Í hnotskurn
Robbie Fowler færði stuðningsmönnum Liverpool páskaglaðning með sigurmarki Evrópumeistaranna. Nýtt félagsmet leit dagsins ljós. Þetta er leikur Liverpool og Blackburn Rovers í hnotskurn.
- Leikurinn fór fram á páskadag. Liverpool hefur ekki oft leikið á páskadag. Þó minnist ég þess að liðið hafi leikið á páskum 1986. Ef rétt er munað þá vann Liverpool 2:1 útisigur gegn Tottenham Hotspur.
- Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til minningar um þá 96 stuðningsmenn Liverpool sem létust þann 15. apríl 1989 á Hillsborough í Sheffield. Þessi þögn var fullkomlega virt af þeim 29.142 áhorfendum sem sáu leikinn.
- Ef rétt er talið þá var þetta mesti áhorfendafjöldinn á Ewood Park á leiktíðinni.
- Allir leikmenn liðanna báru sorgarbönd í tilefni ártíðar harmleiksins á Hillsborough. Sorgarböndin báru dagsetninguna 15. apríl 1989 og tákn í minningu þeirra sem létust. Leikmenn annarra liða í Úrvalsdeildinni báru líka samskonar sorgarbönd í páskaleikjunum.
- Liverpool hefur vegnað vel gegn Blackburn undanfarin ár. Blackburn hefur ekki lagt Liverpool að velli frá því haustið 1996. Það gera nú fimmtán leiki án taps!
- Sigurinn var góð afmælisgjöf fyrir Rafael Benítez sem varð 46 ára á páskadag.
- Þetta var sjötti deildarsigur Liverpool í röð.
- Jamie Carragher var fyrirliði Liverpool í fjarveru Steven Gerrard sem var meiddur.
- Robbie Fowler skoraði fjórða mark sitt eftir endurkomuna.
- Robbie skoraði þarna í þriðja leik sínum í röð. Það afrekaði hann síðast árið 1997.
- Jose Reina lék sinn 50. leik með Liverpool. Hann hefur aðeins fengið á sig 29 mörk í þeim leikjum. Þetta er nýtt félagsmet. Gamla metið átti Goðsögnin Ray Clemence. Hann fékk 32 mörk í sig í 50 fyrstu leikjum sínum.
- Liverpool hélt markinu hreinu í 33. sinn á þessari leiktíð. Félagsmetið nálgast enn.
- Djibril Cissé henti peysunni sinni til stuðningsmanna Liverpool eftir leikinn.
- Ég gat ekki betur séð en Brad Friedel léti stuðningsmenn Liverpool hafa hanskana sína eftir leikinn. Að minnsta kosti labbaði hann hanskalaus að velli. Hann lék síðari hálfleikinn fyrir framan stuðningsmenn síns gamla félags.
- Dominic Matteo lék ekki gegn sínum gömlu félögum. Hann hefur ekki leikið mikið á þessari leiktíð.
- Florent Sinama Pongolle fylgdist með leiknum. Hann skoraði gegn Liverpool í dymbilvikunni með varaliði Balckburn. Liverpool vann leikinn 2:1.
Blackburn Rovers: Friedel, Neill, Khizanishvili, Nelsen, Gray, Bentley, Savage, Reid, Pedersen, Dickov (Kuqi 67. mín.) og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Enckelman, Emerton, Mokoena og Peter.
Gul spjöld: Robbie Savage, David Bentley og Lucas Neill.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Kewell 69. mín.), Cisse, Sissoko, Alonso, Riise, Morientes (Kromkamp 81. mín.) og Fowler (Garcia 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.
Mark Liverpool: Robbie Fowler (29. mín.).
Gul spjöld: Mohamed Sissoko og Xabi Alonso.
Áhorfendur á Ewood Park: 29.142.
Maður leiksins: Sami Hyypia átti stórleik í hjarta varnar Liverpool. Hann vann marga bardaga jafnt sem á lofti og á jörðu niðri. Hann byggði líka upp nokkrar sóknir með góðum sendingum fram völlinn. Finninn hefur sýnt og sannað að hann er mikð eftir í honum.
Jákvætt :-) Liverpool vann sjötta deildarleikinn í röð. Robbie Fowler skoraði dýrmætt mark og lék mjög vel í sókninni. Jose Reina og samverkamenn hans í vörn Liverpool lögðu enn einu sinni grunn að sigri með því að halda marki sínu hreinu. Þeir Xabi og Mohamed léku frábærlega á miðjunni og Steven Gerrard var ekki saknað. Áhorfendur virtu þögnina fyrir leikinn fullkomlega.
Neikvætt :-( Ekki neitt til að tala um.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikurinn var tilþrifalítill fram eftir hálfleiknum. Evrópumeistararnir náðu þó betri tökum á leiknum þegar á leið og á 29. mínútu sköpuðu þeir sér fyrsta marktækifæri leiksins og þeir færðu sér það snnarlega í nyt. John Arne Riise tók innkast inn að vítateig heimamanna. Robbie Fowler stýrði boltanum, með brjóstkassanum, inn fyrir vörnina og tók svo á rás inn í vítateiginn. Fernando Morientes fékk boltann frá Robbie og lék að markinu. Hann var sjálfur kominn í gott skotfæri en hann sýndi mikla óeigingirni og renndi boltanum fyrir markið á Robbie sem skoraði af öryggi. Frábært mark og Robbie skoraði skoraði þarna í þriðja leik sínum í röð. Á meðan leikmenn og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu móthmæltu leikmenn Blackburn markinu harðlega. Ástæðan var sú að Djibril Cissé stóð fyrir innan vörn Blackburn þegar Robbie stýrði boltanum til Fernando Morientes. Spánverjinn var ekki rangstæður. Frakkinn var vissulega fyrir innan vörnina en línuvörðurinn taldi hann ekki hafa áhrif á leikinn. Reiði heimamanna var skiljanleg en línuvörðuinn gat auðveldlega rökstutt ákvörðun sína með rökum úr knattspyrnulögunum. Leikmenn Liverpool voru sterkari fram að leikhléi þrátt fyrir að heimamenn væru mjög grimmir sökum reiði vegna marksins. Rétt undir lok hálfleiksins sneri Liverpool vörn í sókn og Robbie Fowler sendi frábæra sendingu inn fyrir vörn Blackburn. Djibril Cissé komst einn í gegn og lék inn í teig þaðan sem hann skaut föstu skoti að marki. Brad Friedel varði frábærlega. Boltinn skoppaði upp í loftið og datt svo ofan á þverslána. Heimamenn sluppu vel og ekki gátu þeir kvartað að vera undir því þeir áttu ekki eitt einasta markskot í hálfleiknum.
Blackburn setti meiri kraft í sóknarleik sinn eftir leikhlé, enda í baráttu um Evrópusæti, en vörn Liverpool var frábær auk þess sem Jose Reina var öryggið uppmálað fyrir aftan hana. Hættulegasta færi Blackburn kom þegar Nýsjálendingurinn Ryan Nelsen skallaði rétt framhjá snemma í hálfleiknum. Jose Reina blakaði svo hættulegri fyrirgjöf frá Paul Dickov yfir markið litlu síðar. Liverpool hefði getað gert út um leikinn þegar tuttugu mínútur voru eftir þegar Fernando Morientes skallaði fyrirgjöf Harry Kewell framhjá. Það mátti ekkert út af bera þegar forystan var aðeins eitt mark en sem fyrr segir þá var vörn Liverpool framúrskarandi. Djibril Cissé hefði átt að bæta við marki í meiðslatíma. Líkt og undir lok fyrri hálfleiks þá slapp hann einn í gegn. Brad varði frábærlega frá honum. Djibril náði frákastinu en skaut í stöng úr þröngu færi. Litlu siðar var flautað til leiksloka og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu naumum en góðum sigri. Þeir gátu haldið glaðir heim og lokið við páskaeggin sín.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni