Í hnotskurn
Álögunum aflétt og tími til kominn! Peter Crouch tryggði fyrsta sigur Liverpool á Manchester United í F.A. bikarnum í áttatíu og fimm ár. Þetta er leikur Liverpool og Manchester United í hnotskurn.
- Bikarrimmur Liverpool og Manchester United í F.A. bikarnum ná nú yfir á þriðju öld!
- Þetta var í ellefta sinn sem Liverpool og Manchester United hafa gengið á hólm í F.A. bikarnum.
- Þetta var í þriðja sinn sem Liverpool hefur haft betur í viðureignum liðanna í keppninni.
- Liverpool lagði Manchester United síðast að velli í F.A. bikarnum fyrir áttatíu og fimm árum. Það gerðist þann 12. janúar árið 1921 þegar Harry Chambers skoraði sigurmark Liverpool 2:1 í aukaleik í 1. umferð á Old Trafford. Bill Lacy skoraði hitt markið.
- Það má segja að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem Liverpool vann Manchester United á Anfield í keppninni. Reyndar vann Liverpool 2:1 heimasigur á hinum fornu fjéndum sínum í aukaleik í 2. umferð keppninnar leiktíðina 1897/98. En þá hét Manchester United enn Newton Heath! Þeir Tom Wilkie og Daniel Cunliffe skoruðu mörk Liverpool í þeim sigri.
- Þetta var nítjándi bikarleikur Liverpool á leiktíðinni.
- Þetta var aðeins í annað sinn sem Liverpool dregst á heimavelli í F.A. bikarnum síðustu fjórar leiktíðirnar.
- Þetta var í fyrsta sinn sem Rafael Benítez stýrði Liverpool til sigurs á Manchester Unted eftir að hann tók við stjórninni hjá Liverpool.
- Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Manchester United á Anfield Road frá því haustið 2001. Liverpool vann þá 3:1 sigur. John Arne Riise skoraði þá sinn fræga mark úr aukaspyrnu og Michael Owen skoraði tvívegis.
- Peter Crouch skoraði sitt áttunda mark á leiktíðinni. Þetta var fyrsta mark hans í F.A. bikarnum fyrir Liverpool.
- Það tók langan tíma að hlúa að Alan Smith eftir hin hræðilegu meiðsli hans. Meiðslatíminn varð því sá lengsti sem ég man eftir í leik með Liverpool eða um átta mínútur.
- Þeir Harry Kewell, fyrrum félagi Alan hjá Leeds, og Djibril Cissé fóru til hans eftir leikinn og óskuðu honum góðs bata.
- Alan Smith var þakklátur fyrir að flestir stuðningsmenn Liverpool skyldu klappa fyrir honum þegar hann var borinn af leikvelli. Eins var hann þakklátur læknaliði Liverpool sem hjálpaði til við að hlúa að honum.
- Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir í leiknum og studdu vel og dyggilega í bakið á sínum mönnum. Líkt og í fyrri leikjum liðanna á þessari leiktíð þá minntu stuðningsmenn Liverpool stuðningsmenn Manchester United vel og rækilega á Evrópusigrana fimm!
- Líkt og í bikarleiknum gegn Luton og Portsmouth þá var eftirlíking af Evrópubikarnum með í för hjá einhverjum stuðningsmanni Liverpool.
Liverpool: Reina, Riise, Hyypia, Carragher, Finnan, Kewell (Kromkamp (82. mín.), Sissoko, Hamann, Gerrard, Morientes (Garcia 62. mín.) og Crouch (Cissé 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.
Mark Liverpool: Peter Crouch (19. mín.).
Gul spjöld: Dietmar Hamann, Sami Hyypia, Jamie Carragher og Harry Kewell.
Manchester United: Van der Sar, Silvestre (Saha 45. mín.), Brown, Vidic, Neville, Giggs, Richardson, Fletcher (Smith 76. mín.) Park 90. mín.), Ronaldo, Rooney og Nistelrooy. Ónotaðir varamenn: Howard og Pique.
Gul spjöld: Ryan Giggs, Gary Neville og Nemanja Vidic.
Áhorfendur á Anfield: 44.039.
Maður leiksins: Peter Crouch. Kannski léku einhverjir leikmenn Liverpool betur en Peter verður fyrir valinu því það var markið hans sem tryggði fyrsta sigur Liverpool í F.A. bikarnum í áttatíu og fimm ár. Reyndar voru allir leikmenn Liverpool hetjur en Peter á skilið að verða fyrir valinu eftir að hafa skorað þetta sögulega mark.
Jákvætt :-) Liverpool fór áfram í F.A. bikarnum. Liverpool náði loksins að aflétta áttatíu og fimm ára gömlum álögum og slá Manchester United út úr F.A. bikarnum! Hver einn og einasti leikmaður Liverpool lagði allt sitt í leikinn og útkoman var sanngjarn sigur Evrópumeistaranna. Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir og hvöttu menn sína til dáða allan leikinn. Reyndar er ég persónulega búinn að vonast eftir því í nokkur ár að Liverpool fengi Manchester United í heimsókn á Anfield Road í F.A. bikarnum til að hefna fyrir einhver af bikartöpunum. Það kom loksins að því á þessum besta Þorraþræl í manna minnum! Þetta var því einn af þessum fullkomnu dögum þegar Liverpool lagði Rauðu djöflana að velli og þessi sigur var með þeim sætari af þeirri gerðinni.
Neikvætt :-( Hvernig getur maður kvartað yfir nokkrum hlut eftir svona sætan og langþráðan sigur? Nei, það er bara ekki hægt!
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Það var ekki gefið neitt eftir frá fyrstu mínútu á Anfieldí dag. Ekki það að nokkur ætti von á því. Það var mikil spenna í loftinu og leikmönnum beggja liða gekk lítið að ná samleiksköflum framan af. En Liverpool náði smá saman yfirhöndinni og á 18. mínútu kom fyrsta hættulega færi leiksins. Steven Gerrard sendi þá aukaspyrnu frá hægri fyrir markið. Harry Kewell skallaði að markinu en Edwin van der Sar varði frábærlega í horn með því að slá boltann framhjá. Steven Gerrard tók hornspyrnuna stutt á Steve Finnan sem sendi fyrir markið. Þar stökk Peter Crouch manna hæst og skallaði boltann neðst í markhornið fjær. Boltinn fór í stöngina innanverða eftir marklínunni þar til hann fór inn út við hina stöngina. Sami Hyypia fylgdist vel með ef það þyrfti að hjálpa boltanum inn í markið. Það þurfti ekki og allt gekk af göflunum af fögnuði innan vallar sem utan í Musterinu. Liverpool hélt áfram að hafa undirtökin og á 34. mínútu gafst frábært færi til að auka forystuna. Steven tók þá aftur aukaspyrnu frá hægri. Steve Finnan fékk boltann óvaldaður á fjarstöng og þrumaði honum í hliðarnetið. Liverpool var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og það var varla að leikmenn gestanna næðu að ógna marki Liverpool. Evrópumeistararnir byrjuðu síðari hálfleikinn vel. Wes Brown bjargaði á síðustu stundu með skalla eftir að John Arne Riise hafði sent hættulega sendingu fyrir markið. Litlu síðar var misskilningur milli Edwin í markinu og eins varnarmanna hans en Peter Crouch náði ekki að færa sér það í nyt. Ekki löngu síðar fékk Manchester United sitt besta færi í leiknum. Fyrirgjöf frá hægri skapaði misskilning í vörn Liverpool en Jose Reina náði að hreinsa á síðustu stundu. Gestirnir léku betur eftir því sem leið á hálfleikinn án þess þó að skapa nein hættuleg færi. Harry Kewell fékk hins vegar gott færi til að skora þegar hann fékk boltann í góðu færi eftir horn en hann náði ekki góðu skoti. Spennan jókst eftir því sem leið að leikslokum. Leikmenn Manchester United reyndu vað þeir gátu en hver einasti leikmaður Liverpool gaf allt sitt. Ryan Giggs átti langskot yfir og það var síðasta færi þeirra. Tveimur mínútum fyrir leikslok skaut John Anre Riise að marki af löngu færi eftir aukaspyrnu. Alan Smith henti sér fyrir boltann en lenti illa og fótbrotnaði. Það tók drjúgan tíma að huga að meiðslum hans enda voru þau mjög alvarleg. Sjúkraþjálfari Liverpool hjálpaði til við að gera að meiðslunum. Þegar leikurinn hófst á nýjan leik vissi enginn hversu miklu yrði bætt við leiktímann. Þegar upp var staðið var búið að leika í níutíu og átta mínútur. En það skipti engu. Sigurinn var Liverpool og fögnuður stuðningsmanna liðsins sagði sína sögu! Gleðin hrein og tær. Þetta reyndist vera einn besti þorraþræll í manna minnum. Áttatíu og fimm ára bið var á enda.
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur