| Sf. Gutt

Allir saman nú!

Liverpool þarf á öllu sínu að halda í kvöld þegar liðið heldur vörn Evrópbikarsins áfram. Ekkert annað en sigur mun duga til að koma Liverpool áfram eftir að Benfica vann fyrri leikinn 1:0 í Lissabon. Rafael Benítez óskar eftir stuðningi áhorfenda og hann fær hann örugglega. ,,Ég hef trú á liðinu mínu. Ég veit að við þurfum að skora tvö mörk en við getum það vel. Stuðningsmenn okkar munu hvetja okkur þannig að við leggjum enn harðar að okkur. Við náðum að skora þrjú mörk í úrslitaleiknum gegn Milan og eins fyrr í keppninni gegn Olympiacos. Við eigum bestu stuðningsmenn í heimi og ég hugsa að leikmenn Benfica muni verða óstyrkir að leika fyrir framan þá. Liðið okkar mun á hinn bóginn fá hvatningu frá þeim."

Málið er einfalt. Liverpool þarf að vinna með tveggja marka mun í kvöld. Nema þá að liðið vinni 1:0 eftir framlengingu og vinni svo í vítaspyrnukeppni. Skori Benfica þarf Liverpool alltaf að skora tveimur mörkum meira en Ernirnir. Það dugar því ekkert minna en að skora tvö mörk.

Það er næsta víst að það verður rafmögnuð stemmnig á Anfield Road í kvöld. Þetta gæti orðið eitt af þessum mögnuðu Evrópukvöldum. Það er eins og einhverjir töfrar eigi sér stað á þessum gamla leikvangi á Evrópukvöldunum þegar allt er undir og allir, innan vallar sem utan, leggjast á eitt. Í kvöld verður afhjúpaður nýr fáni á The Kop. Fáninn mun ganga eftir áhorfendastæðunum frægu fyrir leikinn. Hann er glæsilegur í alla staði og hér fylgir mynd af honum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan