Sannfærandi sigur kórónaður með stórfenglegu marki!
Ætli Liverpool hafi bara ekki hrokkið í gang í kvöld þegar liðið lagði Newcastle United að velli 2:0 á sannfærandi hátt á Anfield Road. Liverpool var miklu sterkari aðilinn frá upphafi til enda og sigurinn hefði getað verið miklu stærri. Dirk Kuyt opnaði markareikning sinn og ævintýralegt Xabi Alonso mark innsiglaði sigurinn.
Leikmenn Liverpool komu til leiks staðráðnir í að tryggja sér sigur. Allir leikmenn liðsins voru einbeittir og mjög hreyfanlegir. Gestirnir voru mjög duglegir og reyndu hvað þeir gátu til að halda aftur af bikarmeisturunum. Leikmenn Liverpool höfðu ekki náð að skora frá því í fyrri hálfleik gegn West Ham United fyrir síðustu mánaðarmót og það mátti sjá að menn voru svolítið óöryggir fyrir framan markið. Craig Bellamy fékk fyrsta hættulega færi leiksins, eftir frábæra sendingu Luis Garcia, en Steven Harper varði skot hans utan úr teignum. Craig hefði átt að geta gert betur. Leikmönnum Liverpool tókst loksins að brjóta ísinn á 29. mínútu. Xabi Alonso, sem átti stórleik, sendi þá frábæra sendingu inn á vítateiginn á Steve Finnan. Írinn sendi boltann viðstöðulaust fyrir markið þar sem Dirk Kuyt skoraði af öryggi frá markteig fyrir miðju marki. Hollendingurinn, sem var mjög duglegur í leiknum, fagnaði marki sínu innilega. Þetta var frábær sókn hjá Liverpool. Góðar sóknir Liverpool skiluðu ekki fleiri mörkum fram að hálfleik. Gestirnir ógnuðu marki Liverpool vart svo heitið gæti í öllum hálfleiknum.
Skjórarnir voru heldur hressari eftir leikhlé. Þrívegis vildu þeir fá vítaspyrnu. Shola Ameobi taldi fyrst að Daniel Agger hefði brotið á sér og svo handlék Jamie Carragher boltann tvívegis í sömu sókn Newcastle! Á fyrri hendina hefði átt að dæma vítaspyrnu. Liverpool slapp vel þar! Hinum megin slapp mark Skjóranna nokkrum sinnum naumlega. Fyrst komst Craig Bellamy einn í gegn eftir að Steven Gerrard vann boltann. Hann kom boltanum framhjá Steve en hann fór rétt framhjá. Eftir um klukkutíma leik átti Fabio Aurelio góða aukaspyrnu sem Steve varði vel. Næst bjargaði stöngin Newcastle þegar stundarfjórðungur var eftir. Luis Garcia tók frábærlega við sendingu frá Steven inn á teignum og skaut í sömu andrá en boltinn fór í stöng. Frábær tilþrif hjá Spánverjanum. Liverpool átt líka tilkall til að fá vítaspyrnu þegar Celestine Babayaro tók boltann næstum í fangið eftir fyrirgjöf frá Craig Bellamy. Dirk skallaði svo framhjá í góðu færi eftir góða rispu og fyrirgjöf frá Fabio Aurelio. Markið, sem innsiglaði sigurinn, lét bíða eftir sér en það var vel þess virði að bíða eftir því. Á 79. mínútu vann Xabi Alonso boltann inni á miðjum eigin vallarhelmingi. Hann lék fram að miðjuboganum en sá engan til að gefa á. Hann sá hins vegar að Steve Harper var kominn töluvert út úr marki sínu. Xabi beið því ekki boðanna heldur skaut boltanum að marki Newcaslte af um sextíu metra færi. Boltinn sveif yfir Steve, sem rann til, og hafnaði í markinu fyrir framan The Kop. Stórfenglegt mark sem lengi verður í minnum haft! Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu ógurlega og félagar Xabi þyrptust að honum. Xabi sýndi þarna að langskot hans gegn Luton í F.A. bikarnum í byrjun ársins var ekki nein tilviljun! Þeir stuðningsmenn Liverpool sem sáu þetta mark urðu þarna vitni að einu magnaðasta marki í sögu Liverpool! Flóknara er það nú ekki! Sigurinn var í höfn og hann var sannarlega vel þeginn.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Aurelio, Garcia, Alonso, Sissoko, Gerrard (Gonzalez 85. mín.), Bellamy og Kuyt (Crouch 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia og Warnock.
Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (29. mín.) og Xabi Alonso (79. mín.).
Gult spjald: Sanz Luis Garcia.
Newcastle: Harper, Carr, Ramage, Moore, Babayaro, Milner (N´ZZogbia 68. mín.), Parker, Emre, Duff, Martins (Rossi 76) og Ameobi (Sibierski 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Krul og Butt.
Gult spjald: Craig Moore.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.754.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn lék sinn langbesta leik á leiktíðinni. Hann spilaði boltanum í allar áttir af miðjunni með nákvæmum sendingum. Frábær sending hans átti stóran þátt í markinu sem Dirk Kuyt skoraði. Svo kórónaði hann stórleik sinn með einu því stórfenglegasta marki sem hefur verið skorað á Anfield Road. Markið eitt og sér var svo sem nóg til að hann væri valinn besti maðurinn á vellinum!
Rafael Benítez var mjög ánægður eftir leikinn og hældi landa sínum. "Ég var að bíða eftir því að Xabi Alonso myndi senda boltann og ég hefði gefið honum orð í eyra ef svona hefði ekki farið. En eftir að hann skoraði sagði ég honum að markið hefði verið stórfenglegt! Við skoruðum ekki bara tvö mörk heldur sköpuðum okkur fullt af opnum færum."
Myndaveisla á LFChistory.net frá þessum glæsilega sigri.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni