Í hnotskurn
Robbie Fowler rændur sigurmarkinu á lokamínútunni. Algerir yfirburðir skiluðu bara einu stigi. Þetta er leikur Liverpool og Charlton Athletic í hnotskurn.
- Það var kalt í Liverpool á laugardaginn og það mátti sjá snjókorn á flugi.
- Liverpool vann Charlton 2:0 á síðustu leiktíð í 2000. deildarleik sínum á Anfield Road.
- Liverpool náði ekki að leggja Charlton að velli í deildinni á þessari leiktíð. Fyrri leiknum, í byrjun síðasta mánaðar, á The Valley lauk með sigri Charlton 2:0.
- Liverpool hafði algera yfirburði í leiknum og eftir fyrri hálfleikinn hafði Charlton ekki átt eina einustu marktilraun.
- Þetta var í fyrsta sinn sem liðin hafa skilið án marka á Anfield Road.
- Þetta var 1001. leikur Charlton í efstu deild.
- Sigurmark Harry Kewell gegn Manchester City á dögunum var 150. markið sem Liverpool skoraði eftir að Rafael Benítez tók við stjórnartaumunum.
- Skammdegisboltinn virðist hafa verið settur í geymslu. Að minnsta kosti var leikið með hvítum bolta. Sá guli hefur verið notaður í svartasta skammdeginu á Englandi á þessari og síðustu leiktíð.
- Jore Reina þurfti ekki að verja skot.
- Í annað sinn eftir endurkomuna var sigurmark dæmt af Robbie Fowler. Markið hans gegn Birmingham var réttilega dæmt af en í þessum leik varð línuverðinum á. Markið var gott og gilt.
- Stuðningmenn Liverpool sýndu Gary McAllister fyrrum leikmanni liðsins hlýhug fyrir leikinn þegar þeir sungu nafn hans. Eiginkona hans lést nú fyrir helgina.
Liverpool: Reina, Kromkamp, Carragher, Hyypia (Riise 45. mín.), Traore, Cissé, Hamann (Alonso 73. mín.), Gerrard, Kewell, Crouch (Morientes 80. mín.) og Fowler. Ónotaðir varamenn: Dudek og Finnan.
Gult spjald: Djibril Cissé.
Charlton Athletic: Myhre, Young, Perry, Hreidarsson, Spector, Ambrose (Powell 87. mín.), Kishishev (Euell 77. mín.), Holland, Hughes, D. Bent og M. Bent (Bothroyd 53). Ónotaðir varamenn: Andersen og Thomas.
Gult spjald: Luke Young.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.892.
Maður leiksins: Jan Kromkamp átti sinn besta leik eftir að hann kom til Liverpool. Hann var mjög sterkur í stöðu hægri bakvarðar. Það reyndi svo sem ekki mikið á hann varnarlega en hann átti mjög góðar rispur fram kantinn og hann skapaði nokkrum sinnum hættu með framsækni sinni.
Jákvætt :-) Liverpool hélt hreinu fimmta leikinn í röð gegn ensku liði. Liverpool hefur varl ahaft aðra eins yfirburði í nokkrum leik á leiktíðinni. En markatregðan í veg fyrir sigur sem átti að vinnast næsta auðveldlega miðað við gang leiksins. Jan Kromkamp lék mjög vel. Djibril Cissé lék sinn besta leik um nokkurt skeið. Í heild léku Evrópumeistararnir nógu vel til að vinna en það þarf að skora mörk til að vinna leiki.
Neikvætt :-( Liverpool skoraði ekki mark. Löglegt mark var dæmt af sem rændi Liverpool sigri.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði af miklum krafti og það var greinilegt að markmið liðsmanna var að gera út um leikinn sem allra fyrst. Það virtist bara vera spurning um hvenær fyrsta markið myndi koma. Þeir Harry Kewell og Robbie Fowler áttu skot sem fóru rétt framhjá. En það var Thomas Myhre, fyrrum markvörður Everton, sem átti eftir að reynast leikmönnum Liverpool erfiður ljár í þúfu. Hann varði frábærlega frá Hermanni Hreiðarssyni þegar Hermann reyndi að bægja fyrirgjöf Steven Gerrard frá markinu. Thomas varði svo tvívegis frábærlega frá Djibril Cissé undir lok hálfleiksins. Fyrst skalla og svo gott skot úr teignum. Það var með ólíkindum að Liverpool skyldi ekki vera með örugga forystu í leikhléi miðað við alla yfirburðina. Charlton komst varla fram yfir miðju og Jose Reina varð að halda á sér hita með einhverju öðru móti en að verja frá gestunum. Það var enginn breyting á gangi máli eftir leikhlé. Hver sókn Liverpool rak aðra en ekkert gekk. Vörn gestanna gaf fá færi á sér og bak við hana stóð Norðmaðurinn vaktina. Besta færi leiksins fékk Peter Crouch eftir klukkutíma. Hann fékk þá frábæra sendingu inn á teiginn frá Djibril en skallaði mátleysislega að markinu. Hann hefði bæði getað skallað miklu fastar og betur eða tekið boltann niður því hann var dauðafrír. Fimmtán mínútum fyrir leikslok átti Djibril skalla yfir úr góðu færi. Charlton átti varla sókn og Jose Reina þurfti ekki að verja skot. En Liverpool skoraði loksins á síðustu mínútu leiksins. Steven gaf stutt úr aukaspyrnu á Xabi sem skaut að marki. Skotið var misheppnað en boltinn rataði til Robbie Fowler sem var alveg frír inn á teignum. Hann lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum í markið. Allt trylltist af fögnuði þar til menn sáu að annar línuvörðurinn var búinn að dæma rangstöðu. Því miður þá hafði línuvörðurinn rangt fyrir sér og markið var fullkomlega löglegt. Annað mark sem dæmt er af Robbie eftir endurkomuna. Það var sárgrætilegt að markið var dæmt af og Liverpool fékk aðeins eitt stig en ekki þrjú eins og liðið átti að ná.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!