Ekki náðist sigur
Liverpool náði ekki að knýgja fram sigur gegn Blackburn Rovers í dag. Liðið lenti undir en þrátt fyrir að jafna 1:1 þá náðist ekki sigur. Þessi úrslit eru vonbrigði og það má ljóst vera að Liverpool þarf að fara að leika betur. Liðið lék ekki vel í dag og það er enn um miðja deild. Slíkt er einfaldlega ekki nógu góð staða þegar stuttist í fyrsta dag vetrar.
Liverpool byrjaði vel í haustsólinni á Anfield Road og allt leit út fyrir að vel gæti farið. Peter Crocuh var tvívegis nærri búinn að ná forystu á upphafskafla leiksins. Fyrst kom hann boltanum framhjá Brad Friedel en Zura Khizanishvili náði að bjarga á marklínu á síðustu stundu. Litlu seinna komst Peter aftur í færi en skotið hans var ekki nógu gott og Brad náði að verja. Það voru hins vegar gestirnir sem komust yfir á 17. mínútu. David Bentley sendi fyrir markið frá vinstri. Varnarmenn Liverpool náði ekki að koma boltanum fram og hann barst inn á teiginn til Benni McCarthy sem renndi honum í markið með nákvæmu skoti. Rétt á eftir komst Benni aftur í gott færði en skaut beint á Jose Reina. Markið sló leikmenn Liverpool greinilega út af laginu og liðið náði sér alls ekki á strik það sem eftir var hálfleiksins og Blackburn hafði sanngjarna forystu í hálfleik.
Leikmenn Liverpool spýttu í lófanna þegar síðari hálfleikur hófst. Jermaine Pennant var búinn að reyna mikið á hægri kantinum án mikils árangurs en sókn Liverpool skerptist þegar Luis Garcia kom inn á fyrir hann. Hann komst fljótlega í gott færi eftir að Peter skallaði til hans en náði ekki til boltans. Sókn Liverpool þyngdist jafnt og þétt og það hlaut að enda með því að mark kæmi. Það kom á 65. mínútu. Fabio Aurelio tók þá hornspyrnu frá hægri. Boltinn fór yfir alla þar til hann rataði á höfuðið á Craig Bellamy. Veilsverjanum urðu ekki á nein mistök og hann skallaði óvaldaður í mark frá markteig við fjærstöngina. Líklega hefur markið sviðið sérlega í hópi stuðningsmanna Blackburn! Craig og félagar hans fögnuðu hins vegar fyrir framan The Kop. Það sem eftir lifði leiks sótti Liverpool en það gekk illa að skapa opin færi. Líklega komst John Arne Riise næst því að skora en skot hans fór rétt framhjá. Átta mínútum fyrir leikslok mátti engu muna að gestirnir næðu að skora. Sami Hyypia náði ekki að koma boltanum frá þegar Jason Roberts sótti að honum. David Bentley hirti boltann og komst í upplagt færi en á einhvern óskiljanlegan hátt náði Jose að verja í horn. Það vakti nokkra undrun að Rafael skyldi ekki skipta mönnum inn á á lokakafla leiksins til að reyna að hleypa meira lífi í sóknarleikinn. Þótt Liverpool hefði algera yfirburði í síðari hálfleik var jafntefli nokkuð sanngjörn niðurstaða því leikmenn Blackburn vörðu sinn hlut með kjafti og klóm. Eins létu þeir tímann vinna með sér við hvert tækifæri og vakti það mikla gremju hjá stuðningsmönnum Liverpool. Voru tafir leikmanna Blackburn með ólíkindum.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Aurelio, Pennant (Garcia 53. mín.), Alonso, Gerrard, Riise, Crouch og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Dudek, Gonzalez, Paletta og Zenden.
Mark Liverpool: Craig Bellamy (64. mín.)
Gult spjald: Sami Hyypia.
Blackburn: Friedel, Emerton, Ooijer, Khizanishvili, Neill, Bentley, Savage, Kerimoglu (Mokoena 72. mín.), Pedersen (Gallagher 72. mín.), McCarthy (Roberts 80. mín.) og Nonda. Ónotaðir varamenn: Brown og McEveley.
Mark Blackburn Roves: Benni McCarthy (17. mín.)
Gul spjöld: David Bentley, Lucas Neill og Robbie Savage.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.206.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn lék mjög vel á miðjunni og stjórnaði öllu þar eins og herforingi. Hann hefði þó mátt reyna oftar skot því hann komst nokkrum sinnum í þokkaleg skotfæri þó af löngu færi væri.
Rafael Benítez var ánægður með að leikmenn sínir skyldu ná að jafna leikinn. "Við erum auðvitað vonsviknir því við náðum ekki að vinna leikinn. Mér fannst að við hefðum átt að ná sigri í síðari hálfleik og við sköpuðum okkur nógu mörg færi til að ná öllum þremur stigunum. Við fengum slæmt mark á okkur í fyrri hálfleik því miðverðirnir okkar tveir voru illa staðsettir. En ég var ánægður með hvernig liðið brást við í síðari hálfleik."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!