Í hnotskurn
Leikmaður ársins sá um að Evrópumeistararnir kvöddu Anfield Road, á þessari leiktíð, með sigri. Leikurinn var óvenju stuttur. Þetta er leikur Liverpool og Aston Villa í hnotskurn.
- Liverpool lék sinn síðasta heimaleik á leiktíðinni.
- Líkt og á síðustu leiktíð þá var mótherjinn Aston Villa.
- Liverpool vann lokaleikinn á heimavelli á síðustu leiktíð 2:1 en núna vannst 3:1 sigur. Í báðum leikjunum skoraði Gareth Barry fyrir Aston Villa.
- Vonandi verður uppskriftin sú sama og á síðustu leiktíð. Það er að segja Liverpool vinnur Aston Villa í síðasta heimaleik leiktíðarinnar og endar svo leiktíðina með því að vinna titil.
- Steven Gerrard lék sinn fyrsta leik eftir að hann var kjörinn Leikmaður ársins af atvinnuknattspyrnumönnum á Englandi.
- Steven er fyrsti leikmaður Liverpool til að hljóta þannan heiður frá því John Barnes varð fyrir valinu árið 1988.
- Fernando Morientes skoraði níunda mark sitt á leiktíðinni.
- Steven skoraði tvö mörk og er nú búinn að skora 21 mark á leiktíðinni. Miðjumaður hefur ekki skorað fleiri mörk fyrir Liverpool á þessari öld.
- Milan Baros er ekki búinn að gleyma ríkjandi hefðum á Anfield Road. Hann sást snerta This is Anfield merkið um leið og leikmenn liðanna gegnu úr á völlinn.
- Stuðningsmenn Liverpool eru ekki búnir að gleyma Milan Baros. The Kop kyrjaði nafn hans í upphafi leiksins þegar hann sótti að marki Liverpool. Milan gaf sér tíma og klappaði fyrir stuðningsmönnum Liverpool, þegar boltinn var farinn út af, eftir að hann heyrði söng þeirra.
- Milan varð markahæsti leikmaður Liverpool á síðustu leiktíð. Hann skoraði þrettán mörk líkt og þeir Steven Gerrard og Luis Garcia.
- Annar Tékki, fyrrum leikmaður Liverpool er á mála hjá Aston Villa. Það er Patrik Berger. Hann hefur sama og ekkert leikið á þessari leiktíð vegna meiðsla.
- Liverpool vann þarna tvöfaldan sigur á Aston Villa í seytjánda skipti.
- Liverpool náði frábærum árangi í deildarleikjum sínum á Anfield Road á þessari lektíð og reyndar þeim besta um nokkurt skeið.
- Liverpool vann 15 sigra í 19 leikjum og fékk aðeins átta mörk á sig.
- Aðeins fimm liðum tókst að skora gegn Liverpool á Anfield Road. Þar af skoruðu Englandsmeistarar Chelsea fjögur mörk í einum leik.
- Liverpool náði 48 stigum á Anfield Road á þessari leiktíð. Það er met eftir að liðin fóru að leika 38 leiki á leiktíð.
- Leikurinn var óvenju stuttur. Dómarinn bætti engum viðbótartíma við í lok fyrri hálfleiks og aðeins einni mínútu í lok þess síðari. Reyndar flautaði hann af þegar tvær sekúndur voru eftir að viðbótarmínútunni!
- Jamie Carragher hefur greinilega orðið heitt í hamsi eftir því sem leið á leikinn. Að minnsta kosti lék hann í stuttermapeysu í síðari hálfleik!
- Líkt og hefðir kveða á um þá gengu leikmenn Liverpool og þjálfarar heiðurshring eftir leikinn. Stuðningsmenn Liverpool hylltu hetjurnar sínar og leikmenn þökkuðu stuðninginn á leiktíðinni. Börn þjálfara og leikmanna fengu að fylgja feðrum sínum.
Liverpool: Reina, Kromkamp, Hyypia, Carragher, Traore, Cissé (Sissoko 65. mín.), Alonso, Gerrard, Riise (Warnock 74. mín.), Crouch (Fowler 62. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Dudek og Agger.
Mörk Liverpool: Fernando Morientes (4. mín) og Steven Gerrard (61. og 66. mín.).
Aston Villa: Sorensen, Hughes, Mellberg, Cahill, Bouma, Davis (Gardner 86. mín.), McCann, Barry (Phillips 82. mín.), Milner, Baros (Angel 45. min.) og Agbonlahor. Ónotaðir varamenn: Taylor og Ridgewell.
Mark Aston Villa: Gareth Barry (58. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 44.479.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Það fór lengi vel ekki mikið fyrir Leikmanni ársins. En þegar gestirnir náðu að jafna hleypti hann hörku í sig og skoraði tvö glæsileg mörk. Seinna mark hans er eitt það fallegasta sem Liverpool hefur skorað á leiktíðinni. Þar með er hann búinn að skora 21 mark á leiktíðinni. Frábært hjá fyrirliðanum.
Jákvætt :-) Liverpool vann sinn tíunda sigur í röð. Liðið lék vel á köflum og það var gaman að sjá liðið snúa leiknum aftur sér í hag eftir að Aston Villa náði að jafna. Steven Gerrard skoraði tvö glæsileg mörk. Liverpool náði frábærum árangri á Anfield Road á þessari leiktíð og það er nokkuð um liðið frá því liðið hefur náð jafngóðum árangri þar. Stuðningsmenn Liverpool kvöddu hetjurnar sínar með viðeigandi hætti eftir leikinn og leikmenn þökkuðu stuðninginn.
Neikvætt :-( Leikmenn Liverpool slökuðu á um tíma og það hafi þær afleiðingar að Aston Villa náði að jafna metin. Það kom þó ekki að sök því Liverpool náði aftur yfirhöndinni í leiknum.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Evrópumeistararnir fengu óskabyrjun þegar Fernando Morientes skoraði eftir aðeins fjórar mínútur. Hann fékk frábæra sendingu frá landa sínum Xabi Alonso, sneri einn varnarmann af sér og renndi boltanum af öryggi neðst í vinstra hornið. Leikmenn Liverpool fylgdu þessari góðu byrjun ekki eftir og slökuðu á. Hættulegasta marktilraun Liverpool það sem eftir var hálfleiksins var langskot Steven Gerrard sem Thomas Sorensen varði eftir rúmlega stundarfjórðung. Djimi Traore komst reyndar í gott færi undir lok hálfleiksins en varnarmaður náði að bjarga eftir að hann kom boltanum framhjá markverði gestanna.
Leikmenn Aston Villa léku miklu betur eftir leikhlé. Juan Pablo Angel færði líf í sóknarleik liðsins þegar hann leysti Milan Baros af hólmi. Milan fékk hlýjar móttökur hjá stuðningsmönnum Liverpool fyrir leikinn. Juan var nærri búinn að gefa af sér jöfnunarmark í upphafi hálfleiksins þegar Jose Reina skaut boltanum í hann. Boltinn hrökk að marki Liverpool en varnarmenn Liverpool björguðu. Fimm mínútum eftir leikhlé fékk Peter Crouch dauðafæri eftir að Djibril Cissé náði boltanum af varnarmanni, lék upp kantinn og gaf fyrir. Peter skaut hins vegar framhjá. Litlu síðar var svo varið frá Fernando Morientes. Gestirnir jöfnuðu svo á 58. mínútu. Góðri sókn upp vinstri kantinn lauk með því að Aaron Hughes sendi fyrir markið. Boltinn fór þvert fyrir markteiginn yfir á fjærstöng þar sem Gareth Barry kom og skoraði auðveldlega. Rétt á eftir fékk Aston Villa dauðafæri til að komast yfir. Sami Hyypia missti boltann eftir að Juan Pabo Angel sótti að honum. Boltinn barst til Gabriel Agbonlahor sem var einn gegn Jose Reina en skaut slöku skoti framhjá úr upplögðu færi. Leikmenn Liverpool, sem voru orðnir værukærir hristu nú af sér slyðruorðið og á 61. mínútu komst Liverpool aftur yfir. Xabi Alonso tók hornspyrnu frá hægri. Steven Gerrard var snöggur að bregðast við. Hann stakk sér inn að nærstönginni og komst fyrstur að boltanum. Hann stýrði honum svo í markið með góðu skoti. Leikmenn Liverpool voru nú aftur komnir með öll tök á leiknum. John Arne Riise átti gott skot rétt framhjá áður en Evrópumeistararnir gerðu út um leikinn á 66. mínútu. Fernando lagði þá boltann á Steven Gerrard. Leikmaður ársins tók við boltanum og stillti miðið. Hann þrumaði svo boltanum að marki af um 25 metra færi. Boltinn skaust sem ör að markinu og hafnaði í því alveg út við stöng vinstra megin gersamlega óverjandi fyrir Danann í marki Aston Villa. Stórglæsilegt mark og eitt það fallegasta sem Liverpool hefur skorað á leiktíðinni. Það var engin furða að fögnuðurinn væri mikill í sólskininu á Anfield Road. Þetta var stórkostlegt mark og það tuttugasta og fyrsta sem Steven skorar á leiktíðinni. Gestirnir voru nærri búnir að minnka muninn stuttu eftir markið. Leikmaður Aston Villa skaut að marki, boltinn breytti um stefnu af Mohamed Sissoko en Jose varði vel. Robbie Fowler komst í gott færi þegar um tíu mínútur voru eftir en hann skaut framhjá. Öruggur sigur Liverpool var svo innbyrtur á tíðindalitlum lokakafla leiksins. Liverpool hefur leikið betur og liðið slakaði á um tíma. En tíundi sigur Liverpool í röð var samt öruggur þegar á heildina er litið.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!