Kóngurinn segir Steven eiga eftir að verða enn betri!
Mörgum þótti sem Jamie Carragher hefði tekið full djúpt í árinni þegar hann sagði, fyrir helgina, að aðeins Kenny Dalglish stæði framar Steven Gerrard í getu af leikmönnum Liverpool fyrr og síðar. Nú eftir eftir að hafa séð allt að því ofurmannlega framgöngu Steven Gerrard í Cardiff á laugardaginn þykir mörgum sem ummæli Jamie hafi ekki verið fjarri lagi. Nú í dag kveður kóngurinn sjálfur sér hljóðs og segir álit sitt á Steven Gerrard. Kenny sparar sannarlega ekki stóru orðin.
,,Hann er ótrúlegur og hann á eftir að vera enn betri. Burtséð frá stöðu hans þá hefur hann gert meira fyrir Liverpool á síðustu leiktíðum en nokkur annar leikmaður hefur gert fyrir neitt annað félag. Það skiptir ekki máli hvað Ronaldhino hefur gert fyrir Barcelona eða Thierry Henry fyrir Arsenal. Steven hefur gert meira fyrir liðið sitt en þeir fyrir sín félög og hann hefur lagt meira af mörkum en nokkur annar. Það er ekki neitt smáræði sem býr í þessum manni. Það er ekki nóg með þessa gríðarlegu hæfileika heldur líka hugrekki hans og trúfesta. Það er oft talað um að menn eigi að fara fyrir með góðu fordæmi. En framganga hans á laugardaginn var svo miklu öflugri en hægt var að ætlast til. Svo er hann bara ungur strákur. Þetta er ótrúlegt.
Síðasti leikur hans í Cardiff olli honum miklum vonbrigðum því hann skoraði sjálfsmark gegn Chelsea. En laugardagurinn var dagurinn hans. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég sá af hversu löngu færi hann skaut þegar hann skoraði seinna markið sitt. Leikurinn sjálfur varð svo bara nokkurs konar endurtekning á leiknum í Istanbúl. Nú var komið að Jose Reina að verja vítaspyrnur eins og Jerzy Dudek gerði."
Kenny telur að Steven eigi eftir að verða enn betri en hann er nú orðinn.
,,Ég held að hann eigi eftir að verða betri því hann er enn ungur og honum getur farið mikið fram á komandi árum. Það skiptir líka máli að hann er núna búinn að festa rætur. Hann hefur sjálfur sagt að hann vilji ekki meira af þessari vitleysu sem tengdist vangaveltum um hvort hann væri að fara frá Liverpool eða hvort hann yrði um kyrrt hjá félaginu. Hann er hér til að vera og það eru auðvitað frábærar fréttir fyrir Liverpool og stuðningsmenn félagsins."
Það er auðvitað rétt að leggja við hlustir þegar Kenny Dalglish tekur til máls. Þessi orð hans um Steven eru vissulega athyglisverð. Steven hefur hlotið ómælt hól eftir bikarsigur Liverpool. En líklega eru þessi orð Kenny Dalglish eitt það mesta hrós sem fyrirliði Liverpool hefur fengið. Kannski voru orð Jamie Carragher nú fyrir helgina ekki svo fjarri lagi. Steven stóð að minnsta kosti undir nafni í leiknum! Steven er auðvitað enn ungur og hefur allt til að bera til að verða enn betri. En það má nú fullljóst vera að Steven Gerrard þokast stöðugt framar í röð bestu leikmanna í sögu Liverpool. Enn eru nokkrir honum framar en þeim fækkar!
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!