| SSteinn

Er Florent Sinama Pongolle að fara?

Það gæti vel farið svo að Florent Sinama-Pongolle væri búinn að leika sinn síðasta leik fyrir Liverpool FC.  Hann segir sjálfur í blaðaviðtali í dag að hann viti ekkert um hver hans framtíð sé, en hann vill bara eitt og það er að spila leiki.  Hann er núna í láni hjá Blackburn, en hefur ekki slegið beint í gegn þar sem framherji, aðeins skorað eitt mark í sjö leikjum.  Það er líklega enginn sem veit það fyrir víst hver framtíð hans verður, nema kannski Rafa Benítez.  En hvað segir Flo sjálfur um málið?

Flo:  "Vegna þess að ég bý ennþá í Liverpool, þá er fólk alltaf að spyrja mig að því hvenær ég komi tilbaka.  En málið er bara að það sem kemur út úr málinu með Fowler, gæti haft áhrif á framtíð mína.  Ef Benítez kaupir tvo nýja framherja, þá kem ég ekki aftur.  Það væri útilokað.  Ég er 21 árs gamall og verð að spila.  Ég vil spila.  Það er erfitt og pirrandi þegar þú situr á bekknum og tekur ekki þátt í leiknum.

Hjá Liverpool, alveg sama hvort ég spilaði vel eða ekki, þá vissi ég aldrei hvort ég myndi taka þátt í næsta leik.  Fyrir framherja, þá hefur þetta vond áhrif á sálina, því þú þarft sjálfstraust til að skora mörk.  Þannig að þetta er nákvæmlega það sem mig vantar, að byrja leiki, njóta knattspyrnunnar og að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég spili næsta leik eða ekki.

Ég veit að Blackburn hafa talað við umboðsmann minn um það að vera hérna áfram, sem er mjög gott fyrir mig.  En ekkert hefur verið ákveðið ennþá.  Ég er ennþá að hugsa um framtíð mína og þarf að taka erfiða ákvörðun í lok tímabilsins.  Blackburn hafa gefið mér tækifæri til að spila leiki og undir þessum framkvæmdastjóra, þá er allt mjög breytt.  Hann talar meira við mig.  Eftir að hafa spilað undir frönskum stjóra í Gerard Houllier, spænskum í Rafa Benítez og núna breskum framkvæmdastjóra í Hughes, þá tel ég þetta mikla reynslu og ég hef lært mikið.

En ég má ekki gleyma því að ég hef átt góðar stundir með Liverpool.  Síðasta tímabil var frábært og ég á margar góðar minningar.  Þegar þú hittir stuðningsmennina, þá minna þeir þig á það, það er afar mikilvægt og sérstaklega þegar þú ert ekki að spila.  En ég vil ekki bara spila einn og einn leik hér og þar.  Ég vil fleiri leiki og setja mark mitt á Úrvalsdeildina."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan