| Sf. Gutt

Dirk sá um þá Konunglegu

Dirk Kuyt tryggði Liverpool fjórða sigur sinn í röð þegar liðið lagði Reading 2:0 á Anfield Road í fyrsta deildarleik liðannna. Leikurinn var ekki jafn skemmtilegur og viðureign liðanna í Deildarbikarnum á dögunum en sigurinn var fyrir öllu. Bikarmeistararnir unnu þarna sinn fjórða sigur í röð og þeir þokast hægt og bítandi upp stigatöfluna.

Fyrsta færi leiksins féll þeim Konunglegu í skaut eftir sjö mínútur. James Harper fékk boltann inni í vítateig en Jamie Carragher, sem lék sinn 300. deildarleik, stöðvaði skottilraun hans. Sjö mínútum seinna lá boltinn í marki Reading. Steven Gerrard sendi háa sendingu inn á vítateiginn hægra megin. Þar stökk Peter Crouch hærra en allir aðrir og skallaði boltann þvert fyrir markið. Við fjærstöngina kom Dirk Kuyt og skoraði óvaldaður í autt markið. Vel að verki staðið hjá þeim Peter og Dirk. Litlu síðar varði Marcus Hahnemann í horn eftir að aukaspyrna Steven fór þvert fyrir markið. Líklega fór boltinn af einum varnarmanna Reading og lá Ívar Ingimarsson undir grun. Liverpool hafði í kjölfarið öll tök á leiknum og maður hefði haldið að völdin væru notuð til þess að keyra upp hraðann og ganga frá leiknum. En það gerðist ekki. Leikmenn liðsins reyndu að skapa sér færi með því að spila hægt og yfirvegað. Það skilaði fáum marktækifærum. Jamie Carragher tók rispu fram völlinn eftir hálftíma en skaut yfir. Dirk skallaði svo rétt framhjá á lokamínútu hálfleiksins eftir sendingu frá Steve Finnan. Reading fékk ekki færi ef utan er talið það sem áður er sagt frá í upphafi hálfleiksins.

Síðari hálfleikurinn var tíðindalítill. Eftir tíu mínútur lék Sami Hyypia fram völlinn en gott langskot hans fór rétt yfir. Sami átti nokkrar góðar rispur fram völlinn í leiknum. Gestirnir reyndu aðeins að taka sig á en komust lítt áleiðis þó skapaðist stundum óöryggi í vörn Liverpool eftir föst leikatriði. Á 68. mínútu skallaði Steven rétt framhjá eftir hornspyrnu. Tveimur mínútum seinna náði Reading að skora en markið var réttilega dæmt af vegna þess að brotið var á Jose Reina. Ekki liðu nema þrjá mínútur þar til Liverpool gerði út um leikinn. Jermaine Pennant tók hornspyrnu frá vinstri. Peter skallaði að marki. Boltinn fór beint á Marcus í markinu en hann hélt ekki boltanum. Dirk var fljótur að átta sig og smellti boltanum í markið af stuttu færi. Hér voru úrslitin ráðin. Það var fátt títt það sem eftir lifði leiks og stuðningsmenn Liverpool gátu fagnað fjórða leikinn í röð. Það vakti nokkra undrun að leikmenn Liverpool skyldu aldrei auka hraðann í leiknum. Það var engu líkara en leikmenn liðsins ætluðu að vinna leikinn með lágmarks áreyslu. Hafi það verið ætlunin þá tókst það fullkomlega. En sigurinn var fyrir öllu.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Pennant, Gerrard, Alonso, Zenden (Gonzalez 66. mín.), Kuyt (Fowler 87. mín.) og Crouch (Sissoko 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin og Agger.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (14. og 73. mín.). 

Reading: Hahnemann, Sodje (Bikey 69. mín.), Sonko, Ingimarsson, Shorey, Gunnarsson (Ki-Hyeon 80. mín.), Sidwell, Harper (Oster 88. mín.), Hunt, Little og Doyle. Ónotaðir varamenn: Federici, Long.

Gul spjöld: Steve Sidwell og Sam Sodje.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.741.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn skoraði mörkin tvö sem tryggðu sigur Liverpool. Þar fyrir utan var hann óþreytandi við að hlaupa um og ógna vörn Reading. Yfirferð hans á leikvelli er með ólíkindum og það eru ekki margir sóknarmenn sem vinna eins mikið fyrir lið sitt.

Rafael Benítez var ánægður með að fá þrjú stig í hús. "Ég var mjög ánægður með stigin þrjú. Seinna markið var mjög mikilvægt fyrir okkur því Reading olli okkur nokkrum vanfdræðum með löngum innköstum. Ég átti von á því að þeir myndu spila með fimm varnarmenn. Það var erfitt á köflum að skapa rými til að spila en um leið og við skoruðum seinna markið róuðumst við og náðum að skapa fleiri marktækifæri í kjölfarið."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan