| Sf. Gutt

Naumur sigur í ótrúlegum leik

Liverpool vann nauman 3:2 sigur á Galatasaray í ótrúlegum leik á Anfield Road í kvöld. Sóknarleikur Liverpool var frábær á köflum en varnarleikurinn var ekki upp á marga fiska inn á milli. Liverpool komst þremur mörkum yfir en tyrknesku meistararnir náðu að rétta sinn hlut og undir lokin mátti ekkert út af bera. Enn eitt glæsimarkið á þessari leiktíð var skorað og reyndist hjólhestaspyrna Peter Crouch sigurmarkið í leiknum.

Fyrir leikinn fékk Rigobert Song, fyrrum leikmaður Liverpool, hlýjar viðtökur hjá áhorfendum. Leikmenn Liverpool byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og leikmenn Galatasaray vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið fyrsta hálftímann í leiknum. Luis Garcia átti fyrsta góða færið en Farid Mondragon varði fast skot hans. Það kom ekki nokkrum manni á óvart þegar boltinn lá í marki gestanna eftir níu mínútur. Fabio Aurelio sendi þá frábæra sendingu fyrir markið af vinstri kantinum sem Peter Crocuh afgreiddi viðstöðulaust í markið með nákvæmu skoti af markteig. Ekki nóg með að þetta hafi verið fyrsta mark Liverpool í fimm Meistaradeildarleikjum heldur mun þetta hafa verið 200. markið sem Liverpool skorar á stjórnartíð Rafael Benítez. Fimm mínútum seinna lá boltinn aftur í sama marki. Liverpool sótti upp hægri kantinn. Varnarmönnum Gala virtist hafa tekist að stöðva sóknina en Jermaine Pennant rændi boltanum af tveimur þeirra hægra megin á teignum. Hann lék upp að endamörkum og sendi hárnákvæma sendingu fyrir markið þar sem Luis Garcia skallaði boltann óvaldaður í markið við fjærstöng. Allt leit nú út fyrir öruggan sigur Liverpool enda héldust yfirburðir liðsins fyrsta hálftímann. Þá fóru tyrknesku meistararnir að láta á sér kræla og Cihan Haspolatli slapp inn á teiginn vinstra megin en Jose Reina varði vel frá honum. Vörn Liverpool átti oft eftir að opnast vinstra megin og var Fabio oft illa fjarri þegar hann átti að vera til varnar. Steven Gerrard var óheppinn að auka ekki forystuna ekki löngu fyrir leikhlé. Hann átti þá bylmingsskot af um þrjátíu metra færi sem Farid náði naumlega að verja án þess að vita mikið um ferðalag boltans.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn vel og á 52. mínútu virtust öll sund lokast fyrir tyrkneska liðið. Steve Finnan lék þá snilldarlega á vinstri bakvörð Gala og sendi frábæra fyrirgjöf inn á vítateignn. Þar tók Peter Crouch við boltanum og hamraði hann í markið með glæsilegri hjólhestaspyrnu! Stórkostlegt mark hjá risanum og eitt það fallegasta sem sést hefur á Anfield Road. Líklega bjuggust nú allir við stórsigri Liverpool en annað átti eftir að koma í ljós. Sabri Sarioglu skaut í stöng úr aukaspyrnu og Jamie Carragher bjargaði tvívegis á síðustu stundu eftir að boltinn barst út í teiginn. Hinu megin átti Dirk Kuyt, litlu síðar, skot í stöng frá vítateig. Steven Gerrard fylgdi á eftir en Farid náði að verja skot hans af stuttu færi á ótrúlegan hátt. Þá var komið að Gala að skora. Á 59. mínútu skoraði Umit Karan með skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri. Sex mínútum seinna skallaði hann aftur í mark nú eftir sendingu frá hægri. Öruggum sigri Liverpool, sem allt leit út fyrir, var nú heldur betur ógnað. Tyrkirnir náðu ekki að skapa sér mörg færi eftir annað markið og reyndar sóttu bæði lið við hvert tækifæri til leiksloka. Hakan Sukur fékk líklega besta færi Tyrkja á að jafna á lokakaflanum en skalli hans hafnaði sem betur fer í fangi Jose Reina. Stuðningsmenn Liverpool voru spenntir síðustu mínúturnar en gátu fagnað mikilvægum sigri í leikslok. Ótrúlegur leikur.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Aurelio, Pennant (Sissoko 78. mín.), Alonso, Gerrard, Garcia, Kuyt (Gonzalez 66. mín.) og Crouch (Bellamy 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Riise og Zenden.

Mörk Liverpool: Peter Crouch (9. og 52. mín.) og Sanz Luis Garcia (14. mín.).

Gul spjöld: Xabi Alonso og Steve Finnan.

Galatasaray: Mondragon, Haspolatli (Karan 45. mín.), Tomas, Song, Ak, Sarioglu, Topal (Sas 45. mín.), Akman, Turan (Carrusca 86. mín.), Ilic og Sukur. Ónotaðir varamenn: Elmas, Buruk, Asik og Kabze.

Mörk Galatasaray: Umit Karan (59. mín. og 65. mín.) 

Gul spjöld: Akman og Sas.

Áhorfendur á Anfield Road: 41.976.

Maður leiksins: Peter Crouch. Hann var valinn í byrjunarliðið í fyrsta sinn frá því í tapleiknum gegn Everton. Peter nýtti sér þetta tækifæri vel og skoraði tvö mörk. Seinna mark hans verður lengi í minnum haft á Anfield Road sem eitt það fallegasta sem skorað hefur verið í Musterinu.

Rafael Benítez var ánægður með sigurinn sem honum fannst þó óþarflega naumur. "Ég var áhyggjufullur undir lokin því þá höfðum við ekki stjórn á leiknum en það mikilvægasta var að landa sigri. Leikurinn þróaðist ekki eins og við áttum von á en við náðum stigunum. Við erum nú í mjög góðri stöðu í riðlinum og nú verðum við að halda áfram að vinna heimaleikina okkar."

Í hinum leik riðilsins vann PSV Eindhoven 1:0 sigur á Bordeaux í Frakklandi. Liverpool er efst í riðlinum á markatölu með fjögur stig. PSV kemur næst með jafn mörg stig en Galatasaray og Bordeaux reka lestina með eitt stig.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan