| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Þetta var ekkert aprílgabb. Liverpool vann öruggan sigur í Miðlöndunum og Robbie skoraði merkilegt mark. Þetta er leikur Liverpool og West Bromwich Albion í hnotskurn.

- Þetta var níundi deildarsigur Liverpool í röð gegn W.B.A.

- Í þessum níu sigurleikjum hefur Liverpool skorað 30 mörk og aðeins fengið tvö á sig.

- Liverpool hefur gengið frábærlega í síðustu heimsóknum sínum á The Hawthorns. Liverpool hefur skorað ellefu mörk í síðustu þremur leikjum þar. 

- Leikmönnum West Bromwich Albion hefur ekki tekist að skora gegn Liverpool í tuttugu ár!

- Liverpool vann líka fyrri leik liðanna á Anfield Road. Sá leikur fór fram á síðasta degi Evrópumeistaraársins.

- Leikmenn Liverpool hafa nú skorað tuttugu mörk í fimm síðustu leikjum liðsins.

- Robbie Fowler skoraði sitt annað löglega mark eftir endurkomuna.

- Markið sem Robbie skoraði var 173. mark hans á ferlinum fyrir Liverpool. Hann færðist þar með upp í fimmta sætið yfir markahæstu menn í sögu Liverpool. Robbie hefur skorað þessi 173 mörk í 341 leik.

- Djibril Cissé skoraði fimmtánda mark sitt á leiktíðinni. Hann hefur nú skorað tuttugu mörk fyrir Liverpool.

- Af fjórum markvörðum í liðshópum liðanna voru tveir Pólverjar. Tomasz Kuszczak stóð í marki W.B.A. en Jerzy Dudek sat á bekknum hjá Liverpool.

- Chris Kirkland er fingurbrotinn og var ekki leikfær. En hann hefði hvort sem er ekki getað leikið gegn Liverpool þar sem lánsmönnum er ekki lengur heimilt að leika gegn sínum liðum.

- Chris er enn í herbúðum W.B.A. Forráðamenn Liverpool vildu að hann yrði áfram þar í stað þess að koma aftur til Liverpool þegar hann meiddist.

- Markvarðarþjálfari WBA er Joe Corrigan sem áður þjálfaði markverði Liverpool í nokkur ár. 

- Liverpool er nú með seytján fleiri stig en á sama tíma fyrir ári!

- The Hawthorns skipar veglegan sess í sögu Liverpool því þar tryggði liðið sér sinn fyrsta Englandsmeistaratitil vorið 1901. Liverpool vann 1:0 sigur þar með marki frá John Walker og sá sigur færði liðinu þann fyrsta af átján titlum félagsins.

West Bromwich Albion: Kuszczak, Albrechtsen, Watson (Clement 62. mín.),Curtis Davies, Robinson, Kamara (Gera 45. mín.), Johnson, Wallwork,Greening, Kanu (Campbell 62. mín.) og Ellington. Ónotaðir varamenn: Hoult og Kozak.

Liverpool Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Alonso,Sissoko, Kewell, Cissé (Kromkamp 78. mín.), Crouch (Morientes 71. mín.) og Fowler (Garcia 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Warnock.

Mörk Liverpool: Robbie Fowler (7. mín.) og Djibril Cissé (38. mín.).

Áhorfendur The Hawthorns: 27.576.

Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn átti frábæran leik á miðjunni. Hann var mjög duglegur og stjórnaði öllu af miklum myndugleik. Hann átti stóran þátt í markinu sem Robbie Fowler skoraði og svo lagði hann seinna markið upp fyrir Djibril Cissé með einni fallegustu sendingu leiktíðarinnar.

Jákvætt :-) Liverpool vann fjórða deildarleikinn í röð. Leikmenn Liverpool hafa nú skorað tuttugu mörk í síðustu fimm leikjum liðsins. Markið sem Robbie Fowler skoraði fer í sögubækurnar. Djibril Cissé lék sinn besta leik í langan tíma og hann skoraði í þriðja leik sínum í röð. Jose Reina hélt markinu enn einu sinni hreinu. Miðjumenn Liverpool léku frábærlega.

Neikvætt :-(  Ekki neitt til að tala um.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði leikinn af krafti og tók forystu eftir aðeins sjö mínútur. Einn varnarmanna W.B.A. missti þá sendingu Xabi Alonso inn fyrir sig. Djibril Cissé var vel vakandi, náði boltanum og lék inn á teiginn. Hann sendi svo boltann fyrir markið á Robbie Fowler sem skoraði af öryggi frá markteig fyrir opnu marki. Liverpool réði lögum og lofum í fyrri hálfleik . Sóknir liðsins voru á köflum hraðar og kraftmiklar en samt náði liðið ekki að skapa sér þó ekki mörg opin færi. Varnarmaður komst þó fyrir skot frá Peter Crocuh á síðustu stundu áður en annað mark Evrópumeistaranna leit dagsins ljós sjö mínútum fyrir leikhlé. Jose Reina rúllaði þá boltanum út á Xabi Alonso. Spánverjinn leit upp og sendi svo stórkostlega sendingu fram völlinn. Boltinn fór yfir vörn heimamanna. Djibil Cisse var fljótur að átta sig. Hann stakk sér inn fyrir vörnina og náði boltanum. Hann lék svo á Tomasz Kuszczak markvörð W.B.A. og renndi boltanum í autt markið. Sendingin hjá Xabi, sem skóp markið, var stórfengleg frá einum vítateig teigi til annars. Leikmenn Liverpool gátu því gegnið ánægðir til hálfleiks.

Heimamenn, sem eru í mikilli fallbaráttu, léku mun betur eftir leikhlé en þeir komu vörn Liverpool sjaldan í vanda. Varamaðurinn Zoltan Gera átti þó tvö góð skot snemma í hálfleiknum en fóru bæði beint á Jose Reina sem varði í báðum tilfellum. Ungverjinn lífgaði upp á sóknarleik W.B.A. en varnarmenn Liverpool og Jose Reina voru staðráðnir í að halda markinu hreinu. Liverpool hefði getað aukið forystuna þegar Djibril Cissé skaut í hliðarnetið úr góðu færi eftir frábæra sendingu frá Mohamed Sissoko. Undir lokin skaut svo Fernando Morientes framhjá af stuttu færi eftir sendingu frá Harry Kewell. Leiknum lauk án þess að sóknarmönnum West Brom tækist að skora hjá Liverpool og eru nú tuttugu ár liðin frá því leikmenn W.B.A. fögnuðu síðast marki gegn Liverpool! Segi og skrifa tuttugu ár! Sigur Liverpool var öruggur og sanngjarn. Liverpool hefði örugglega getað bætt í en í þetta sinn var mikilvægast að tryggja stigin sem í boði voru.



 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan