Mark spáir í spilin
Liverpool fær nú tækifæri til að slá Manchester United út úr F.A. bikarnum í fyrsta sinn frá því fyrir heimskreppuna miklu. Hvort sem menn trúa því eða ekki þá eru áttatíu og fimm ár liðin frá því Liverpool hafði betur gegn Rauðu djöflunum í þessari keppni. Stuðningsmönnum Liverpool finnst að nú sé tími til kominn að slá Manchester United úr þessari sögufrægu keppni og þó fyrr hefði verið. Liverpool hefur varla gengið verr gegn nokkru liði í F.A. bikarnum. Af tíu rimmum liðanna í keppnunum á þremur öldum hefur Liverpool aðeins haft betur í tvígang. En það hefur verið hart barist í þeim fjórtán leikjum sem þessar rimmur hafa spannað og oft mátt litlu muna. Til dæmis hefur fjórum sinnum þurft aukaleiki til að útkljá rimmurnar. Töp Liverpool í þessum rimmum hafa mörg verið sár. Tvívegis hefur Liverpool mátt þola tap í úrslitum og jafn oft í undanúrslitum. Það eru því nóg efni til að hefna fyrir.
Það er sannarlega tími til kominn að Liverpool nái að klekkja á Manchester United í F.A. bikarnum. Nú fá Evrópumeistararnir upplagt tækifæri til að gera það. Heimaleikur er í vændum og The Kop mun ekki láta sitt eftir liggja. Tólfti maðurinn verður án nokkurs vafa tilbúinn að leggja allt í sölurnar ekki síður en leikmenn Liverpool. Reyndar hefur Liverpool aldrei lagt Manchester United að velli á Anfield Road. Reyndar vann Liverpool heimaleik liðanna árið 1898 en þá hét Manchester United ennþá Newton Heath! Liverpool vann svo á Old Trafford síðast þegar liðið lagði Manchester United að velli í keppninni árið 1921. En á morgun er ný öld í rimmum liðanna í Ensku bikarkeppninni. Vonandi færir hún Liverpool betra gengi gegn Manchester United í F.A. bikarnum en þær tvær síðustu! Mark Lawrenson var í tapliði Liverpool í bikarrimmunni árið 1985. Hvernig skyldi þessi leikur leggjast í hann?
Liverpool v Manchester United
Liverpool gæti knúið fram sigur. Ég gæti trúað því að það væri komið að þeim að slá Manchester United út úr bikarnum. Ég veit að það eru ekki mikil rök á bak við það en stundum fá leikmenn það á tilfinninguna að það sé kominn röðin að þeim að vinna.
Tveir leikir liðanna í Úrvalsdeildinni á þessari leiktíð hafa aðeins gefið eitt mark af sér. En ég held að hvorugt liðið vilji að það þurfi aukaleik. Þess vegna gæti þetta orðið nokkuð opinn leikur.
Úrskuður: Liverpool v Manchester United. 2:1.
Fyrri rimmur í F.A. bikarnum
12. febrúar 1898. 2. umferð. Newton Heath 0-0 Liverpool.
16. febrúar 1898. 2. umferð aukaleikur. Liverpool 2-1 Newton Heath.
7. febrúar 1903. 1. umferð. Manchester United 2-1 Liverpool.
18. janúar 1921. 1. umferð. Liverpool 1-1 Manchester United.
12. janúar 1921. 1. umferð aukaleikur. Manchester United 1-2 Liverpool.
24. janúar 1948. 4. umferð. Manchester United 3-0 Liverpool.
30. janúar 1960. 4. umferð. Liverpool 1-3 Manchester United.
21. maí 1977. Úrslit. Liverpool 1-2 Manchester United. Liverpool missti af Tvennunni. Stuart Pearson kom rauðu djöflunum yfir en Jimmy Case jafnaði með bylmingsskoti. Jimmy Greenhoff skoraði svo algert heppnismark sem reyndist sigurmark leiksins. Liverpool var óheppið að tapa leiknum.
31. mars 1979. Undanúrslit. Manchester United 2-2 Liverpool. Leikið var á Maine Road. Þeir Kenny Dalglish og Alan Hansen skoruðu fyrir Liverpool en Joe Jordan og Brian Greenhoff fyrir Manchester United. Terry McDermott skaut í stöng úr vítaspyrnu. Liverpool var miklu sterkari aðilinn og hefði átt að vinna leikinn.
4. apríl 1979. Undanúrslit aukaleikur. Manchester United 1-0 Liverpool. Leikið var á Goodison Park. Jimmy Greehoff skoraði sigurmarið í miklum baráttuleik.
13. apríl 1985. Undanúrslit. Manchester United 2-2 Liverpool. Leikið var á Goodison Park. Liverpool lék ekki vel og slapp með jafntefli eftir að hafa jafnað í tvígang. Þeir Ronnie Whelan og Paul Walsh skoruðu fyrir Liverpool.
17. apríl 1985. Undanúrslit aukaleikur. Manchester United 2-1 Liverpool. Liverpool lék betur en í fyrri leiknum og komst yfir með sjálfsmarki Paul McGrath en mörk frá þeim Bryan Robson og Mark Hughes sneru dæminu við.
11. maí 1996. Úrslit. Liverpool 0-1 Manchester United. Leikurinn var mjög jafn og vart mátti í milli sjá. En síðbúið mark Eric Cantona olli ósanngjörnu tapi.
24. janúar 1999. 4. umferð. Manchester United 2-1 Liverpool. Michael Owen kom Liverpool yfir með skalla snemma leiks. Sókn heimamanna þyngdist jafnt og þétt eftir því sem leið á leikinn. Tvö mörk í blálokin urðu Liverpool að falli.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!