo sem fimm mínútur í síðari hálfleik fékk Robbie Fowler boltann inn á vítateiginn frá Steven Gerrard. Hann sneri varnarmann af sér og náði hnitmiðuðu skoti á markið. Boltinn stefndi inn en Jens náði til boltans og varði á síðustu stundu. Upp úr þurru náðu gestirnir sínu fyrsta og eina skoti á markrammann. Thierry Henry átti þá bylmingsskot að marki utan teigs sem Jerzy Dudek varði vel með því að slá boltann frá. Eftir rúmlega klukkustundar leik sendi Steven frábæra sendingu fyrir markið á Fernando Morientes sem skallaði framhjá úr upplögðu færi. Hann hefði átt að skora miðað við hversu góður skallamaður hann er. Áfram sótti Liverpool. Jens varði hjólhestaspyrnu frá Harry Kewell og glæsilegri hælspyrnu Sami Hyypia var bjargað á marklínu. Það virtist stefna í, líkt og í of mörgum leikjum það sem af er ársinu, að yfirburðir Liverpool myndu ekki duga til að vinna sigur. En þremur mínútum fyrir leikslok kom það sem stuðningsmenn Liverpool voru búnir að bíða eftir. Dietmar Hamann átti þá þrumuskot að marki utan vítateigs. Boltinn stefndi í markið en landi hans varði enn einu glæsilega. Hann hélt þó ekki boltanum. Luis Garcia, sem var búinn að vera inni á vellinum í þrjár mínútur, náði frákastinu og náði að koma boltanum í markið úr þröngu færi. Þjóðverjinn var þó ekki fjarri því að verja. Trylltur fögnuður tók við innan vallar sem utan. Markið var síðbúið en það tryggði fyllilega sanngjarnan sigur Liverpool!
Liverpool: Dudek, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Sissoko (Garcia 84. mín.), Alonso (Hamann 72. mín.), Kewell, Morientes og Fowler (Cissé 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Traore.
Mark Liverpool: Luis Garcia (87. mín.)
Arsenal: Lehmann, Eboue, Toure, Senderos, Flamini, Ljungberg, Fabregas, Silva, Pires (Hleb 79.mín.), Adebayor og Henry. Ónotaðir varamenn: Almunia, Diaby, Larsson og Djourou.
Gult spjald: Freddie Ljungberg.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.065.
Rafael Benítez var stoltur af sínum mönnum eftir leikinn. ,,Leikmennirnir sýndu mikinn skapstyrk. Við verðskulduðum að vinna leikinn. Við héldum áfram að sækja og setja pressu á Arsenal til loka leikins. Markvörður Arsenal var ótrúlegur og hann varði nokkrum sinnum frábærlega. En sem betur fer náði Luis að skora. Luis er leikmaður sem hefur auga fyrir að skora mörk og hann gerði það í kvöld."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!