| Grétar Magnússon

Momo búinn í aðgerð

Momo Sissoko gekkst undir aðgerð á öxl á miðvikudaginn og líklegt er að hann verði frá keppni næstu þrjá mánuðina.  Aðgerðin gekk vel að sögn Rafael Benitez.

Ekki er nákvæmlega víst hvenær Sissoko getur snúið til baka eftir meiðslin en Rafa Benitez hafði þetta að segja:  ,,Momo fór í aðgerðina í gær (á miðvikudag)," sagði Benitez.  ,,Læknarnir sögðu að aðgerðin hefði gengið mjög vel en nú verðum við að bíða.  Við vitum að við verðum án Momo í þónokkurn tíma en kannski vitum við á næstu dögum nákvæmlega hversu lengi hann verður frá."

Margir leikmenn snúa aftur til Melwood í dag, fimmtudag og mun Benitez skoða líkamlegt ástand leikmanna sinna fyrir leik helgarinnar.

Luis Garcia er ennþá að glíma við meiðsli á kálfa og ekki er líklegt að hann verði með á laugardaginn.

Eftir slæma frammistöðu gegn Arsenal síðastliðinn sunnudag segir Benitez leikinn gegn Middlesboro einn þann mikilvægasta á leiktíðinni.  Hann heimtar sömu viðbrögð og eftir leikinn gegn Manchester United þar sem næstu fimm leikir í röð unnust allir.

,,Um leið og við náum að sigra á útivelli þá munuði sjá breytingar." Sagði Benitez

,,Nú er ekki hægt að breyta því sem hefur gerst í öðrum leikjum og við eigum ekki að hugsa um önnur lið.  Það eina sem við getum gert er að einbeita okkur að sjálfum okkur og leggja harðar að okkur."

,,Þegar við vinnum útileik, þá mun það hafa gríðarleg áhrif á sjálfstraust leikmanna.  Við höfum staðfastlega sýnt hversu góðir við erum á heimavelli og stundum höfum við verið að spila vel á útivelli en við höfum átt í vandræðum með að skora mörk."

,,Leikjadagskráin hefur enn og aftur verið brjálæðisleg þessa vikuna, þar sem leikmenn koma aðeins til æfinga á fimmtudegi fyrir leik á laugardegi, en við munum undirbúa okkur eftir bestu getu og ég er viss um að leikmenn eru æstir í að sýna hvað í þeim býr."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan