Liverpool áfram í Meistaradeildina!
Liverpool komst áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í Kænugarði í kvöld eftir að hafa gert jafntefli 1:1 við Maccabi Haifa. Liverpool komst því áfram 3:2 samanlagt. Þessi niðurstaða er auðvitað mikið gleðiefni. Það skyggði þó á gleðina að tveir leikmenn Liverpool bættust á meiðslalistann. En mestu skipti að Liverpool náði að komast í riðlakeppnina.
Liverpool tók strax frumkævðið án þess að leika vel. Leikmenn liðsins voru þó varkárir enda nægði ísraelska liðinu eitt mark til að slá Liverpool út úr keppninni. Liverpool átti öll færin sem eitthvað bragð var að í fyrri hálfleik. Xabi Alonso átti gott langskot framhjá. Nir Davidovitch markvörður Maccabi bjargaði sínum mönnum svo hvað eftir annað. Hann átti sannkallað einvígi við Luis Garcia og varði þrívegis frá honum. Í öll skiptin varði hann frá Luis af stuttu færi. Þriðja markvarslan var best en þá varði hann skalla frá Luis eftir horn á frábæran hátt. Liverpool varð fyrir áfalli á 28. mínútu þegar Stephen Warnock varð að fara meiddur af leikvelli. Fabio Aurelio tók stöðu hans í vinstri bakverðinum. Þetta var grætilegt fyrir Stephen sem var að koma til leiks eftir meiðsli. Hann lék sinn fyrsta leik á leiktíðinni gegn Lincoln í síðustu viku. Leikmenn Maccabi ógnuðu vörn Liverpool lítt. Reyndar skoruðu þeir mark eftir tuttugu mínútur sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Bikarmeistararnir byrjuðu síðari hálfleikinn vel. Xabi Alonso átti gott skot úr aukaspyrnu sem fór rétt framhjá. Liverpool komst svo yfir á 54. mínútu. Jermaine Pennant, sem hafði lítið sést í leiknum, slapp upp hægra megin og sendi hnitmiðaða sendingu fyrir markið á Peter Crouch sem skallaði í markið af markteig. Nú var staða Liverpool orðin nokkuð trygg. Mark Gonzalez hefði líka getað gert endanlega út um leikinn stuttu síðar en gott skot hans fór í hliðarnetið. En líkt og í leikjum leiktíðarinnar fékk liðið á sig mark upp úr þurru. Það kom á 63. mínútu. Sóknarmaður Maccabi slapp inn í teig, eftir gott samspil, og skaut að marki. Jose Reina gerði vel að verja en Roberto Colautti náði frákastinu og skoraði í autt markið. Nú gat allt gerst. Ekki bætti úr skák að Mohamed Sissoko var ekið meiddum af leikvelli, með blikkandi ljósum, fjórum mínútum eftir markið. Steven Gerrard, sem var búinn að vera slappur fyrir leikinn með magakveisu, leysti Momo af. Líklegt er að meiðslin gætu verið slæm. Ísraelska liðið reyndi nú að herja á mark Liverpool því eitt mark myndi setja leikinn í framlengingu. Jose Reina kom í veg fyrir að svo færi átta mínútum fyrir leikslok. Roberto Colautti átti þá fast skot utarlega úr teignum sem stefndi efst í markhornið en Jose varði meistaralega með því að slá boltann yfir. Gríðarlega mikilvæg markvarsla hjá Spánverjanum. Mikilvægið sýndi sig best þegar flautað var til leiksloka og í áframhald í riðlakeppni Meistaradeidarinnar var tryggt.
Maccabi Haifa: Davidovitch; Harazi, Olarra, Keinan (Meshumar 66. mín.), Magrashvili; Anderson (Melicsohn 72. mín.), Dirceo; Masudi (Arbaitman 80. mín.), Boccoli, Katan og Colautti. Ónotaðir varamenn: Alamdon, Kanan, Swan og Gazak.
Mark Maccabi Haifa: Roberto Colautti (63. mín.).
Gul spjöld: Keinan, Anderson og Meshumar.
Liverpool: Reina; Finnan, Hyypia, Agger, Warnock (Aurelio 28. mín.); Pennant (Bellamy 86. mín.), Sissoko (Gerrard 67. mín.), Alonso, Gonzalez; Garcia og Crouch. Ónotaðir varamenn: Dudek, Kromkamp, Zenden og Fowler.
Mark Liverpool: Peter Crouch (54. mín.).
Gul spjöld: Xabi Alonso, Sami Hyypia og Steve Finnan.
Áhorfendur á Dynamo leikvanginum: 16.000.
Maður leiksins: Peter Crocuh. Hann hefur oft leikið betur en hann var duglegur í sókninni og skoraði mark sem hugsanlega verður það verðmætasta sem Liverpool skorar á allri leiktíðinni.
Rafael Benítez var ánægður með niðurstöðuna í Kænugarði. ,,Þetta var erfiður leikur en það er gott að við komumst áfram. Ég er mjög ánægður. Það var ekki auðvelt að hefja undirbúninginn fyrir leiktíðina án nokkura manna og úrslitin á undirbúningtímabilinu voru ekki sem best. Það er því alltaf léttir að komast í gegnum rimmu sem þessa. Ég er viss um að liðið fer að leika betur þegar landsleikjahléið er frá."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!