Fyrirliðinn innsiglaði sigurinn í síðasta heimaleiknum
Evrópumeistararnir unnu síðasta heimaleik sinn á leiktíðinni. Þeir lögðu Aston Villa örugglega að velli 3:1. Leikmaður ársins, Steven Gerrard, innsiglaði sigurinn sem heldur möguleika á öðru sætinu opnum. Liverpool náði Manchester United að stigum eftir að United tapaði 3:0 fyrir Chelsea sem þar með tryggði sér enska meistaratitilinn annað árið í röð og í þriðja sinn í sögu félagsins. Manchester United á hins vegar tvo leiki eftir í deildinni en Liverpool bara einn. Þetta var tíundi sigur Liverpool í röð.
Evrópumeistararnir fengu óskabyrjun þegar Fernando Morientes skoraði eftir aðeins fjórar mínútur. Hann fékk frábæra sendingu frá landa sínum Xabi Alonso, sneri einn varnarmann af sér og renndi boltanum af öryggi neðst í vinstra hornið. Leikmenn Liverpool fylgdu þessari góðu byrjun ekki eftir og slökuðu á. Hættulegasta marktilraun Liverpool það sem eftir var hálfleiksins var langskot Steven Gerrard sem Thomas Sorensen varði eftir rúmlega stundarfjórðung. Djimi Traore komst reyndar í gott færi undir lok hálfleiksins en varnarmaður náði að bjarga eftir að hann kom boltanum framhjá markverði gestanna.
Leikmenn Aston Villa léku miklu betur eftir leikhlé. Juan Pablo Angel færði líf í sóknarleik liðsins þegar hann leysti Milan Baros af hólmi. Milan fékk hlýjar móttökur hjá stuðningsmönnum Liverpool fyrir leikinn. Juan var nærri búinn að gefa af sér jöfnunarmark í upphafi hálfleiksins þegar Jose Reina skaut boltanum í hann. Boltinn hrökk að marki Liverpool en varnarmenn Liverpool björguðu. Fimm mínútum eftir leikhlé fékk Peter Crouch dauðafæri eftir að Djibril Cissé náði boltanum af varnarmanni, lék upp kantinn og gaf fyrir. Peter skaut hins vegar framhjá. Litlu síðar var svo varið frá Fernando Morientes. Gestirnir jöfnuðu svo á 58. mínútu. Góðri sókn upp vinstri kantinn lauk með því að Aaron Hughes sendi fyrir markið. Boltinn fór þvert fyrir markteiginn yfir á fjærstöng þar sem Gareth Barry kom og skoraði auðveldlega. Rétt á eftir fékk Aston Villa dauðafæri til að komast yfir. Sami Hyypia missti boltann eftir að Juan Pabo Angel sótti að honum. Boltinn barst til Gabriel Agbonlahor sem var einn gegn Jose Reina en skaut slöku skoti framhjá úr upplögðu færi. Leikmenn Liverpool, sem voru orðnir værukærir hristu nú af sér slyðruorðið og á 61. mínútu komst Liverpool aftur yfir. Xabi Alonso tók hornspyrnu frá hægri. Steven Gerrard var snöggur að bregðast við. Hann stakk sér inn að nærstönginni og komst fyrstur að boltanum. Hann stýrði honum svo í markið með góðu skoti. Leikmenn Liverpool voru nú aftur komnir með öll tök á leiknum. John Arne Riise átti gott skot rétt framhjá áður en Evrópumeistararnir gerðu út um leikinn á 66. mínútu. Fernando lagði þá boltann á Steven Gerrard. Leikmaður ársins tók við boltanum og stillti miðið. Hann þrumaði svo boltanum að marki af um 25 metra færi. Boltinn skaust sem ör að markinu og hafnaði í því alveg út við stöng vinstra megin gersamlega óverjandi fyrir Danann í marki Aston Villa. Stórglæsilegt mark og eitt það fallegasta sem Liverpool hefur skorað á leiktíðinni. Það var engin furða að fögnuðurinn væri mikill í sólskininu á Anfield Road. Þetta var stórkostlegt mark og það tuttugasta og fyrsta sem Steven skorar á leiktíðinni. Gestirnir voru nærri búnir að minnka muninn stuttu eftir markið. Leikmaður Aston Villa skaut að marki, boltinn breytti um stefnu af Mohamed Sissoko en Jose varði vel. Robbie Fowler komst í gott færi þegar um tíu mínútur voru eftir en hann skaut framhjá. Öruggur sigur Liverpool var svo innbyrtur á tíðindalitlum lokakafla leiksins. Liverpool hefur leikið betur og liðið slakaði á um tíma. En tíundi sigur Liverpool í röð var samt öruggur þegar á heildina er litið.
Líkt og hefðir kveða á um þá gengu leikmenn Liverpool og þjálfarar heiðurshring eftir leikinn. Stuðningsmenn Liverpool hylltu hetjurnar sínar og leikmenn þökkuðu stuðninginn á leiktíðinni. Börn þjálfara og leikmanna fengu að fylgja feðrum sínum. Stuðningsmenn Liverpool voru í góðu skapi í vorsólinni eftir sigurinn og fögnuðu leikmönnum og þjálfurum vel. Áhorfendur á The Kop notuðu tækifærið og hvöttu Rafael Benítez til að gera nýjan samning við Robbie Fowler! Leiktíðin hófst í byrjun sláttar og hún er ekki búin enn. Enn eru tveir leikir eftir. Sigrar í þeim myndu fullkomna erfiðið!
Liverpool: Reina, Kromkamp, Hyypia, Carragher, Traore, Cissé (Sissoko 65. mín.), Alonso, Gerrard, Riise (Warnock 74. mín.), Crouch (Fowler 62. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Dudek og Agger.
Mörk Liverpool: Fernando Morientes (4. mín) og Steven Gerrard (61. og 66. mín.).
Aston Villa: Sorensen, Hughes, Mellberg, Cahill, Bouma, Davis (Gardner 86. mín.), McCann, Barry (Phillips 82. mín.), Milner, Baros (Angel 45. min.) og Agbonlahor. Ónotaðir varamenn: Taylor og Ridgewell.
Mark Aston Villa: Gareth Barry (58. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 44.479.
Rafel Benítez hefur ekki enn gefið upp alla von með annað sætið. Hann hældi líka Leikmanni árins og þakkaði áhorfendum stuðninginn. ,,Við munum halda áfram að vinna að því að ná öðru sætinu en ég á reyndar ekki von á því að United misstigi sig því þeir eiga tvo heimaleiki eftir. Þetta verður erfitt fyrir okkur en við erum nær þeim núna en áður. Steven Gerrard gerði gæfumuninn og maður þarfnast alltaf leikmanna í hans gæðaflokki til að vinna leiki. Mig langar að þakka stuðningsmönnum okkar því þeir stóðu við bakið á okkur allan leikinn. Ég gleðst fyrir hönd þeirra að við skyldum ná að vinna síðasta heimaleik okkar á leiktíðinni."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!