Danny Guthrie í viðtali
Fyrrum ungstjarna hjá Manchester United fullyrðir að drengjum á Old Trafford dreymi um að leika fyrir Liverpool...
Ég, Lee Peltier og James Smith fréttum af því nokkrum dögum fyrir leik að við værum í hópnum og að við myndum æfa með aðalliðinu. Ekkert var öruggt en á þessum tímapunkti grunaði okkur að við mundum allavegana fá að taka þátt í leiknum. Ég var tilbúinn þó vissulega væri ég stressaður yfir því að æfa með aðalliðinu.
Svafstu nóttina fyrir leikinn?
Ég svaf ágætlega því að ég var ekki svo stressaður ef ég á að segja eins og er. Fyrsta skiptið sem ég varð stressaður var þegar Jamie Carragher kom til mín þegar ég var að hita upp og sagði að stjórinn vildi setja mig inná.
Hvernig var tilfinningin að sitja inn í búningsklefa með mönnum eins og Robbie Fowler og Jamie Carragher?
Ég hafði aldrei upplifað það áður þannig að ég var fremur þögull. Strákarnir voru mun afslappaðri í búningsklefanum en ég bjóst við. Ég sat við hliðina á James Smith og Robbie Fowler þannig að það var sérstök tilfinning. Robbie var alltaf að segja brandara. Það eru nokkrir sem eru málglaðir fyrir leiki og eru Peter Crouch og Jermaine Pennant þar á meðal.
Hvernig leið þér þegar þú heyrðir "You´ll Never Walk Alone"?
Ég heyrði áhorfenduna syngja og það var mjög skrýtin tilfinning. Þú ferð á leiki eða horfir á þá í sjónvarpinu og hugsar um það hvernig sé að vera leikmaður í þessari stöðu. Að vera á vellinum sjálfum þegar stuðningsmenn byrja að syngja er ólýsanlegt. Það fór nettur fiðringur um mig. Því verður ekki neitað.
Sagði Rafa eitthvað við þig áður en að þú komst inná?
Það eina sem hann sagði var að ég ætti að halda boltanum, senda hann og reyna að halda stöðunni. Hann sagði mér að fara fram þegar ég gæti en aðalskilaboðin voru að halda boltanum vegna þess að við vorum 3-0 yfir.
Hjálpuðu reyndari leikmenn þér eitthvað?
Menn eins og Riise og Bolo töluðu mikið við mig. Ég var að spila inná miðju með Bolo og hann var frábær. Hann var að hjálpa mér með staðsetningar og var alltaf tilbúinn að hjálpa þegar ég var í vandræðum.
Hvaðan var fjölskyldan þín að horfa? Úr áhorfendastúku?
Já. Foreldrar mínir voru á leiknum ásamt kærustunni minni og pabba hennar. Ég vissi að þau yrðu í aðalstúkunni en ég vissi líka að ég ætti ekki möguleika á því að sjá þau.
Varstu ánægður með framistöðu þína?
Ég var tilbúinn. Ég var þó nokkuð í boltanum og átti nokkrar sendingar. Ég gerði mér grein fyrir því að leikurinn yrði öðruvísi því ég kom inná þegar staðan var 3-0 og guð má vita hvernig það hefði verið að byrja leikinn. Leikmennirnir sýndu mér mikinn stuðning eftir leikinn og flestir komu til mín og sögðu "vel gert" og sögðu mér að ég hefði spilað vel.
Hvað gerðir þú við treyjuna þína?
Foreldrar mínir fengu hana. Þau taka allar mínar treyjur heim til Telford og ramma þær inn. Ég á treyjur síðan að ég spilaði með Englandi en augljóslega er Liverpool treyjan miklu meira virði. Ég mun aldrei gleyma þessu. Þetta var enn sérstakari stund því að leikurinn var á Anfield. Áhorfendurnir voru ótrúlegir. 42.000 manns í þriðju umferð í Carling-bikarnum. Maður getur ekki beðið um meira.
Hvernig hélstu uppá þetta eftir leikinn?
Ég fór bara heim og horfði á sjónvarpið. Ég veit ekki hvað var í imbanum, sennilega eitthvað heimskulegt. Ég svaf ekki mikið þessa nótt og lá bara andvaka og var að hugsa um hvað hafði gerst. Ég var að hugsa um öll þau skipti sem ég fékk boltann og þegar Jermaine lagði boltann til mín og ég átti fyrirgjöf á Peter Crouch.
Lítum aðeins til baka, þú byrjaðir í Man United. Er það rétt að þú hafir verið United aðdáandi?
Ég var það þegar ég ólst upp en um leið og ég kom til Liverpool þá byrjaði ég strax að elska félagið. Ég hef verið aðdáandi Liverpool í þónokkurn tíma núna.
Hvernig leið þér þegar þetta gekk ekki upp í Manchester? Efaðist þú um að þér ætti ekki eftir að takast að vera atvinnumaður?
Ég var þar í tvö ár og fór þegar ég var 13. Augljóslega var ég svekktur á þeim tímapunkti. Nokkrum dögum eftir að ég fór frá Man United fór ég að hugsa um að ég þyrfti að leggja harðar að mér í skóla! Það var ekki tími fyrir mikið meira því það eina sem ég hugsaði um var fótbolti. Nokkrum dögum síðar sýndi Liverpool mér áhuga. Ég fékk tilboð frá öðrum úrvalsdeildarliðum og félögum í nágrenninu eins og Wolves og West Brom en þegar þú veist að Liverpool hefur áhuga þá getur þú ekki farið annað. Þegar ég lék með Man United þá hlakkaði okkur alltaf til að koma til Liverpool af því að akademían var með bestu aðstöðuna.
Hver hefur veitt þér mestan innblástur hjá Liverpool?
Ég verð að segja Dave Shannon hjá Akademíunni. Hann sá um mig fyrstu árin hérna. Hann er ótrúlegur þjálfari og ég hef lært mjög mikið af honum.
Fyrir aðdáendur sem hafa ekki séð þig spila, getur þú lýst því fyrir þeim hvernig leikmaður þú ert?
Ég er framliggjandi miðjumaður sem á góðar sendingar og vinn mjög vel.
Hverjar voru hetjurnar þínar þegar þú varst yngri?
Aðalhetjurnar mínar voru miðjumenn. Augljóslega Steven Gerrard en einnig Patrick Vieira og Roy Keane.
Gerrard, Zenden, Sissoko og Alonso berjast um þína stöðu í liðinu hans Rafa. Hverjar telur þú líkurnar á því að þú munir ná að brjóta þér leið inn í aðalliðið?
Helsti styrkleiki minn er inni á miðsvæðinu og það er fullt af góðum leikmönnum í þessa stöðu en ég get líka spilað úti á köntum eða sem afturliggjandi framherji. Við höfum frábæra leikmenn í liðinu þannig að ég er bara ánægður ef ég fæ að vera með og reyni að nýta mín tækifæri með aðalliðinu.
Snúum okkur að lífinu á Melwood. Þú útskrifaðist úr Akademíunni sumarið 2005, hversu stórt skref var það?
Það var menningaráfall. Þú ert utan við þig til að byrja með en það gengur ekki ef maður ætlar að ná árangri. Gæðin eru miklu meiri og þú býst við að liðsmennirnir séu góðir en þegar þú byrjar að æfa með þeim þá hugsar maður bara "VÁ!"
Hver er leiknasti leikmaðurinn á æfingum?
Ég held að það gæti verið Luis Garcia. Maður lærir mikið af þeim öllum en þar sem ég er miðjumaður þá læri ég mest af Steven Gerrard og Xabi Alonso.
Ef það er einhver leikmaður sem þú vildir ekki lenda í tæklingu við, hver væri það?
Stevie Warnock er harðasti tæklarinn. Hann er grimmur í tæklingum, jafnvel á æfingum. Ef það ætti að vera einhver annar þá væri það James Smith.
Á hvaða sviði viltu ná meiri framförum?
Ég skora ekki eins mikið og ég ætti að gera. Ég vill samt bæta allt. Maður kemst að því hver styrkleiki manns og veikleiki er í hvert skipti sem maður æfir með aðalliðinu. Stundum hugsar maður "ég á langt í land" og stundum finnst manni allt vera að ganga upp.
Þú ert á æfingu og færð að velja fjóra með þér í lið, hverja velur þú?
Reina í markið, Carragher, Riise, af því að þú verður að hafa einn vinstri fótar, Gerrard og svo Fowler af því að Robbie er frábær í kringum teiginn.
Hver er besti vinur þinn hjá félaginu?
Besti vinur minn hér er Lee Peltier af því að við byrjuðum á sama tíma og komum í gegnum Akademíuna á sama tíma. Við höldum saman á æfingum með aðalliðinu.
Hvað er það besta við að vera atvinnumaður í knattspyrnu?
Að elska starfið þitt. Þú getur ekki beðið um eitthvað betra heldur en að spila fótbolta alla daga. Þú heyrir fólk væla útaf starfinu sínu en þú getur ekki vælt þegar þú ert knattspyrnumaður.
Þekkir fólk þig út á götu?
Ég hef ekki enn verið beðinn um eiginhandaráritun en vonandi gerist það einhvern tímann. Mér þætti það alls ekki leiðinlegt.
Færðu einhvern tímann heimþrá?
Ég fékk stundum heimþrá en ekki lengur. Ég fer ennþá heim í annarri hverri viku. Ég bý ennþá á sama stað og ég flutti til þegar ég kom hingað og konan sem á húsið sér um þvottinn fyrir mig þannig að það er ekki svo slæmt.
Hver eru markmið þín á þessu tímabili?
Spila fyrir varaliðið og æfa mikið. En auðvitað reynir maður að nýta tækifæri eins og gefast í Carling-bikarnum og það er frábært að fá að taka þátt í því. Kannski þarf ég að vera lánaður út til að ná mér í meiri reynslu.
Þú ert reglulega fyrirliði varaliðsins, er það draumur þinn að vera fyrirliði einhvers aðalliðs?
Markmið mitt er að komast í aðallið Liverpool. Það er heiður að vera fyrirliði í varaliði Liverpool en að vera fyrirliði aðalliðsins er bara fjarlægur draumur þessa stundina.
Viðtalið var þýtt af opinberri heimasíðu Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni