Liverpool er besta liðið í Liverpool!
Evrópumeistararnir lögðu Everton 3:1 að velli í viðburðaríkum leik á Anfield Road um hádegisbilið í dag. Liverpool var manni færri stóran hluta leiksins en það kom ekki að sök og frækilegur sigur vannst. Útlitið var ekki gott þegar búið var að reka Steven Gerrard af leikvelli en tíu leikmenn Liverpool þjöppuðu sér saman og sneru þá Bláu niður með tveimur mörkum sitt hvoru megin við leikhléið. Liverpool hefur því enn ekki lotið í gras fyrir Everton á Anfield Road á þessari öld!
Leikurinn mótaðist af mikilli spennu í byrjun og leikmenn Liverpool virtust spenntari ef eitthvað var. Ástralinn Tim Cahill fékk tvö færi í byrjun leiks. Annað var töluvert gott en Jose Reina varði frá honum af stuttu færi. Útlitið var ekki bjart fyrir Liverpool eftir átján mínútur þegar Steven Gerrard var rekinnn af velli fyrir að fella Kevin Kilbane rétt utan teigsins. Mínútu áður fékk hann gult spjald fyrir að sýna vanþóknun á dómi með því að sparka boltanum í burtu. Þetta verður að teljast réttur dómur því bæði brotin verðskulduðu gul spjöld. Liverpool átti á brattann að sækja fram að leikhléi en Everton náði þó ekki að ógna marki Liverpool svo neinu næmi. Luis Garcia átti á hinn bóginn gott skot rétt yfir. Á lokamínútu hálfleiksins kom vendipunktur leiksins. Liverpool fékk þá hornspyrnu. Gestirnir björguðu aftur í horn. Seinni hornspyrnan kom frá hægri. Xabi Alonso tók hana. Hann sendi fyrir markið þar sem Phil Neville, af öllum mönnum, kom og skallaði boltann glæsilega í eigið mark. Stuðningsmenn Liverpool trylltust og ekki spillti það gleðinni þegar þeir sáu hver markaskorarinn var! Það var sannarlega gott nesti fyrir leikhléið að fá þetta mark.
Síðari hálfleikurinn byrjaði jafn vel og sá fyrri endaði. Eftir tvær mínútur tók Jose Reina langt útspark. Boltinn fór vel inn á vallarhelming Everton. Peter Couch framlengdi útsparkið með því að skalla boltann til Luis Garcia. Spánverjinn tók boltann með sér inn að markinu og lyfti honum svo snilldarlega yfir Richard Wright í marki Everton rétt innan vítateigs. Frábært mark og enn sýndi Spánverjinn snilli sína í mikilvægum leik með gullvægu marki. Leikmenn Everton voru nú gersamlega slegnir út af laginu og Liverpool var miklu nær því að bæta við marki á upphafskafla hálfleiksins. En gestirnir minnkuðu þó muninn úr fyrsta færi sínu í hálfleiknum á 61. mínútu.. Tim Cahill skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu frá Leon Osman. Leikmönnum Everton gekk ekkert í framhaldinu að færa sér liðsmuninn í nyt og það voru Evrópumeistararnir sem voru miklu nær því að auka forystuna. Fyrst átti Xabi Alonso fast skot úr hornspyrnu sem strauk þverslána. Luis Garcia komst næst í færi en varnarmaður náði að bjarga á síðustu stundu. Tuttugu mínútum fyrir leiksko varði Richard svo frábærlega frá Harry Kewell sem átti fast skot að markinu utan teigs. Þremur mínútum síðar eða svo fækkaði í liði Everton þegar Andy Van der Meyde, sem komm inn sem varamaður fimm mínutum áður, var rekinn af velli fyrir olnbogaskot í átt að Xabi Alonso. Dómarinn var mjög spjaldaglaður og alls lyfti hann spjöldum sínum tólf sinnum á loft! Ekki voru miklar sakar alltaf að baki. Liverpool hafði nú öll völd á vellinum sem aldrei fyrr og innsiglað tryggt sigurinn þegar Sami Hyypia skallaði í mark eftri aukaspyrnu þegar um það bil tíu mínútur voru eftir en línuvörðurinn dæmdi rangstöðu á Peter Crouch sem þó hafði ekki nein áhrif á gang mála. En Evrópumeistararnir fastsettu sigurinn sex mínútum fyrir leikslok. Harry Kewell fékk þá boltann frá Steve Finnan utan teigs hægra megin. Ástralinn tvínónaði ekki við hlutina heldur þrykkti boltanum út við vinstri stöngina. Allt gekk af göflunum af fögnuði innan vallar sem utan. Markið gulltryggði einn magnaðasta sigur Liverpool í grannaslag á seinni árum. Villt fagnaðarlæti tóku svo við þegar hinn spjaldaglði dómari flautaði leikinn af og þjóðsögngurinn tók við!
Evrópumeistararnir sýndu gríðarlegan styrk í þessum leik og sigurinn var bæði sætur og sanngjarn. Liverpool lék einfaldlega frábærlega eftir leikhlé og það var ekki að sjá að fyrirliðann vantaði í raðir Rauðliða! Þeir Bláu áttu engin svör og Liverpool sýndi svo ekki er um að villast að liðið er það besta í Bítlaborginni! Tveir sannfærandi sigrar á Everton á þessari leiktíð undirstrika þá skemmtilegu staðreynd!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Luis Garcia, Gerrard, Sissoko, Alonso, Kewell (Warnock 87. mín.) og Crouch (Morientes 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Kromkamp og Fowler.
Mörk Liverpool: Phil Neville sm. (45. mín.), Sans Luis Garcia (47. mín.) og Harry Kewell (84. mín.)
Rautt spjald: Steven Gerrard (18. mín.).
Gul spjöld: Steven Gerrard, Xabi Alonso og Harry Kewell.
Everton: Wright, Hibbert, Weir, Stubbs, Naysmith, Osman, Cahill, Neville, Kilbane (Van der Meyde 68. mín.), Beattie og McFadden (Ferguson 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Turner, Yobo og Davies.
Mark Everton: Tim Cahill (61. mín.).
Rautt spjald: Andy Van der Meyde (73. mín.).
Gul spjöld: Tim Cahill, Alan Stubbs, Kevin Kilbane, David Weir, Duncan Ferguson, Phil Neville og Tony Hibbert.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.923.
Rafael Benítez var mjög stoltur af sínum mönnum eftir leikinn og hann þakkaði líka stuðningsmönnum Liverpool fyrir sinn þátt í sigrinum. Það var ekki að undra að hann skyldi nefna stuðningsmenn Liverpool því þeir voru frábærir. ,,Ég verð að þakka stuðningsmönnum okkar og ég gleðst sannarlega fyrir þeirra hönd því þetta var magnaður sigur. Það var erfitt að leika með aðeins tíu menn í þessum spennuþrungna leik en leikmennirnir lögðu mjög hart að sér og uppskáru verðskuldaðan sigur. Við sýndum mikinn eldmóð og þeir Luis Garcia og Harry Kewell skoruðu frábær mörk. Við vissum hvað við þurftum að gera með tíu menn gegn kraftmiklu og sterku liði. Peter Crouch lék vel í sókninni og hélt boltanum vel. Hann fékk líka góðan stuðning frá þeim Harry og Luis. Xabi Alonso og Momo Sissoko stjórnuðu miðjunni og við stóðum okkur frábærlega sem liðsheild."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!