Fyrsti sigur leiktíðarinnar í höfuðstaðnum
Evrópumeistararnir unnu sinn fyrsta sigur í höfuðstaðnum frá þeir voru ekki Evrópumeistarar. Djibril Cisse tryggði Liverpool 2:1 sigur á bikarúrslitamótherjunum með tveimur mörkum á Upton Park í kvöld. Liverpool vann síðast sigur í Lundúnum í byrjun febrúar 2005. Sigurinn gæti þó reynst dýrkeyptur því Luis Garcia var vikið af leikvelli, fyrir litlar sakir, ásamt Hayden Mullins og þeir missa báðir af bikarúrslitaleiknum ef rauðu spjöldin þeirra standa. Þeir fengu að líta rauða spjaldið án viðvörunar og slíkt þýðir þriggja leikja bann.
Fyrir leik var John Lyall fyrrum framkvæmdastjóra Hamranna, sem lést nú í vikunni, minnst. Rafael Benítez umbylti liðinu sem tryggði Liverpool farseðil til Cardiff á sunnudaginn. Alls gerði hann átta breytingar. Þær virtust ekki gefast illa því Liverpool byrjaði vel í fjörugum leik og Jimmy Walker varði vel fast skot frá Djibril Cissé. Reyndar sóttu bæði lið á báða bóga. Evrópumeistararnir náðu forystu á 19. mínútu. Mohamed Sissoko tók þá mikinn sprett upp að vítateig heimamanna. Þar var sótt að Malímanninum en hann náði að senda boltann út til vinstri á Djibril Cissé sem skaut föstu skoti frá vítateig sem hafnaði í markinu. Hamrarnir voru nærri því að jafna rétt á eftir en Jerzy Dudek varði vel frá Yossi Benayoun. Litlu síðar skoraði Fernando Morientes en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Virtist sumum það ekki rétt dæmt. Robbie Fowler var nærri búin að bæta við marki eftir hálftíma þegar hann vippaði boltanum laglega að marki en boltinn fór rétt framhjá. Djibril ógnaði með föstu skoti en Jimmy varði vel. Heimamenn voru kraftmiklir á lokakafla hálfleiksins og fengu tvö góð færi. Fyrst skallaði Teddy Sheringham rétt framhjá og svo skallaði Yossi Benayoun yfir úr góðu færi.
Leikmenn West Ham héldu áfram þaðan sem frá var horfið í fyrri hálfleik eftir hlé. Það kom því ekki á óvart þegar West Ham jafnaði eftir aðeins eina mínútu. Nigel Reo-Coker skoraði þá af stuttu færi eftir frábært samspil í gegnum vörn Liverpool. Strax í næstu sókn munaði hársbreidd að Liverpool kæmist aftur yfir. Mohamed Sissoko sendi þá fyrir mark West Ham á Fernando Morientes sem skaut í þverslá og niður. Heimamenn áttu hættulegar sóknir í framhaldinu en það var Liverpool sem komst yfir eftir að hafa snúið vörn í sókn á snilldarlegan hátt. Robbie Fowler sendi frábæra sendingu, frá eigin vallarhelmingi, inn fyrir vörn West Ham. Djibril Cissé stakk sér inn fyrir vörnina og æddi að markinu. Hann skaut svo frá vítateig. Jimmy Walker kom við boltann en gat ekki komið í veg fyrir að boltinn færi í markið. Hamrarnir gáfust ekki upp og Jerzy Dudek varði tvívegis vel frá Matthew Etherington. Nigel Reo-Coker jafnaði svo aftur eftir góðan samleik en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Líkt og markið sem Fernando skoraði í fyrri hálfleik virtist dómurinn rangur. Djibril Cissé reyndi svo að ná þrennunni en skaut í hliðarnetið úr góðu færi. Robbie Fowler hefði líka átt að skora en hann skallaði framhjá úr mjög góðu færi eftir fyrirgjöf frá Djibril Cissé. Hann skipti svo rétt á eftir við Luis Garcia. Spánverjinn var þó aðeins inni á vellinum í tvær mínútur. Honum var vikið af leikvelli eftir viðskipti við Hayden Mullins. Þeir toguðust fyrst á í baráttu um boltann áður en Hayden sló til Luis. Dómarinn rak báða af velli en það verður að segjast eins og er að Luis vann lítið ef nokkurt til þess að vera vikið af leikvelli. En Liverpool landaði níunda sigri sínum í röð og enn er möguleiki á öðru sæti deildarinnar.
West Ham United: Walker, Scaloni, Ferdinand, Collins (Fletcher 45. mín.), Ward, Etherington, Benayoun (Harewood 77. mín.), Mullins, Reo-Coker, Zamora og Sheringham. Ónotaðir varamenn: Hislop, Ephraim og Reid.
Mark West Ham United: Nigel Reo-Coker (46. mín.).
Rautt spjald: Hayden Mullins (82. mín.)
Liverpool: Dudek, Finnan (Hyypia 63. mín.), Carragher, Kromkamp, Traore, Cissé, Hamann, Sissoko, Warnock, Fowler (Garcia 80. mín.) og Morientes (Riise 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina og Alonso.
Mörk Liverpool: Djibril Cissé (19. og 54. mín.).
Rautt spjald: Sans Luis Garcia (82. mín.).
Áhorfendur á Upton Park: 34.852.
Rafael Benítez var ánægður með sína menn. ,,Ég er mjög ánægður með úrslit leiksins. En þau hafa enga þýðingu með tillits til bikarúrslitaleiksins. Sá leikur verður allt öðruvísi. Við sýndum að við erum með sterkari hóp en fyrr. Það kom í ljós að við getum farið í í leik sem þennan, með mismunandi leikmenn, og samt spilað vel, skorað mörk og skapað okkur marktækifæri. Djibril skapaði sér tvö önnur opin færi og hann hefði getað skorað fjögur mörk. Þetta var mjög góð framganga."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!