Í hnotskurn
Vel heppnuð ferð norður í land þegar Evrópumeistararnir sóttu þrjú stig til Newcastle. Fyrirliðinn skoraði merkilegt mark. Þetta er leikur Liverpool og Newcastle United í hnotskurn.
- Liverpool vann báða deildarleikina gegn Skjórunum á þessari leiktíð. Á örðum degi jóla vann Liverpool 2:0 á Anfield Road.
- Þeir Peter Crocuh og Steven Gerrard skoruðu líka í þeim leik.
- Peter Crouch skoraði sitt tíunda mark fyrir Liverpool. Þetta var 41. leikur hans fyrir Liverpool.
- Steven Gerrard skoraði sitt 60. mark fyrir Liverpool. Þetta var 329 leikur hans með Liverpool.
- Djibril Cissé skoraði sitt fyrsta mark á því Herrans ári 2006. Hann skoraði síðast þegar Liverpool vann Everton 3:1 rétt fyrir síðustu áramót.
- Hann fagnaði því með því að afhjúpa bol með ástarkveðjum til fjölskyldu sinnar. Frakkinn uppskar gult spjald fyrir vikið.
- Daniel Agger lék sinn fjórða leik í aðalliði Liverpool. Þetta var í fyrsta sinn sem hann lék með Liverpool á útivelli.
- Jean-Alain Boumsong var rekinn af leikvelli. Það var fyrrum félagi hans hjá Auxerre, Djibril Cissé, sem fullkomnaði refsingu Jean með því að skora úr vítaspyrnunni sem fylgdi broti hans. Hann lék áður með Djibril Cissé hjá Auxerre og var á tímabili orðaður við Liverpool. Ég hygg að Liverpool hafði farið vel í að fjárfesta ekki í honum!
- Þetta mun hafa verið í síðasta sinn sem varnarmenn Liverpool hafa þurft að fást við Alan Shearer. Goðsögnin leggur skóna á hilluna í vor. Hann hefur líka leikið með Southampton og Blackburn Rovers gegn Liverpool.
- Michael Owen var fjarri góðu gamni. Hann er enn að jafna sig eftir ristarbrotið á gamlársdag. Nýjustu tíðindi herma að hann verði leikfær eftir svo sem þrjár vikur.
- Liverpool vann sinn fyrsta sigur á St. James Park frá því á leiktíðinni 2001/02. Liverpool vann þá 2:0 með mörkum frá John Arne Riise og Danny Murphy.
- Alltaf sér maður eitthvað nýtt í knattspyrnuleikjum. Annar línuvörðurinn þurfti nýtt flagg í fyrri hálfleik eftir að það sem hann hafði byrjað leikinn með hafði dottið í sundur. Allt getur sannarlega gerst!
- Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir í þessum leik og langtímunum saman heyrðist bara í þeim.
- Stuðningsmenn Liverpool skemmtu sér til dæmis við það að hylla Kenny Dalglish sem stýrði báðum þessum liðum á sínum tíma.
Newcastle United: Given, Ramage, Boumsong, Elliott, Babayaro, Solano, Parker, Emre (Clark 90. mín.), N´Zogbia (Bowyer 28. mín.), Shearer og Ameobi (Dyer 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Harper og Moore.
Rautt spjald: Jean-Alain Boumsong (51. mín.).
Gul spjöld: Peter Ramage og Ian Bowyer.
Mark Newcastle: Shola Ameobi (41. mín.).
Liverpool: Reina, Agger, Hyypia (Fowler 90. mín.), Carragher, Warnock, Kromkamp, Hamann, Gerrard (Alonso 74. mín.), Kewell, Cissé og Crouch (Garcia 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.
Gul spjöld: Djibril Cissé, Daniel Agger og Jamie Carragher.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (10. mín), Steven Gerrard (35. mín.) og Djibril Cissé, víti (52. mín.).
Áhorfendur á St James Park: 52.302.
Maður leiksins: Peter Crouch lék mjög vel og varnarmönnum Skjóranna gekk bölvanlega að fást við hann. Peter skoraði fyrsta marki, átti þátt í því næsta með góðri stoðsendingu og fékk svo vítaspyrnuna sem gaf þriðja markið. Stórleikur hjá risanum.
Jákvætt :-) Evrópumeistararnir léku mjög vel og í raun leit alltaf út fyrir sigur þeirra. Leikmenn liðsins léku hver öðrum betur og það var gaman að sjá hvernig þetta nýja leikskipulag, sem Rafael lagði fyrir, gekk upp. Þeir Daniel og Jan eru alltaf að fóta sig betur og betur í liðinu og trúlega eiga þeir eftir að reynast vel. Peter skoraði annan leikinn í röð og Djibril náði líka marki. Það var reyndar tími til kominn.
Neikvætt :-( Það verður ekkert nefnt í þeim efnum og það er gott!
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði leikinn af krafti og eftir tíu mínútur lá boltinn í marki heimamanna. Steven Gerrard sendi boltann út á hægri kant á Jan Kromkamp. Hollendingurinn sendi frábæra sendingu fyrir markið á Peter Crouch sem skallaði boltann framhjá Shay Given. Þetta var annað mark hans í jafn mörgum leikjum. Liverpool var miklu sterkara liðið á upphafskafla leiksins og sóknir liðsins voru gjarnan hraðar og hættulegar. Um miðjan hálfleikinn fóru heimamenn að færa sig upp á skaftið. Alan Shearer átti skot framhjá og Jose Reina varði frá Charles N´Zogbia. En það var Liverpool sem skoraði næsta mark. Það kom á 35. mínútu eftir frábæra sókn. Djibril Cissé sendi fyrir frá hægri á Steven Gerrard sem skallaði boltann á Peter Crouch. Peter renndi boltanum aftur út í teiginn á Steven sem skoraði með föstu skoti neðst í markhornið. Frábært mark og vel að því staðið. En Skjórarnir náðu að minnka muninn á 41. mínútu. Scott Parker sendi góða sendingu fyrir markið. Shola Ameobi stalst inn fyrir vörnina og skallaði boltann yfir Jose Reina og í markið. Það leit því allt út fyrir að síðari hálfleikur gæti orðið erfiður. Úrslit leiksins réðust svo gott sem eftir sjö mínútur í seinni hálfleik. Jean-Alain Boumsong, miðvörður Newcastle, hitti þá ekki boltann og missti Peter Crouch inn fyrir sig. Hann braut svo á Peter inni í vítateignum. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu og rak Frakkann af leikvelli. Djibril Cissé tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi. Þetta var fyrsta mark hans á þessu ári og það var ekki að undra þótt hann fagnaði því innilega. Eftir þetta var sigur Liverpool aldrei í hættu og liðið hefði getað bætt við mörkum. En leikmenn voru heldur kærulausir á köflum. Djibril Cissé skaut framhjá úr góðu færi eftir. Hann hefði þá betur sent boltann á Harry Kewell sem var dauðafrír inni á vítateignum. Undir lok leiksins varði Shay Given frábærlega góð tvö góð langskot. Fyrst frá Xabi Alonso og svo frá Jan Kromkamp. Sigur Liverpool var öruggur og sanngjarn. Eftir markatregðu hafa leikmenn Liverpool nú skorað átta mörk í tveimur leikjum. Það virðist að Evrópumeistararnir séu nú komnir á gott skrið og er það hið besta mál.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!