| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Upphitun fyrir F.A. bikarúrslitin. Tvenna Djibril Cissé tryggði Liverpool fyrsta sigurinn í höfuðstaðnum í meira en ár. Þetta er leikur Liverpool og West Ham United í hnotskurn.

- Þetta var upphitun fyrir 125. úrslitaleik F.A. bikarsins sem fram fer á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff þann 13. maí. Þarn mætast þessi sömu lið aftur.

- Fyrir leikinn var John Lyall, fyrrum framkvæmdastjóra, West Ham minnst en hann lést fyrr í vikunni.

- Leikmenn beggja liða báru sorgarbönd vegna andláts John.

- Rafael Benítez teflir sjaldan fram sama liðinu tvo leiki í röð. Venjulega gerir hann nokkrar breytingar. Þær voru óvenjulega margar núna. Alls gerði hann átta breytingar á liðinu sem vann Chelsea 2:1 í undanúrslitum F.A. bikarsins. 

- Sami Hyypia lék sinn 250. deildarleik með Liverpool þegar hann kom inn á.

- Þeir Steve Finnan og Luis Garcia léku sína 50. leiki á leiktíðinni.

- Djibril Cissé skoraði bæði mörk Liverpool og er nú búinn að skora seytján mörk á leiktíðinni. Hann er nú aðeins tveimur mörkum á eftir Steven Gerrard.

- Líklega hefur leikmaður aldrei verið rekinn jafn fljótt af velli með Liverpool eftir að hafa komið inn sem varamaður. Luis Garcia var aðeins búinn að vera inni á vellinum í tvær mínútur þegar honum var vikið að velli ásamt Hayden Mullins.

- Bæði félögin áfrýjuðu brottrekstrinum en Enska knattspyrnusambandið lét brottreksturinn standa og þeir Luis og Hayden missa því af bikarúrslitaleiknum.

- Þetta var fimmtugasti deildarsigur Liverpool á Hömrunum.

- Liverpool hefur gengið heldur illa í höfuðstaðnum á síðustu mánuði. Þetta var fyrsti sigur Liverpool í þar frá því liðið vann Charlton Athletic á The Valley þann 1. febrúar 2005. 

West Ham United: Walker, Scaloni, Ferdinand, Collins (Fletcher 45. mín.), Ward, Etherington, Benayoun (Harewood 77. mín.), Mullins, Reo-Coker, Zamora og Sheringham. Ónotaðir varamenn: Hislop, Ephraim og Reid.

Mark West Ham United: Nigel Reo-Coker (46. mín.).

Rautt spjald: Hayden Mullins (82. mín.)

Liverpool: Dudek, Finnan (Hyypia 63. mín.), Carragher, Kromkamp, Traore, Cissé, Hamann, Sissoko, Warnock, Fowler (Garcia 80. mín.) og Morientes (Riise 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina og Alonso.

Mörk Liverpool: Djibril Cissé (19. og 54. mín.).

Rautt spjald: Sans Luis Garcia (82. mín.).

Áhorfendur á Upton Park: 34.852.

Maður leiksins: Djibril Cissé átti líklega sinn besta leik á leiktíðinni. Hann var mjög duglegur og ógnandi. Hann fullkomnaði svo leik sinn með því að skora tvö falleg mörk. Hann er nú búinn að skora seytján mörk á leiktíðinni og getur það ekki talist annað en gott miðað við þá gagnrýni sem hann hefur setið undir.

Jákvætt :-) Liverpool vann sinn fyrsta sigur í London í meira en ár. Liðið lék vel þrátt fyrir að átta breytingar væru gerðar á liðinu eftir síðasta leik. Djibril Cissé lék mjög vel og var duglegur í framlínúnni. Robbie Fowler átti mjög góðan í sókninni. Mohamed Sissoko átti enn einn stórleikinn á miðjunni. Það er með ólíkindum hvað hann hefur náð sér vel eftir hin alvarlegu augnmeiðsli sem hann varð fyrir.

Neikvætt :-(  Brottrekstur Luis Garcia var út í hött og Spánverjinn getur nagað sig í handarbökin fyrir að sýna ekki meiri yfirvegun. Það er áfall að hann skuli ekki geta spilað í úrslitaleiknum. Mér fannst nú dómarinn hafa átt að láta gult spjald nægja á þá félaga.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði vel í fjörugum leik og Jimmy Walker varði vel fast skot frá Djibril Cissé. Reyndar sóttu bæði lið á báða bóga. Evrópumeistararnir náðu forystu á 19. mínútu. Mohamed Sissoko tók þá mikinn sprett upp að vítateig heimamanna. Þar var sótt að Malímanninum en hann náði að senda boltann út til vinstri á Djibril Cissé sem skaut föstu skoti frá vítateig sem hafnaði í markinu. Hamrarnir voru nærri því að jafna rétt á eftir en Jerzy Dudek varði vel frá Yossi Benayoun. Litlu síðar skoraði Fernando Morientes en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Virtist sumum það ekki rétt dæmt. Robbie Fowler var nærri búin að bæta við marki eftir hálftíma þegar hann vippaði boltanum laglega að marki en boltinn fór rétt framhjá. Djibril ógnaði með föstu skoti en Jimmy varði vel. Heimamenn voru kraftmiklir á lokakafla hálfleiksins og fengu tvö góð færi. Fyrst skallaði Teddy Sheringham rétt framhjá og svo skallaði Yossi Benayoun yfir úr góðu færi.

Leikmenn West Ham héldu áfram þaðan sem frá var horfið í fyrri hálfleik eftir hlé. Það kom því ekki á óvart þegar West Ham jafnaði eftir aðeins eina mínútu. Nigel Reo-Coker skoraði þá af stuttu færi eftir frábært samspil í gegnum vörn Liverpool. Strax í næstu sókn munaði hársbreidd að Liverpool kæmist aftur yfir. Mohamed Sissoko sendi þá fyrir mark West Ham á Fernando Morientes sem skaut í þverslá og niður. Heimamenn áttu hættulegar sóknir í framhaldinu en það var Liverpool sem komst yfir eftir að hafa snúið vörn í sókn á snilldarlegan hátt. Robbie Fowler sendi frábæra sendingu, frá eigin vallarhelmingi, inn fyrir vörn West Ham. Djibril Cissé stakk sér inn fyrir vörnina og æddi að markinu. Hann skaut svo frá vítateig. Jimmy Walker kom við boltann en gat ekki komið í veg fyrir að boltinn færi í markið. Hamrarnir gáfust ekki upp og Jerzy Dudek varði tvívegis vel frá Matthew Etherington. Nigel Reo-Coker jafnaði svo aftur eftir góðan samleik en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Líkt og markið sem Fernando skoraði í fyrri hálfleik virtist dómurinn rangur. Djibril Cissé reyndi svo að ná þrennunni en skaut í hliðarnetið úr góðu færi. Robbie Fowler hefði líka átt að skora en hann skallaði framhjá úr mjög góðu færi eftir fyrirgjöf frá Djibril Cissé. Hann skipti svo rétt á eftir við Luis Garcia. Spánverjinn var þó aðeins inni á vellinum í tvær mínútur. Honum var vikið af leikvelli eftir viðskipti við Hayden Mullins. Þeir toguðust fyrst á í baráttu um boltann áður en Hayden sló til Luis. Dómarinn rak báða af velli en það verður að segjast eins og er að Luis vann lítið ef nokkurt til þess að vera vikið af leikvelli. En Liverpool landaði níunda sigri sínum í röð og enn er möguleiki á öðru sæti deildarinnar. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan