Ekki tókst að kveða niður útivalladrauginn á Old Trafford
Það tókst ekki að kveða niður útivalladrauginn á Old Trafford í dag. Liverpool mátti lúta í gras í fjórða deildarleik sínum á útivelli í röð. Liverpool tapaði 2:0 og enn einu sinni var liðið fjarri sínu besta á öðrum grundum Englands en Anfield Road. Það virðist vera að vont geti lengi versnað í þeim efnum.
Liverpool byrjaði leikinn alls ekki illa og Dirk Kuyt, sem var óvaldaður, rétt missti af góðri fyrirgjöf frá Steven Gerrard snemma leiks. Heimamenn færðu sig smá saman upp á skaftið og Jose Reina varði fast langskot frá Luis Saha eftir um tuttugu mínútna leik. Varnarmenn Liverpool áttu í nokkrum vandræðum með Frakkann sem ógnaði nokkrum sinnum með kraftmiklum rispum. Eftir hálftíma æddi Mark Gonzalez upp vinstri kantinn og sendi fyrir markið á Dirk. Hollendingurinn var vel staðsettur en náði ekki góðum skalla og boltinn fór beint á Edwin van der Sar. Allt virtist ætla að ganga vel til hálfleiks þegar heimamenn skoruðu allt í einu á 38. mínútu. Líkt og svo oft á leiktíðinni kom markið upp úr þurru. Ryan Giggs fékk boltann út á vinstri kant og náði að senda hann fyrir markið. Þar kom Paul Scholes óvaldaður á vettvang og skaut að marki. Jose varði en hélt ekki boltanumm þannig að Paul fékk annað tækifæri á að koma boltanum í markið. Paul náði því að skora í sínum 500. leik fyrir Rauðu Djöflana. Jose varð að taka á honum stóru sínum litlu seinna þegar hann varði fast skot frá Luis Saha í horn. Hinu megin fékk Xabi Alonso gott færi en skot hans utan teigs fór rétt framhjá. Þar hefði hann átt að hitta markrammann.
Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti með það að markmiði að gera út um leikinn og skot frá þeim Luis og Paul fóru rétt framhjá. Luis Garcia fékk gott færi til að jafna en skalli hans úr góðu færi var laus og skapaði ekki neina hættu. Það var svo á 66. mínútu sem Liverpool fékk aftur á sig mark. Sótt var upp vinstri kantinn. Jamie Carragher náði ekki að hreinsa og boltinn fór til Rio Ferdinand sem náði að skapa sér skotfæri áður en hann skaut föstu skoti út í hornið án þess að Jose ætti neina möguleika á að verja. Það versta í þessu marki var að Jamie var haltrandi þegar sóknin átti sér stað eftir að hafa meiðst á vinstri fæti og þurft að fá aðhlynningu. Meiðslin höfðu greinilega þegar hann reyndi að hreinsa. Að minnsta kosti tókst honum ekki að koma boltanum frá og því fór sem fór. Það sem eftir lifi leik gekk ekkert hjá Liverpool. Peter Crouch kom alltof seint til leiks og það er stór spurning af hverju markahæsti maður Liverpool var ekki í byrjunarliðinu í þessum leik. Fjórða deildartapið á útivelli varð staðreynd og ljóst má vera að það þarf að fara að kveða útivallardrauginn niður með öllum tiltækum ráðum!
Man Utd: Van der Sar, Neville (O´Shea 78. mín.), Ferdinand, Vidic, Evra (Brown 90. mín.), Fletcher, Carrick, Scholes, Giggs, Rooney og Saha. Ónotaðir varamenn: Kuszczak, Ronaldo og Solskjaer.
Mörk Manchester United: Paul Scholes (39. mín.) og Rio Ferdinand (66. mín.).
Gult spjlad: Vidic.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Sissoko, Alonso (Crouch 70. mín.), Gonzalez (Pennant 52. mín.), Garcia og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek, Warnock og Paletta.
Gul spjöld: Mohamed Sissoko, Steve Finnan og Peter Crouch.
Áhorfendur á Old Trafford: 75.828.
Maður leiksins: Mohamed Sissoko. Malímaðurinn sýndi gríðarlega yfirferð í leiknum. Hann barðist eins og ljón allan leikinn og gaf ekki tommu eftir. Vissulega gekk ekki allt upp hjá honum en hann lagði sig að minnsta kosti allan fram.
Rafael Benítez var niðurdreginn eftir leik. "Það er ljóst að þetta var dagur vonbrigða fyrir okkur. Mér fannst við byrja leikinn vel og við náðum að skapa okkur nokkur færi. Það getur skipt sköpum að skora fyrsta markið en okkur gengur það illa um þessar mundir."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!