Harry tryggði Liverpool sigur á Manchester City
Aðra helgina í röð mátti lið frá Manchester yfirgefa Liverpool með tap á bakinu. Um liðna helgi fór Manchester United heim með tap á bakinu og nú, á síðasta degi vetrarólympíuleikanna í Tórínó, fóru leikmenn Manchester City heim eftir að hafa tapað fyrir Evrópumeisturunum. Harry Kewell skoraði eina mark Liverpool. Liverpool var sterkara liðið en eins og svo oft áður á leiktíðinni gekk illa að nýta góð marktækifæri. Sigurinn færði Liverpool upp að hlið Manchester United í annað sætið. Liðið er þó enn í þriðja sæti á markahlutfalli. Robbie Fowler fylgdist með leiknum úr stúkunni. Hann kom ekkert við sögu þar sem félögin gerðu með sér heiðursmannasamkomulag um að hann léki ekki þennan leik þegar Robbie sneri heim til Liverpool.
Fyrri hálfleikur var mjög tíðindalítill. Liverpool hafði yfirhöndina en gekk ekki vel að skapa opin færi. Liðið varð fyrir áfalli þegar Xabi Alonso varð af yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið skurð á höfuðið eftir höfuð hans og Joey Barton skullu saman. Xabi fór fyrst út af og lét búa um sárið. Liverpool lék einum færri í um fimm mínútur áður en Xabi kom aftur inn á. En honum leið ekki vel í höfðinu og varð að fara af leikvelli. Dietmar Hamann kom í hans stað. Liverpool náði forystu fimm mínútum fyrir leikhlé. Liðið sneri þá vörn í sókn. Steven Gerrard sendi frábæra sendingu á Harry Kewell sem komst á auðan sjó upp að markinu vinstra megin. Harry lék inn í teiginn og skaut hnitmiðuðu skoti neðst í bláhornið fjær. David James átti ekki möguleika á að verja. Þetta var mjög falleg úr vel útfærð sókn og sannarlega gott að ná forystu fyrir leikhlé. Forystan hefði svo getað verið stærri því skalla Peter Crouch var bjargað á marklínu áður en flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikurinn hófst ekki vel fyrir gestina. Eftir aðeins sjö mínútur var Joey Barton, hinn harði stuðningsmaður Liverpool, rekinn af velli fyrir að brjóta illa á Sami Hyypia. Joey hafði fengið gult spjal í fyrri hálfleik eftir álíka ljótt brot á Daniel Agger. Það merkilega var að Manchester City náði sínum besta leikkafla í kjölfar brottvikningarinnar. Á stuttum tíma varði Jose Rina vel frá þeim Shaun Wright-Phillips og Trevor Sinclair. Markvarsla hans frá Trevor var frábær. Jose sló þá fast skot hans yfir markið. Grikkinn Georgios Samaras komst svo í opið færi en hann skaut framhjá þegar hann var með Jose Reina einan fyrir framan sig. Hinu megin á vellinum var Peter Crouch þrívegis nærri því að skora. Fyrst átti hann glæsilega hælspyrnu sem fór rétt framhjá og svo skaut hann fallegu skoti sem small í þverslánni. David kom við boltann og bjargaði marki. Þriðja færið skapaði Peter alveg sjálfur með því að brjótast inn í vítateiginn en David bjargaði með góðu úthlaupi. Steven Gerrard komst svo einn inn á vítateiginn en Richard Dunne bjargaði með góðri tæklingu. Steven meiddist eitthvað og var nokkra stund að koma sér af stað aftur en náði að ljúka leiknum. Gestirnir ógnuðu ekkert á lokakafla leiksins. John Arne Riise átti bylmingsskot í hliðanetið undir lokin og sanngjarn sigur Liverpool varð staðreynd. En sigurinn var, líkt og svo oft áður á leiktíðinni, í minnsta lagi. En þrjú stig voru fyrir öllu.
Liverpool: Reina, Finnan, Agger, Hyypia, Riise, Kromkamp, Gerrard, Alonso (Hamann 31. mín.), Kewell (Traore 85. mín.), Crouch (Garcia 75. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Dudek og Cissé.
Mark Liverpool: Harry Kewell (40. mín.)
Manchester City: James, Danny Mills, Dunne, Distin, Jordan, Sinclair (Ireland 67. mín.), Barton, Musampa, Riera (Croft 78. mín.), Samaras og Sibierski (Wright-Phillips 45. mín.). Ónotaðir varamenn: Weaver og Sommeil.
Rautt spjald: Joey Barton (52. mín.).
Gul spjöld: Joey Barton og Georgios Samaras.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.121.
Rafael Benítez var ekki alls kostar ánægður eftir leikin. ,,Ég er ekki ánægður með lokastöðuna í leiknum. Við náðum þremur mikilvægum stigum en ég vildi sjá okkur skora fleiri mörk því þegar við erum bara með 1:0 forystu er óþarfa álag á okkur. Ég hef alltaf sagt að það sé nauðsynlegt að skora annað mark og klára þannig leikinn. En við náðum ekki öðru marki og það olli taugaspennu í liðinu. Við lékum ekki eins vel og við gátum eftir að við urðum manni fleiri og við gerðum nokkur mistök. Við sköpuðum okkur nokkur færi en náðum ekki að færa okkur þau í nyt."
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur