Í sjöunda himni!!!!!!!
Evrópumeistararnir unnu F.A. bikarinn í sjöunda sinn í Cardiff í dag! Sigurinn vannst í vítaspyrnukeppni eftir að ævintýralegum leik lauk með 3:3 jafntefli eftir framlengingu. Liverpool varð fyrsta liðið til að vinna F.A. bikarinn í Cardiff þegar liðið lagði Arsenal 2:1 vorið 2001. Nú vann liðið bikarinn á sama stað í síðasta sinn sem úrslitaleikur Ensku bikarkeppninnar fer fram þar.
Liverpool var lengst af langt frá sínu besta í leiknum. En leikmennirnir gáfust þó aldrei upp og náðu að herja fram sigur og vinna bikarinn. Það má þó ljóst vera að leikmenn Liverpool fara sjaldan auðveldu leiðina í úrslitaleikjum og þessi leið var með þeim torsóttari.
Áhorfendur um víða veröld urðu vitni af einum magnaðasta úrslitaleik í þessari elstu bikarkeppni heims. Leikmenn Liverpool virtust illa fyrirkallaðir og leikmenn West Ham gegnu á lagið og komust tveimur mörkum yfir. Fyrst sendi Jamie Carragher boltann í eigið mark eftir að fyrirgjöf kom frá hægri. Svo sendi Dean Ashton boltann í markið eftir að Jose Reina hafði misst laust skot frá Matthew Etherington frá sér. Djibril Cssé minnkaði muninn eftir góða sendingu frá Steven Gerrard fyrir leikhlé. Frakkinn afgreiddi boltann frábærlega í markið með viðstöðulausu skoti. Stuttu áður hafði verið dæmt mark af Peter Crocuh vegna rangstöðu. Það var rangur dómur. Eitt mark skildi því liðin þegar flautað var til hálfleiks.
Hamrarnir fengu dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks en Jose Reina varði í tvígang af stuttu færi í sömu sókninni. Fyrst frá Yossi Benayoun og svo Marlon Harewood. Liverpool notfærði sér þetta og Steven Gerrard jafnaði snemma í hálfleiknum með þrumuskoti úr teignum eftir að Peter Crocuh hafði skallað boltann niður eftir aukaspyrnu. Boltinn hafnaði uppi undir þverslánni á markinu. Sannkallað glæsimark. Flestir töldu að Liverpool myndu nú ganga á lagið og gera út um leikinn. En Hamrarnir gáfu það ekki eftir og Paul Konchesky kom þeim yfir um miðjan hálfleikinn með ótrúlegu marki lengst utan af kanti. Þetta mark virtist ætla að duga West Ham til sigurs. En það var ekki allt búið enn. Á lokamínútu leiksins jafnaði Steven Gerrard metin með einu því fallegasta marki sem lengi hefur sést í bikarúrslitaleik. Boltinn barst út úr vítateig West Ham til Steven Gerrard sem þrumaði boltanum í markið með ótrúlegu bylmingsskoti af milli þrjátíu og fjörutíu metra færi. Boltinn söng í netinu úti við stöng. Þvílíkt mark hefur ekki sést i háa Herrans tíð og það gerði það að verkum að framlengja þurfti leikinn!
Liverpool var miklu sterkara liðið í framlengingunni en hún var þó lengst af tíðindalítil enda margir leikmenn orðnir örþreyttir. John Arne Riise átti þrumuskot hárfínt yfir í upphafi framlengingarinnar. Jose Reina bjargaði þó því að West Ham United næði sigri þegar mínúta var eftir af framlengingunni. Hann náði þá að krafla í boltann þannig að hann fór í stöng eftir að boltinn hrökk í átt að markinu af Nigel Reo-Coker. Sami Hyypia kom svo boltanum frá en ekki langt. Marlon Harewood fékk boltann en hann skaut framhjá af stuttu færi. Líkt og í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í fyrravor fylgdi vítaspyrnukeppni í kjölfar ótrúlegs leiks. Liverpool vann vítaspyrnukeppnina 3:1. Þeir Dietmar Hamann, Steven Gerrard og John Arne Riise skoruðu örugglega fyrir Liverpool. Sami Hyypia mistókst að skora þegar Shaka Hislop varði frá honum. En það var Jose Reina, sem hafði ekki verið sannfærandi á köflum í leiknum sjálfum, sem var hetjan í vítaspyrnukeppninni. Hann varði frá þeim Bobby Zamora, Paul Konchesky og Anton Ferdinand. Aðeins Teddy Sheringham skoraði hjá honum. Allt gekk af göflunum hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar Jose varði frá Anton. Um leið og hann gerði það var sjöundi sigur Liverpool í Ensku bikarkeppninni í höfn. Steven Gerrard tók við bikarnum úr höndum Vilhjálms prins og sigurhátíð stuðningsmanna Liverpool, um víða veröld, byrjaði fyrir alvöru! Þetta varður bara skemmtilegt sumar:-)
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso (Kromkamp 67. mín.), Sissoko, Kewell (Morientes 48. mín.), Cissé og Crouch (Hamann 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.
Mörk Liverpool: Djibril Cissé (32. mín.) og Steven Gerrard (54. mín og 90. mín.).
Mörk Liverpool í vítaspyrnukeppninni: Dietmar Hamann, John Arne Riise og Steven Gerrard.
Gul spjöld: Jamie Carragher og Dietmar Hamann.
West Ham United: Hislop, Scaloni, Ferdinand, Gabbidon, Konchesky, Benayoun, Fletcher (Dailly 77. mín.), Reo-Coker, Etherington (Sheringham 85. mín.), Ashton (Zamora 71. mín.) og Harewood. Ónotaðir varamenn: Walker og Collins.
Mörk West Ham United: Jamie Carragher sm. (21. mín), Dean Ashton (28. mín.) og Paul Konchesky (64. mín.).
Mark West Ham United í vítaspyrnukeppninni: Teddy Sheringham.
Gult spjald: Dean Ashton.
Vítaspyrnukeppnin:
1:0. Dietmar Hamann skorar með öruggu skoti úti við stöng vinstra megin við markvörðinn.
1:0. Jose Reina skutlar sér til hægri og ver frá Bobby Zamora.
1:0. Shaka Hislop ver laust skot Sami Hyypia.
1:1. Teddy Sheringham skorar með hnitmiðuðu skoti vinstra megin við Jose.
2:1. Steven Gerrard skorar með með öruggu skoti vinstra megin við Shaka Hislop.
2:1. Jose ver með fæti frá Paul Konchesky sem skaut svo til á mitt markið.
3:1. John Arne Rise skorar með bylmingsskoti sem fer svo til á mitt markið.
3:1. Jose hendir sér til hægri og ver heldur lausa spyrnu Anton Ferdinand af miklu öryggi. Spánverjinn tryggði þar með Liverpool sigur!
Áhorfendur á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff: 71.140.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!