Ásættanleg úrslit í Hollandi
Bikarmeistararnir náðu ásættanlegum úrslitum í Hollandi í kvöld þegar þeir hófu leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Liverpool hélt marki sínu hreinu í fyrsta sinn á leiktíðinni og verður það að teljast mjög jákvætt. Reyndar tókst Liverpool ekki að skora frekar en PSV Eindhoven. Rafael Benítez gerði miklar breytingar á liði sínu í kjölfar afhroðsins á Goodison Park. Þeir Bolo Zenden, Daniel Agger, Stephen Warnock, Jermaine Pennant, Dirk Kuyt og Craig Bellamy komu inn í byrjunarliðið. Það kom svo sem ekki á óvart að Rafa skyldi láta Hollendingana tvo, Bolo og Dirk, hefja leikinn í heimalandi þeirra. Bolo lék þarna gegn sínu fyrrum liði. Mesta athygli varðandi uppstillingu Liverpool vakti að að Steven Gerrard hóf leikinn á varamannabekknum. Jan Kromkamp var í byrjunarliði PSV. Hann átti traustan leik en var ekki áberandi.
Heimamenn hófu leikinn betur og Arouna Kone átti fallegt skot sem hafnaði í þverslá eftir níu mínútur. Um miðjan hálfleikinn varði Jose Reina vel frá Ibrahim Afellay. En leikmenn Liverpool náðu betri tökum á leiknum eftir því sem leið á hálfleikinn. Craig Bellamy og Dirk Kuyt voru mjög duglegir í sókninni. Sérstaklega átti Craig góða spretti. Fabio Aurelio átti líklega besta færi hálfleiksins fyrir Liverpool en hann náði ekki að hitta markið eftir góða sókn. Hann var vel staðsettur og hefði átt að gera betur. Bolo Zenden ógnaði með góðu langskoti og Craig átti svo skot sem var varið undir lok hálfleiksins.
Liverpool lék lengi vel, í síðari hálfleik, ekki eins vel og fyrir hlé. Heimamenn léku betur en ógnuðu marki Liverpool þó ekki mjög. Jermaine Pennant átti fyrsta færi hálfleiksins en skot hans var varið. Besta færi heimamanna kom eftir klukkutíma leik. Arouna Kone komst þá í gott færi inn á teiginn en Jose varði laust skot hans auðveldlega. Tíu mínútum seinna átti Edison Mendez bylmingsskot lengst utan af velli en boltinn fór rétt framhjá. Eftir þetta munaði tvívegis sáralitlu að Liverpool skoraði. Dirk Kuyt átti fast langskot á 65. mínútu sem strauk stöngina. Mínútu fyrir leikslok munaði svo hársbreidd að Steven Gerrard, sem kom inn sem varamaður á 72. mínútu, tryggði Liverpool sigur. Hann fékk þá boltann rétt utan vítateigs þar sem hann sneri sér snöggt við og þrumaði honum að marki. Boltinn small í innanverðri stönginni fjær og átti brasilíski landsliðsmarkvörðurinn Gomez ekki möguleika að vera. Inn vildi boltinn ekki og því skildu liðin markalaus. Verða það að teljast ásættanleg úrslit því hollenska liðið er gríðarlega sterkt á heimavelli sínum.
PSV: Gomes, Kromkamp, Alex, Reiziger, Salcido, Simons, Mendez, Afellay (Vayrynen 74. mín.), Culina (Aissati 63. mín.), Farfan og Kone. Ónotaðir varamenn: Moens, Kluivert, Da Costa, Addo og Lamey.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Aurelio (Gonzalez 81. mín.), Pennant, Sissoko (Alonso 62. mín.), Zenden, Warnock, Bellamy (Gerrard 72. mín.), Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Garcia og Crouch.
Áhorfendur í Philips leikvanginum: 35.000.
Maður leiksins: Daniel Agger. Daninn lék mjög vel við hliðina á fyrirliðanum Jamie Carragher og sýndi enn að honum er fyllilega treystandi að leika í aðalliði Liverpool. Hann var mjög vel vakandi og braut margar sóknir PSV á bak aftur.
Í hinum leik riðilsins gerðu Galatasaray og Bordeaux jafntefli í Istanúl. Líkt og í Eindhoven skoraði hvorugt liðið mark.
Rafael Benítez var sáttur í leikslok. "Liðið lagði mjög hart að sér. Maður sá að miðjumennirnir og sókarmennirnir hjálpuðu varnarmönnunum. Við lögðum upp með að halda hreinu og sækja þegar kostur væri. Við fegnum nógu góð færi til að ná að skora eins og eitt mark."
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni