Í hnotskurn
Það voru ákveðin teikn á lofti um sigur Liverpool fyrir leik og þau gengu eftir. Einn magnaðasti sigur Liverpool á seinni árum varð staðreynd. Þetta er leikur Liverpool og Everton í hnotskurn.
- Þetta var í 203. sinn sem Liverpool og Everton leiddu saman hesta sína.
- Eftir þennan leik hefur Liverpool unnið 65 af deildarleikjunum 173. Everton hefur unnið 55. Í 54 skipti hafa liðin skilið jöfn.
- Liverpool stendur líka betur í öllum viðureignunum. Liverpool hefur unnið 79 leiki. Everton hefur unnið 63. Í 61 skipti hafa liðin gengið jöfn af hólmi.
- Það voru teikn á lofti um sigur Liverpool fyrir leikinn. Lukkustrákur Liverpool var rauðhærður!
- Sigurinn tryggði tvöfaldan sigur Liverpool á Everton á þessari leiktíð. Liverpool vann fyrri leikinn á Goodison Park líka 3:1. Þeir Peter Crouch, Steven Gerrard og Djibril Cissé skoruðu í þeim leik
- Liverpool vann þar með tvöfaldan sigur á Everton í ellefta sinn.
- Tveir leikmenn voru reknir af velli í leiknum. Þar með hafa nítján leikmenn verið reknir af velli í deildarrimmum liðanna. Sjö Rauðliðar hafa verið reknir út af en tólf Bláliðar.
- Það munu aðeins hafa liðið 34 sekúndur frá því Steven Gerrard fékk gult spjald þar til hann leit það rauða augum. Það hlýtur að vera met í sögu Liverpool.
- Liverpool vann Everton á Anfield Road 2:1 á síðustu leiktíð með mörkum frá þeim Steven Gerrard og Luis Garcia. Þá eins og nú lék Liverpool manni færri um tíma. Milan Baros var rekinn af velli í þeim leik.
- Bæði Luis Garcia og Tim Cahill skoruðu í þeim leik eins og núna.
- Markið hans Tim Cahill var eitthundraðasta markið sem Everton skorar í deildarleik á Anfield Road.
- Í síðustu sex leikjum liðanna hafa sjö leikmenn verið reknir af velli. Tveir hafa verið frá Liverpool.
- Þeir Steven Gerrard og James Beattie léku í peysum númer 08 til að auglýsa að Liverpool verður menningarhöfuðborg Evrópu árið 2008.
- Sjálfsmarkið góða sem Phil Neville skoraði var fast að því eftirlíking af sjálfsmarki sem John Bailey skoraði fyrir Liverpool gegn Everton á leiktíðinni 1980/81. Þetta reyndist eina mark leiksins! John skoraði þá með skalla á nærstöng eftir hornspyrnu frá sama horni. Það þarf ekki að taka það fram að þetta gerðist fyrir framan Anfield Road stúkuna. Allt alveg eins og núna!
- Luis Garcia skoraði sitt tíunda mark á leiktíðinni.
- Harry Kewell skoraði sitt þriðja mark á leiktíðinni. Öll hefur hann skorað á heimavelli.
- Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir í leiknum. Þeir skemmtu sér við að láta aðdáendur Everton heyra það. Eftir að sigurinn blasti við minntu þeir Bláliða af og til á að Liverpool þyrftu aðeins tíu menn. Þeir sungu líka um að þeir þyrftu ekki besta mann sinn!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Luis Garcia, Gerrard, Sissoko, Alonso, Kewell (Warnock 87. mín.) og Crouch (Morientes 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Kromkamp og Fowler.
Mörk Liverpool: Phil Neville sm. (45. mín.), Sans Luis Garcia (47. mín.) og Harry Kewell (84. mín.).
Rautt spjald: Steven Gerrard (18. mín.).
Gul spjöld: Steven Gerrard, Xabi Alonso og Harry Kewell.
Everton: Wright, Hibbert, Weir, Stubbs, Naysmith, Osman, Cahill, Neville, Kilbane (Van der Meyde 68. mín.), Beattie og McFadden (Ferguson 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Turner, Yobo og Davies.
Mark Everton: Tim Cahill (61. mín.)
Rautt spjald: Andy Van der Meyde (73. mín.).
Gul spjöld: Tim Cahill, Alan Stubbs, Kevin Kilbane, David Weir, Duncan Ferguson, Phil Neville og Tony Hibbert.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.923.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn átti einfaldlega stórfenglegan leik. Hann barðist eins og ljón úti um allan völl og leikmenn Everton réðu ekkert við hann öðruvísi en að brjóta á honum. Leikmenn Liverpool áttu allir frábæran leik sen Xabi fór fremstur meðal jafningja.
Jákvætt :-) Liverpool vann Everton! Þetta var einn magnaðasti sigur Liverpool á Everton á seinni árum. Leikmenn Liverpool sýndi gríðarlegan sigurvilja og hleyptu í sig enn meiri krafti þegar Steven Gerrard var rekinn af leikvelli. Hver einn og einasti maður bætti þá í og niðurstaðan varð sú að á löngum köflum virtist sem Liverpool væri manni fleiri! Ekki spillti frábær stuðningur áhorfenda fyrir. Samvinna leikmanna og Tólfta mannsins færði svo sætan sigur. Liverpool lék það vel að Everton átti varla færi, fyrir utan markið, eftir að Steven varð að yfirgefa völlinn. Sú staðreynd segir sína sögu! Evrópumeistararnir eru einfaldlega besta liðið í Liverpool!
Neikvætt :-( Steven Gerrard fór illa að ráði sínu þegar hann var rekinn af leikvelli.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikurinn mótaðist af mikilli spennu í byrjun og leikmenn Liverpool virtust spenntari ef eitthvað var. Ástralinn Tim Cahill fékk tvö færi í byrjun leiks. Annað var töluvert gott en Jose Reina varði frá honum af stuttu færi. Útlitið var ekki bjart fyrir Liverpool eftir átján mínútur þegar Steven Gerrard var rekinn af velli fyrir að fella Kevin Kilbane rétt utan teigsins. Mínútu áður fékk hann gult spjald fyrir að sýna vanþóknun á dómi með því að sparka boltanum í burtu. Þetta verður að teljast réttur dómur því bæði brotin verðskulduðu gul spjöld. Liverpool átti á brattann að sækja fram að leikhléi en Everton náði þó ekki að ógna marki Liverpool svo neinu næmi. Luis Garcia átti á hinn bóginn gott skot rétt yfir. Á lokamínútu hálfleiksins kom vendipunktur leiksins. Liverpool fékk þá hornspyrnu. Gestirnir björguðu aftur í horn. Seinni hornspyrnan kom frá hægri. Xabi Alonso tók hana. Hann sendi fyrir markið þar sem Phil Neville, af öllum mönnum, kom og skallaði boltann glæsilega í eigið mark. Stuðningsmenn Liverpool trylltust og ekki spillti það gleðinni þegar þeir sáu hver markaskorarinn var! Það var sannarlega gott nesti fyrir leikhléið að fá þetta mark. Síðari hálfleikurinn byrjaði jafn vel og sá fyrri endaði. Eftir tvær mínútur tók Jose Reina langt útspark. Boltinn fór vel inn á vallarhelming Everton. Peter Couch framlengdi útsparkið með því að skalla boltann til Luis Garcia. Spánverjinn tók boltann með sér inn að markinu og lyfti honum svo snilldarlega yfir Richard Wright í marki Everton rétt innan vítateigs. Frábært mark og enn sýndi Spánverjinn snilli sína í mikilvægum leik með gullvægu marki. Leikmenn Everton voru nú gersamlega slegnir út af laginu og Liverpool var miklu nær því að bæta við marki á upphafskafla hálfleiksins. En gestirnir minnkuðu þó muninn úr fyrsta færi sínu í hálfleiknum á 61. mínútu. Tim Cahill skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu frá Leon Osman. Leikmönnum Everton gekk ekkert í framhaldinu að færa sér liðsmuninn í nyt og það voru Evrópumeistararnir sem voru miklu nær því að auka forystuna. Fyrst átti Xabi Alonso fast skot úr hornspyrnu sem strauk þverslána. Luis Garcia komst næst í færi en varnarmaður náði að bjarga á síðustu stundu. Tuttugu mínútum fyrir leiksko varði Richard svo frábærlega frá Harry Kewell sem átti fast skot að markinu utan teigs. Þremur mínútum síðar eða svo fækkaði í liði Everton þegar Andy Van der Meyde, sem komm inn sem varamaður fimm mínutum áður, var rekinn af velli fyrir olnbogaskot í átt að Xabi Alonso. Dómarinn var mjög spjaldaglaður og alls lyfti hann spjöldum sínum tólf sinnum á loft! Ekki voru miklar sakar alltaf að baki. Liverpool hafði nú öll völd á vellinum sem aldrei fyrr og innsiglað tryggt sigurinn þegar Sami Hyypia skallaði í mark eftir aukaspyrnu þegar um það bil tíu mínútur voru eftir en línuvörðurinn dæmdi rangstöðu á Peter Crouch sem þó hafði ekki mikil áhrif á gang mála. En Evrópumeistararnir fastsettu sigurinn sex mínútum fyrir leikslok. Harry Kewell fékk þá boltann frá Steve Finnan utan teigs hægra megin. Ástralinn tvínónaði ekki við hlutina heldur þrykkti boltanum í markið út við vinstri stöngina. Allt gekk af göflunum af fögnuði innan vallar sem utan. Markið gulltryggði einn magnaðasta sigur Liverpool í grannaslag á seinni árum. Villt fagnaðarlæti hófust svo við þegar hinn spjaldaglaði dómari flautaði leikinn af og þjóðsögngurinn tók við!
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!