| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Góður sigur hjá Evrópumeisturunum í síðasta deildarleiknum. Stigament dugði samt bara til þriðja sætis. Þetta er leikur Liverpool og Portsmouth í hnotskurn.

- Liverpool spilaði sinn 38. og síðasta deildarleik á þessari leiktíð.

- Í leikjunum 38 vann liðið 25 leiki, gerði 7 jafntefli og laut í gras 6 sinnum. Þessi árangur gaf Liverpool 82 stig.

- Liverpool endaði í þriðja sæti deildarinnar.

- Leikmenn Liverpool skoruðu 57 mörk. Markverðir Liverpool máttu sækja boltann 25 sinni í markið.

- Steven Gerrard skoraði flest deildarmörk Liverpool. Hann skoraði tíu. 

- Liverpool fékk tuttugu og fjórum stigum meira en á síðustu leiktíð!

- Liverpool setti stigamet. Liðið hefur aldrei fengið fleiri stig eftir að liðin hófu að leika 38 leiki á leiktíð í deildinni.

- Þeir Sami Hyypia og Jamie Carragher léku flesta leiki Liverpool í deildinni. Þeir samverkamenn í vörninni léku 36 leiki af 38.

- Alls tóku 24 leikmenn Liverpool þátt í deildarleikjunum 38.

- Robbie Fowler skoraði fimmta mark sitt eftir endurkomuna.

- Peter Crouch skoraði þrettánda mark sitt á leiktíðinni. Hann skoraði þarna á sínum gamla heimavelli en hann lék um tíma með Portsmouth.

- Markið sem Peter skroraði var 100. mark Liverpool á leiktíðinni.

- Djibril Cissé skoraði átjánda mark sitt á leiktíðinni. Hann er nú búinn að skora sex mörk í síðustu níu leikjum sínum með liðinu.

- Djibril Cissé átti magnaða innkomu í leikinn. Hann lagði upp mark einni mínútu eftir að hann kom inn á og var búinn að skora eftir sex mínútur!

- Bæði Peter og Djibril skoruðu eftir að hafa komið inn sem varamenn. Varamenn hafa aldrei skorað fleiri mörk fyrir Liverpool en á þessari leiktíð.

- Þetta var annar sigur Liverpool á Fratton Park á þessari leiktíð. Evrópumeistararnir lögðu Portsmouth þar 2:1 að velli í F.A. bikarnum í lok janúar. 

- Leikmenn Evrópumeistaranna klæddust hvítum sokkum við rauðu búningana. Þetta hafa þeir gjört í þremur síðustu leikjum á Fratton Park. Það hefur gefist vel því allir leikirnir hafa unnist!

- Liverpool vann sinn ellefta sigur í röð í öllum keppnum.

Portsmouth: Kiely, Priske, Primus (Pamarot 86), Stefanovic, Taylor, O'Neil, Davis, Hughes (Koroman 62. mín.), D´Alessandro (Routledge 68. mín.), Mwaruwari og Todorov. Ónotaðir varamenn: Ashdown og Pericard.

Mark Portsmouth: Ognjen Koroman (85. mín.)

Gult spjald: Matthew Taylor.

Liverpool: Dudek, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso (Kromkamp 41. mín.), Sissoko, Kewell, Morientes (Crouch 67. mín.) og Fowler (Cissé 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina og Traore.

Mörk Liverpool: Robbie Fowler (52. mín.), Peter Crouch (84. mín.) og Djibril Cissé (89. mín.). 

Áhorfendur á Fratton Park: 20.240.

Maður leiksins: Robbie Fowler. Robbie sýndi og sannaði að hann verðskuldar sannarlega að fá framlengingu á samningi sínum. Hann var eins og svo oft áður líflegur í sókninni og skoraði fimmta mark sitt eftir endurkomuna. Frábært hjá þessum mikla markaskorara.

Jákvætt :-) Liverpool vann sinn ellefta sigur í röð. Liverpool setti stigamet. Það var bara verst að það skyldi ekki duga til þess að vinna deildina. Liðið lék vel á köflum en var þó ekki við sitt besta. En það er alltaf gott að vinna þó menn séu ekki upp á sitt besta. Robbie skoraði fimmta mark sitt eftir endurkomuna. Tveir varamenn skoruðu. Bæði Peter og Djibril áttu mjög góða innkomu og lögðu upp mark fyrir hvorn annan. Það var gaman að sjá Jerzy Dudek í markinu. Hetjan frá Miklagarði er ekki gleymd. Mjög góður endir á deildarkeppninni á þessari leiktíð þar sem liðið sýndi mikla framför í stigasöfnun. Vonandi nást aðeins fleiri stig á næstu leiktíð!

Neikvætt :-(  Það var mjög slæmt að Xabi Alonso skyldi meiðast. Vonandi verður Spánverjinn orðinn leikfær næsta laugardag því hann er lykilmaður á miðjunni.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikurinn fór rólega af stað í vorsólinni. Liverpool fékk einu hættulegu færin í fyrri hálfleik. Fyrst skallaði Mohamed Sissoko framhjá af stuttu færi snemma leiks. Svo gafst annað gott færi eftir tíu mínútur. John Arne Riise sendi þá langa sendingu fram á Steven Gerrard sem komst í gegn en Dean Kiely varði með góðu úthlaupi. Liverpool var sterkari aðilinn í hálfleiknum og heimamenn ógnuðu marki Liverpool lítt. Liverpool varð þó fyrir áfalli fjórum mínútum fyrir lok hálfleiksins. Xabi Alonso féll þá við án þess að nokkur kæmi við hann og sneri sig á ökkla. Hann var borinn af leikvelli og Hollendingurinn Jan Kromkamp leysti hann af.

Liverpool hélt áfram að hafa yfirhöndina eftir leikhlé og Robbie Fowler fagnaði nýjum samningi sínum með því að koma liðinu yfir á 52. mínútu. Fernando Morientes sendi þá laglega hælsendingu á Robbie sem stillti miðið og sendi boltann af öryggi neðst í vinstra hornið. Hann fagnaði markinu innilega með stuðningsmönnum Liverpool sem voru fyrir aftan markið sem hann skoraði í. Liverpool var alltaf sterkari aðilinn en Sean Davis komst í góða stöðu til að jafna en hann datt þegar hann var kominn einn gegn Jerzy Dudek. Annars gerðist fátt þar til á lokakafla leiksins sem var mjög fjörugur. Djibril Cissé kom inn fyrir Robbie sjö mínútum fyrir leikslok og Frakkinn lagði upp mark einni mínútu síðar. Harry Kewell sendi góða sendingu inn á Djibril sem sendi fyrir markið. Dean náði aðeins að slá boltanum út í teiginn og það kom Peter Crouch og sendi boltann örugglega í markið af stuttu færi. Það var ekki að undra vissi hvar markið var því hann var þarna að spila á sínum gamla heimavelli. Sigurinn virtist í höfn en heimamenn svöruðu með marki í næstu sókn. Wayne Routledge sendi fyrir frá vinstri. Boltinn fór þvert fyrir markið yfir á fjærstöng og þar kom Ognjen Koroman og sendi boltann í markið. Heimamenn gerðu sér nú vonir um að jafna en þær vonir urðu að engu mínútu fyrir leikslok. Peter Crouch sendi þá langa sendingu fram á Djibril Cissé. Frakkinn fékk boltann óvaldaður, lék inn í teiginn og skoraði með föstu skoti undir Dean Kiely. Þar með gulltryggðu Evróumeistararnir sigur sinn sem var sá ellefti í röð.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan