| Sf. Gutt

Engin ferð til Parísar í vor

Evrópumeistararnir féllu úr leik í kvöld eftir sárt tap á heimavelli fyrir Benfica. Markaþurrðardraugurinn ásótti leikmenn Liverpool sem aldrei fyrr og þeim var fyrirmunað að skora. Sárt tap varð staðreynd og vörn Evrópubikarsins, sem hófst í byrjun sláttar, er lokið. Leikmenn Liverpool verðskulduðu ekki að tapa leiknum, miðað við gang hans, en lið verða að skora mörk til að vinna leiki. Benfica skoraði þrjú mörk í rimmunni og þess vegna eru þeir komnir áfram.

Liverpool byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og það var greinilegt að það var stefnt að því að skora sem fyrst. Leikmenn Liverpool voru mjög grimmir og gestirnir áttu í vök að verjast. Eftir tíu mínútur átti Peter Crouch skot utan vítateigs sem fór í varnarmann og small svo í stönginni. Jamie Carragher fékk mjög gott færi eftir hornspyrnuna sem fylgdi en skaut framhjá. Luis Garcia fékk svo opið færi fimm mínútum seinna. Hann komst inn á teiginn, einn gegn markverðinum, en skaut hátt yfir. Sóknir Liverpool buldu á vörn Benfica og varnarmenn þeirra höfðu í nógu að snúast. Á 25. mínútu kom enn eitt dauðafærið. Steven Gerrard sendi inn fyrir vörnina beint á Peter Crouch sem fékk boltann einn gegn markverðinum en skaut beint í hann. Líklega var þetta besta færi leiksins. Eftir hálftíma fékk Benfica sitt fyrsta færi þegar einn leikmanna þeirra átti skot utan vítateigs sem hafnaði í þverslá. Getirnir komst svo óvænt yfir á 36. mínútu. Varnarmönnum Liverpool tókst ekki að hreinsa frá. Boltinn endaði hjá Sabrosa Simao sem skoraði með frábæru langskoti algerlega óverjandi fyrir Jose Reina. Það var kaldhæðnislegt að þessi maður sem var nærri gengin til liðs við Liverpool í sumar skyldi skora. Markið sem köld vatnsgusa framan í leikmenn Liverpool en þeir gáfust ekki upp. Það var þó sama hvað reynt var. Ekkert gekk upp. Þetta sýndi sig best á lokamínútu hálfleiksins þegar skalli frá Jamie Carragher fór í stöngina. Það hefði ekki verið amalegt að fá jöfnunarmark rétt fyrir hálfleik.

Liverpool lék ekki eins vel eftir leikhlé og eftir því sem leið á hálfleikinn urðu menn vondaufari. Varnarmenn Arnanna vörðust með kjafti og klóm. Xabi Alonso átti fast langskot sem  sem Moretto varði vel. Jamie Carragher átti svo skalla yfir. Liverpool náði svo loksins að jafna á 83. mínútu þegar Robbie Fowler skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu en línuvörðurinn dæmdi að boltinn hefði farið aftur fyrir endamörk þegar hornspyrnan var tekin. Leikmenn reyndu hvað þeir gátu allt til leiksloka en Fabrizio Miccoli skoraði eftir skyndisókn mínútu fyrir leikslok og þar með voru örlög Liverpool endanlega ráðin.

Vissulega átti Liverpool ekki skilið að tapa þessum leik og það var sárt að falla út gegn Benfica miðað við gang mála í leikjunum tveimur. En það skildi einfaldega í milli að leikmönnum Liverpool var fyrirmunað að skora. Fengust þó nógu mörg góð færi til að þess að vinna öruggan sigur í kvöld. Það er ekki allt búið enn á þessari leiktíð og baráttan heldur áfram á tveimur vígstöðvum. En til að sú barátta gefi viðunandi uppskeru af sér þarf að koma boltanum oftar í mark andstæðinganna. Annað gengur ekki.

Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir allt til loka leiksins. Þegar leið að leikslokum sungu þeir You´ll Never Walk Alone hástöfum. Það var án nokkurs vafa hápunktur leiksins!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Traore, Warnock (Hamann 70. mín.), Garcia, Gerrard, Alonso, Kewell (Cissé 63. mín.), Morientes (Fowler 70. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Anderson og Barragan.

Gul spjöld: Peter Crouch, Xabi Alonso og Steven Gerrard.

Benfica: Moretto, Alcides, Luisao, Anderson, Leo, Robert (Ricardo Rocha 70. mín.), Beto, Manuel, Geovanni (Karagounis 60. mín.), Simao og Gomes (Miccoli 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Quim, Karyaka, Marcel og Nelson.

Gul spjöld: Laurent Robert og Nuno Gomes.

Mörk Benfica: Sabrosa Simao (36. mín.) og Fabrizio Miccoli (89. mín.)

Áhorfendur á Anfield Road: 42.745. 

Rafael Benítez var skiljanlega niðurdreginn eftir leikinn. ,, Við erum mjög vonsviknir. Ef við skoðum leikinn þá kemur í ljós að að við sköpuðum okkur góð færi en gátum bara ekki skorað. Fyrir spiluðum hratt og vel fyrstu tuttugu mínúturnar. Þá vorum við betri en Benfica en lið þurfa að skora. Það gerðum við ekki og svo fór Benfica að komast betur inn í leikinn. Þeir beittu skyndisóknum vel og vörðust af krafti. Fyrir utan að við náðum ekki að skora þá gerðum við mistök í vörninni og leikurinn breyttist gersamlega þegar þeir skoruðu. Seinna mark þeirra undir lokin breytti engu."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan