Hanarnir snúnir niður
Bikarmeistararnir lögðu Tottenham Hotspur 3:0 að velli á Anfield Road um hádegisbilið í dag. Sigurinn var sanngjarn og öruggur þegar upp var staðið en fæðingin tók drjúgan tíma. Oft eru fundnir vendipunktar í leikjum og sá í þessum leik var með þeim magnaðri. Sólin skein skært í Liverpool í dag og staða liðsins í deildinni hefur nú lagast mikið eftir tvo sigurleiki í röð.
Leikmenn liðanna voru syfjulegir í fyrri hálfleik og lengi vel gerðist ekkert markvert. Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem áhorfendur fengu eitthvað fjör í leikinn. Reyndar höfðu gestirnir færi á að skora á upphafskafla leiksins en Ledley King náði ekki að skalla boltann óvaldaður fyrir framan markið eftir góða aukaspyrnu frá Danny Murphy fyrrum leikmanni Liverpool. Leikmenn Liverpool tóku sig á undir lok hálfleiksins og þá átti liðið tvívegis tilkall til þess að fá vítaspyrnu. Fyrst virtist boltinn fara af hendi eins varnarmanns Spurs og í stöng eftir hornspyrnu frá Mark Gonzalez. Rétt á eftir setti Ledley King handlegg sinn fyrir skot frá Steven Gerrard. Boltinn hrökk fyrir fætur Craig Bellamy en Ledley bjargaði meistaralega á síðustu stundu. Paul Robinson varði svo vel frá Craig Bellamy rétt áður en flautað var til leikhlés.
Leikmenn Liverpool höfðu greinilega náð að hrista af sér svefndrungann þegar þeir komu til leiks eftir leikhlé. Allt annað var að sjá til liðsins og hér eftir áttu gestirnir í vök að verjast. Steven Gerrard fór að komast meira inn í leikinn og það munaði um minna. Það drógst þó að Liverpool fengi góð færi og Tottenham fékk loks dauðafæri til að komast yfir. Edgar Davids, sem var nýkominn inn sem varamaður, slapp einn upp vinstri kantinn á 63. mínútu og gaf fyrir markið. Jermain Jenas náði sendingunni en renndi boltanum framhjá markinu fyrir opnu marki. Algert dauðafæri. Leikmenn Liverpool biðu ekki boðanna við að færa sér þetta í nyt og nokkrum sekúndum seinna lá boltinn í netinu hinu megin. Steven Gerrard lék vinstri bakvörð Tottenham grátt og komst inn í teignn. Steven sendi þvert fyrir markið á Craig Bellamy, sem var dauðafrír á markteignum, en skot hans fór í stöng. Boltinn fór sem betur fer beint á Mark Gonzalez sem sendi hann af öryggi í markið. Eftir þennan magnaða vendipunkt var ekki spurning um lok leiksins. Tíu mínútum seinna sendi Luis Garcis, sem kom inn sem varamaður, góða sendingu inn að vítateignum á Dirk Kuyt. Hollendingurinn, sem hafði lítið sést í leiknum, náði að taka boltann með á frábæran hátt. Allt í einu var hann kominn inn á teig þaðan sem hann hamraði boltann í markið. Enski landsliðsmarkvörðuinn Paul Robinson hreyfði hvorki legg né lið! Frábær afgreiðsla hjá Dirk! John Arne Riise gulltryggði sigur Liverpool mínútu fyrir leikslok. Laglegur samleikur leikmanna Liverpool endaði með því að Luis Garcia sendi á Norðmanninn. Hann fékk boltann um 35 metrum frá marki og hugsaði sig ekki tvisvar um heldur hamraði hann í markið út við stöng hægra megin! Stórglæsilegt mark og betur var ekki hægt að gulltryggja sigurinn! Stuðningsmenn Liverpool fóru því ánægðir heim í blíðunni eftir stærsta sigur leiktíðarinnar.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Riise, Gerrard, Alonso (Carragher 84. mín.), Sissoko, Gonzalez (Aurelio 77. mín.), Bellamy (Garcia 68. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek og Crouch.
Mörk Liverpool: Mark Gonzalez (63. mín.), Dirk Kuyt (73. mín.) og John Arne Riise (89. mín.)
Gult spjald: Sami Hyypia.
Tottenham Hotspur: Robinson, Chimbonda, Dawson, King, Assou-Ekotto, Jenas, Murphy (Mido 79. mín.), Zokora, Tainio (Davids 61. mín.), Keane og Defoe. Ónotaðir varamenn: Cerny, Lee og Huddlestone.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.330.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn var gríðarlega öflugur á miðjunni og það var varla að sending færi forgörðum hjá honum.
Rafael Benítez var mjög sáttur við sína menn eftir leikinn. "Við lékum betur eftir leikhlé . Við vorum sneggri í að koma boltanum út á vængina. Leikmennirnir sem við höfum nú innan okkar raða eru það góðir að við náðum að skapa okkur betri færi. Tottenham átti eitt gott færi í fyrri hálfleik og annað í þeim síðari. Þar fyrir utan fannst mér við vera betra liðið. Ég er ánægður með liðið og það sjálfstraust sem hefur myndast eftir annan sigurinn í röð. Mér fannst við leika vel í dag og við viljum halda áfram á sömu braut í næsta leik okkar í næstu viku."
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni