| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Er góðs viti að mæta Benfica? Tap fyrir gömlum kunningjum í tíðindalitlum leik á Ljósvangi. Evrópumeistararnir verða að snúa blaðinu við í seinni leiknum. Þetta er leikur Liverpool og Benfica í hnotskurn.

- Þetta var sjöundi leikur Liverpool og Benfica í Evrópukeppni.

- Liverpool hefur ekki leikið ofar gegn neinu liði í Evrópukeppni.

- Í þau þrjú skipti sem Liverpool hefur leikið gegn Benfica áður hefur liðið alltaf komist í úrslit keppninnar.

- Leiktíðina 1977/78 vann Liverpool 2:1 í Lissabon og 4:1 á Anfield Road. Liverpool hélt áfram í úrslitin og vann Brugge 1:0 í úrslitaleiknum. Liðin mættust svo aftur leiktíðina 1983/84. Liverpool vann þá heimaleikinn 1:0 og 4:1 á Ljósvangi. Liverpool vann Roma eftir vítaspyrnukeppni í úrslitum. Enn mættust liðin á næstu leiktíð. Liverpool vann 3:1 á Anfield Road með þremur mörkum frá Ian Rush. Benfica vann 1:0 í Lissabon. Liverpool fór áfram en tapaði fyrir Juventus í úrslitaleik.

- Að auki lék Liverpool gegn Porto á leið sinni að sigri í Evrópukeppni félagsliða 2001. Það virðist sem sagt vera góðs viti að mæta Benfica eða öðrum portúgölskum liðum.

- Þetta var sem sagt í fjórða sinn sem Liverpool hefur leikið á Ljósvangi í Lissabon. En þetta var í fyrsta sinn sem liðið hefur leið á leikvanginum eftir að hann var endurbyggður. Þessi frægi leikvangur var endurbyggður fyrir úrslitakeppni Evrópukeppni landsliða 2005.

- Það vakti athygli að vallarstarfsmenn vökvuðu völlinn vel í hálfleik. En meiri athygli vakti þó að þeir virtust bara vökva vallarhelminginn sem Liverpool átti að verjast á eftir hlé.

- Liverpool fór í sextán liða úrslit sem sigurvegari úr sínum riðli. 

- Þetta var fyrsta tap Liverpool í Meistaradeildinni frá því liðið tapaði fyrir CSKA Sofia í undakeppninni í ágúst. 

- Jose Reina fékk á sig sitt fyrsta mark í keppninni frá því Real Betis skoraði gegn Liverpool í fyrsta leik riðlakeppninnar í haust.

- Frá því marki og fram að markinu sem Anderson Luisao skoraði liðu 573 mínútur. Jose setti þar með nýtt félagsmet hvað það varðar að halda markinu hreinu í Evrópukeppni. Fyrra metið var 561 mínúta og var frá leiktíðinni 1983/84. Benfica skoraði þá líka til að stoppa markaleysi mótherja Liverpool.

- Sami Hyypia lék sinn 57. Evrópuleik í röð. Það er félagsmet. Gamla metið var 55 leikir og átti Chris Lawler það.

Benfica: Moretto, Alcides, Luisao, Anderson, Leo (Ricardo Rocha 87. mín.), Robert (Nelson 76. mín.), Petit, Beto (Karagounis 58. mín.), Manuel, Simao og Nuno Gomes. Ónotaðir varamenn: Quim, Mantorras, Karyaka og Marcel.

Mark Benfica: Anderson Luisao (84. mín.). 

Gult spjald: Beto.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Luis Garcia, Sissoko (Hamann 35. mín.), Alonso, Kewell, Morientes (Gerrard 78. mín.) og Fowler (Cissé 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Crouch, Traore og Warnock.

Gul spjöld: Luis Garcia og Dietmar Hamann.

Áhorfendur á Estadio da Luz: 65.000.

Maður leiksins: Jamie Carragher var eins og klettur í vörninni. Hann braut þó nokkrar sóknir heimamanna á bak aftur og barðist eins og ljón. Sem sagt venjulegur leikdagur hjá Carra.

Jákvætt :-) Liverpool lék af yfirvegun og í raun gerði liðið bara ein mistök í leiknum. En því miður reyndust þau mjög dýrkeypt. Í heild sýndi liðið traustan leik og hefði ekki átt að tapa þessum leik.

Neikvætt :-(  Enn eitt eins marks tap þar sem Liverpool var aldrei í hættu að tapa fyrr en liðið fékk mark á sig. Enn einu sinni fær liðið á sig mark eftir fast leikatriði. Sóknarmenn liðsins náðu ekki að láta að sér kveða. Meiðsli Mohmed Sissoko voru alvarlegri en flestir áttu von á í fyrstu. Í versta falli gæti ferill hans verið í hættu.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikurinn var mjög svo tíðindalítill. Liverpool lék, eins og svo oft á útivelli í Evrópukeppni, af mikilli yfirvegun. Vörnin gaf engin færi á sér og Jose Reina hafði lítið að gera í markinu. Miðjumenn Liverpool léku vel en eins og svo oft áður náðu sóknarmennirnir illa að koma sér í færi. Eina færi Benfica í fyrri hálfleik kom eftir stungusendingu sem Jose Reina náði með glæsilegu úthlaupi á undan Simao Sabrosa. Hinu megin skapaðist mest hætta þegar Marcelo Moretto markvörður Benfica missti af boltanum þegar Robbie Fowler sótti að markinu en enginn leikmanna Liverpool var nærri til að færa sér mistökin í nyt. Mohamed Sissoko varð að yfirgefa leikvöllinn í hálfleiknum eftir að einn leikmanna Benfica hafði sparkað framan í hann. Dietmar Hamann leysti hann af. Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og Luis Garcia hefði átt að ná skoti á markið úr góðu færi en hann hitti boltann illa. Eftir um klukkutíma reyndi Petit að vippa yfir Jose af löngu færi en Spánverjinn var vandanum vaxinn. Heimamenn færðu sig aðeins upp á skaftið undir lokin en þó virtist aldrei vera mikil hætta á að þeir næðu marki. Rafael Benítez skipti þeim Djibril Cissé og Steven Gerrard inn á til að reyna að lífga upp á sóknarleikinn en skiptingarnar höfðu ekki mikið að segja. Steven gat ekki hafið leikinn vegna meiðsla en þau munu ekki hafa verið mjög alvarleg. Það var svo sex mínútum fyrir leikslok sem ógæfan dundi yfir. Benfica fékk aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Petit sendi inn á teiginn og þar náði varnarmaðurinn Anderson Luisao að komast fram fyrir Sami Hyypia og skalla boltann í markið óverjandi fyrir Jose. Þetta var alveg hroðalegur endir á leik sem Liverpool átti aldrei að tapa. En endirinn tryggir þó rafmagnað andrúmsloft á Anfield Road þegar Benfica kemur þangað í heimsókn. Þá dugar ekkert nema að skora fleiri en eitt mark og kannski fleiri en tvö!

  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan