Í hnotskurn
Einn besti úrslitaleikur í 125 ára sögu elstu bikarkeppni veraldar. Hetjudáð fyrirliðans lagði grunninn að sjöunda F.A. bikarsigri Liverpool. Þetta er leikur Liverpool og West Ham United í hnotskurn.
- Enska bikarkeppnin er elsta og frægasta útsláttarkeppni í víðri veröld. Keppnin hófst leiktíðina 1871/72 og var fyrst leikið til úrslita í henni vorið 1872. The Wanderes unnu fyrsta úrslitaleikinn þegar þeir lögðu Royal Engineers að velli 1:0.
- Úrslitaleikurinn var sá 125. í röðinni.
- Liverpool lék sinn þrettánda úrslitaleik í F.A bikarkeppninni og fór leikurinn fram þann 13. maí. Þrettán er því ekki óhappatala Liverpool!
- Sigurinn var sjöundi sigur Liverpool í keppninni. Liðið hefur nú unnið keppnina árin 1965, 1974, 1986, 1989, 1992, 2001 og 2006.
- Tap varð hlutskipti Liverpool árin 1914, 1950, 1971, 1977, 1988 og 1996.
- Liverpool og West Ham United höfðu aldrei leikið saman til úrslita í F.A. bikarnum.
- Liðin léku hins vegar til úrslita um Deildarbikarinn árið 1981. Liðin skildu jöfn 1:1 eftir framlengingu á Wembley. Liverpool vann svo aukaleikinn, sem fram fór á Villa Park, 2:1. Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool vann Deildarbikarinn.
- En þetta var í fimmta sinn sem þau hafa lent saman í F.A. bikarnum frá upphafi vega.
- Liverpool hefur alltaf haft betur!
- Liverpool vann fyrsta úrslitaleikinn um F.A. bikarinn sem leikinn var í Cardiff. Liverpool lagði Arsenal að velli 2:1 árið 2001. Liverpool vann sjötta og síðasta úrslitaleikinn sem áætlað er að fari fram í Cardiff. Fyrirhugað er að úrslitaleikur keppninnar næsta vor verði leikinn á hinum nýja Wembley. Það er ef framkvæmdum við hann verður lokið í tæka tíð!
- Liverpool hefur nú sjö sinnum unnið F.A. bikarinn og hefur aldrei sami fyrirliði tekið við bikarnum. Steven Gerrard bættist í hóp þeirra Ron Yeats 1965, Emlyn Hughes 1974, Alan Hansen 1986, Ronnie Whelan 1989, Mark Wright 1992 og Sami Hyypia 2001 sem hafa leitt Liverpool til sigurs í keppninni.
- Steven Gerrard tók við bikarnum úr hendi Vilhjálms Bretaprins sem var heiðursgestur leiksins. Hann var heiðursgestur í fyrsta sinn.
- Amma hans, Elísabet drottning, afhenti Ron Yeats bikarinn árið 1965 þegar Liverpool vann hann í fyrsta sinn.
- Þeir Sami Hyypia, Jamie Carragher, Steven Gerrard og Dietmar Hamann urðu bikarmeistarar í annað sinn. Þeir voru allir í sgurliði Liverpool 2001.
- Þeir Peter Crouch og Jan Kromkamp unnu sinn fyrsta titil á ferli sínum hjá Liverpool.
- Þeir Steven Gerrard, Jamie Carragher, Sami Hyypia, Mohamed Sissoko og John Arne Riise léku alla sex leiki Liverpool á vegferðinni til Cardiff.
- Steven Gerrard skoraði flest mörk Liverpool í keppninni eða fjögur.
- Liverpool hefur aldrei skorað fleiri mörk á leið sinni að sigri í F.A. bikarnum. Leikmenn Liverpool skoruðu hvorki fleiri né færri en tuttugu mörk í sex leikjum!
- Þetta var í fjórða sinn sem Liverpool vinnur titil eftir vítaspyrnukeppni. Liverpool vann Deildarbikarinn eftir vítaspyrnukeppni við Birmingham 2001. Evrópubikarinn vannst svo eftir vítaspyrnukeppni árin 1984 og 2005.
- Þetta var sjöunda heimsókn Liverpool í höfuðstað Wales á fimm árum. Liverpool hefur unnið fimm af leikjunum sjö sem liðið hefur leikið á þessum magnaða leikvangi. Árið 2001 vann Liverpool Deildarbikarinn, F.A. bikarinn og Góðgerðarskjöldinn í Cardiff. Árið eftir tapaði liðið leik um Góðgerðarskjöldinn. Deildarbikarinn vannst 2003 en leikur um sama titil tapaðist á síðasta ári. Liverpool vann svo F.A. bikarinn þar í annað sinn.
- Þetta var fimmti úrslitaleikurinn sem Liverpool leikur á stjórnartíð Rafael Benítez sem ekki telur tvö ár fyrr en á þjóðhátíðardaginn.
- Undir stjórn Rafael hefur Liverpool unnið Meistaradeildina, Stórbikar Evrópu og F.A. bikarinn en tapað Deildarbikarúrslitaleik og úrslitaleiknum um Heimsmeistarakeppni félagsliða.
- Alla titlana þrjá, undir stjórn Rafael Benítez, hefur Liverpool unnið með því að snúa tapstöðu í sigur. Liðið var 3:0 undir gegn AC MIlan í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn. Liðið lenti 1:0 undir gegn CSKA Moskva í leiknum um Stórbikar Evrópu og nú var liðið 2:0 og 3:1 undir gegn West Ham United. Talandi um endurkomur!!!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso (Kromkamp 67. mín.), Sissoko, Kewell (Morientes 48. mín.), Cissé og Crouch (Hamann 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.
Mörk Liverpool: Djibril Cissé (32. mín.) og Steven Gerrard (54. mín og 90. mín.).
Mörk Liverpool í vítaspyrnukeppninni: Dietmar Hamann, John Arne Riise og Steven Gerrard.
Gul spjöld: Jamie Carragher og Dietmar Hamann.
West Ham United: Hislop, Scaloni, Ferdinand, Gabbidon, Konchesky, Benayoun, Fletcher (Dailly 77. mín.), Reo-Coker, Etherington (Sheringham 85. mín.), Ashton (Zamora 71. mín.) og Harewood. Ónotaðir varamenn: Walker og Collins.
Mörk West Ham United: Jamie Carragher sm. (21. mín), Dean Ashton (28. mín.) og Paul Konchesky (64. mín.).
Mark West Ham United í vítaspyrnukeppninni: Teddy Sheringham.
Gult spjald: Dean Ashton.
Vítaspyrnukeppnin:
1:0. Dietmar Hamann skorar með öruggu skoti úti við stöng vinstra megin við markvörðinn.
1:0. Jose Reina skutlar sér til hægri og ver frá Bobby Zamora.
1:0. Shaka Hislop ver laust skot Sami Hyypia.
1:1. Teddy Sheringham skorar með hnitmiðuðu skoti vinstra megin við Jose.
2:1. Steven Gerrard skorar með með öruggu skoti vinstra megin við Shaka Hislop.
2:1. Jose ver með fæti frá Paul Konchesky sem skaut svo til á mitt markið.
3:1. John Arne Rise skorar með bylmingsskoti sem fer svo til á mitt markið.
3:1. Jose hendir sér til hægri og ver heldur lausa spyrnu Anton Ferdinand af miklu öryggi. Spánverjinn tryggði þar með Liverpool sigur!
Áhorfendur á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff: 71.140.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Líklega hefur einn leikmaður aldrei leikið betur með Liverpool í úrslitaleik. Í raun skipaði Steven sér með framgöngu sinni í Cardiff sér í hóp með bestu leikmönnum í sögu Liverpool. Meira þarf ekki að segja!
Jákvætt :-) Liverpool vann F.A. bikarinn í sjöunda sinn. Maður varð þeirra ánægju aðnjótandi að sjá Liverpool vinna Bikarinn í einum ef ekki þeim besta úrslitaleik sem hefur farið fram í 125 ára sögu keppninnar. Að auki fékk maður að sjá mögnuðustu framgöngu leikmanns Liverpool í úrslitaleik. Leikmenn Liverpool gáfust aldrei upp þótt á brattann væri að sækja. Stuðningsmenn Liverpool voru frábærar og hvöttu liðið sitt til dáða allan tímann. Þetta var einfaldlega úrslitaleikur eins og þeir geta bestir verið og svo fór Liverpool heim með bikarinn!
Neikvætt :-( Það er nú ekki hægt að kvarta þegar afrekaskrá Liverpool Football Club lengist. Ekki ætla ég að minnsta kosti að kvarta!
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Áhorfendur um víða veröld urðu vitni af einum magnaðasta úrslitaleik í þessari elstu bikarkeppni heims. Leikmenn Liverpool virtust illa fyrirkallaðir og leikmenn West Ham gegnu á lagið og komust tveimur mörkum yfir. Fyrst sendi Jamie Carragher boltann í eigið mark eftir að fyrirgjöf kom frá hægri. Svo sendi Dean Ashton boltann í markið eftir að Jose Reina hafði misst laust skot frá Matthew Etherington frá sér. Djibril Cssé minnkaði muninn eftir góða sendingu frá Steven Gerrard fyrir leikhlé. Frakkinn afgreiddi boltann frábærlega í markið með viðstöðulausu skoti. Stuttu áður hafði verið dæmt mark af Peter Crocuh vegna rangstöðu. Það var rangur dómur. Eitt mark skildi því liðin þegar flautað var til hálfleiks.
Hamrarnir fengu dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks en Jose Reina varði í tvígang af stuttu færi í sömu sókninni. Fyrst frá Yossi Benayoun og svo Marlon Harewood. Liverpool notfærði sér þetta og Steven Gerrard jafnaði snemma í hálfleiknum með þrumuskoti úr teignum eftir að Peter Crocuh hafði skallað boltann niður eftir aukaspyrnu. Boltinn hafnaði uppi undir þverslánni á markinu. Sannkallað glæsimark. Flestir töldu að Liverpool myndu nú ganga á lagið og gera út um leikinn. En Hamrarnir gáfu það ekki eftir og Paul Konchesky kom þeim yfir um miðjan hálfleikinn með ótrúlegu marki lengst utan af kanti. Þetta mark virtist ætla að duga West Ham til sigurs. En það var ekki allt búið enn. Á lokamínútu leiksins jafnaði Steven Gerrard metin með einu því fallegasta marki sem lengi hefur sést í bikarúrslitaleik. Boltinn barst út úr vítateig West Ham til Steven Gerrard sem þrumaði boltanum í markið með ótrúlegu bylmingsskoti af milli þrjátíu og fjörutíu metra færi. Boltinn söng í netinu úti við stöng. Þvílíkt mark hefur ekki sést i háa Herrans tíð og það gerði það að verkum að framlengja þurfti leikinn!
Liverpool var miklu sterkara liðið í framlengingunni en hún var þó lengst af tíðindalítil enda margir leikmenn orðnir örþreyttir. John Arne Riise átti þrumuskot hárfínt yfir í upphafi framlengingarinnar. Jose Reina bjargaði þó því að West Ham United næði sigri þegar mínúta var eftir af framlengingunni. Hann náði þá að krafla í boltann þannig að hann fór í stöng eftir að boltinn hrökk í átt að markinu af Nigel Reo-Coker. Sami Hyypia kom svo boltanum frá en ekki langt. Marlon Harewood fékk boltann en hann skaut framhjá af stuttu færi. Líkt og í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í fyrravor fylgdi vítaspyrnukeppni í kjölfar ótrúlegs leiks. Liverpool vann vítaspyrnukeppnina 3:1. Þeir Dietmar Hamann, Steven Gerrard og John Arne Riise skoruðu örugglega fyrir Liverpool. Sami Hyypia mistókst að skora þegar Shaka Hislop varði frá honum. En það var Jose Reina, sem hafði ekki verið sannfærandi á köflum í leiknum sjálfum, sem var hetjan í vítaspyrnukeppninni. Hann varði frá þeim Bobby Zamora, Paul Konchesky og Anton Ferdinand. Aðeins Teddy Sheringham skoraði hjá honum. Allt gekk af göflunum hjá stuðningsmönnum Liverpool þegar Jose varði frá Anton. Um leið og hann gerði það var sjöundi sigur Liverpool í Ensku bikarkeppninni í höfn. Steven Gerrard tók við bikarnum úr höndum Vilhjálms prins og sigurhátíð stuðningsmanna Liverpool, um víða veröld, byrjaði fyrir alvöru! Þetta varður bara skemmtilegt sumar:-)
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!