Þar kom að því!
Skammdegið er tími fyrir ýmsar kynjarverur. Ætli sumir myndu ekki segja að drauga sé þá helst von. En útivallardraugurinn, sem hefur gengið ljósum logum það sem af er leiktíðar, var kveðinn niður í Wigan í dag og vonandi bólar ekki á honum í bili. Liverpool fór á kostum og vann stærsta sigur sinn á leiktíðinni. Eftir uppskeru sem taldi eitt mark og tvö stig á útivöllum í deildinni gekk allt upp. Fjögur mörk og þrjú stig. Að auki komst Liverpool í fyrsta sinn á leiktíðinni upp í Evrópusæti en liðið er nú í fimmta sæti.
Liverpool fékk óskabyrjun í leiknum því strax á 9. mínútu lá boltinn í marki heimamanna. John Arne Riise sendi boltann fram völlinn. Boltinn barst til Veilsverjans Craig Bellamy sem stakk Matt Jackson af og sendi boltann af miklu öryggi upp í hornið fjær óverjandi fyrir Chris Kirkland fyrrum markvörð Liverpool. Frábærlega gert hjá Craig sem nú er laus við allar ákærur og getur farið að einbeita sér að knattspyrnunni. Á 26. mínútu skoraði Veilsverjinn aftur. Steven Gerrard kom boltanum inn fyrir vörnia. Craig var snöggur að stiga sér inn fyrir og senda boltann af miklu öryggi neðst í hornið framhjá Chris. Heimamenn tóku nú að láta á sér kræla. Austurríkismaðurinn Paul Scharner átti góðan skalla sem Jose Reina varði vel. Hann hélt ekki boltanum en Lee McCulloch skaut frákastinu yfir. Litlu síðar komst Emile Heskey inn á teig en Jose var snöggur út á móti honum og varði. Boltinn hrökk til Henri Camara en hann skot hans var víðsfjarri. Í stað þess að heimamenn næðu að minnka muninn þá jók Liverpool forystuna á 40. mínútu með einu fallegasta marki leiktíðarinnar. Jose kastaði boltanum út á Steven Gerrard. Hann sendi út til hægri á Luis Garcia. Spánverjinn sendi aftur á Steven sem var kominn upp að vítateig. Þaðan sendi hann á Craig sem var kominn upp að marki Wigan vinstra megin. Craig hefði getað skotið sjálfur en sýndi mikla óeigingirni og gaf þvert fyrir markið á Dirk Kuyt sem skoraði af miklu öryggi fyrir opnu marki. Frábær sókn og leikmenn Wigan komu aldrei við boltann frá því Jose hóf sóknina og þar til boltinn lá í markinu. Fjórum mínútum seinna skoraði Liverpool í fjórða sinn. Liverpool fékk hornspyrnu. Eftir stutta hornspyrnu frá hægri sendi Steven fyrir markið. Boltinn hafnaði í Lee McCulloch og hrökk af honum í eigið mark af markteignum. Frábærum fyrri hálfleik gat ekki lokið betur.
Leikmenn Liverpool fóru sér að engu óðslega í síðari hálfleik enda sigurinn svo gott sem í höfn. Liðið fékk ekki mörg færi. Líklega komst Steve Finnan næst því að skora en gott skot hans utan teigs fór rétt yfir um miðjan hálfleikinn. Liverpool beitti hröðum sóknum en heimamenn reyndu að rétta sinn hlut. Litlu munaði tíu mínútum fyrir leikslok þegar Emile átti skot sem fór í stöng. Boltinn hrökk út til David Cotterill sem var fyrir opnu marki. Hann var hins vegar óviðbúinn og boltinn fór af honum aftur fyrir endamörk. Stórsigur Liverpool var því í höfn og þessi var kærkominn svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.
Wigan Athletic: Kirkland, Boyce, Jackson (Wright 46. mín.), Hall, Baines, McCulloch, Skoko, Scharner, Kilbane (Cotterill 46. mín.), Camara og Heskey. Ónotaðir varamenn: Pollitt, Johansson og Landzaat.
Gul spjöld: Emmerson Boyce og Emile Heskey.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia (Paletta 61. mín.), Agger, Riise, Garcia (Pennant 53. mín.), Carragher, Gerrard (Guthrie 79. mín.), Alonso, Kuyt og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Dudek og Fowler.
Mörk Liverpool: Craig Bellamy (9. og 26. mín.), Dirk Kuyt (40. mín.) og Lee McCulloch sm (45. mín.).
Gul Spjöld: Xabi Alonso og Craig Bellamy.
Áhorfendur á JJB leikvanginum: 22.089.
Maður leiksins: Craig Bellamy. Það hefur margt íþyngt Veilsverjanum síðustu vikurnar. Nú er hann laus allra mála og það mátti greinilega sjá gegn Wigan. Hann skoraði tvö falleg mörk og var alltaf ógnandi. Þungu fargi er af honum létt og hann hljóp miklu hraðar en í síðustu leikjum!
Rafael Benítez gat loksins glaðst eftir útisigur í deildinni. “Það er auðveldara fyrir mig núna að útskýra hvers vegna ég hafði trú á liðinu því við höfum skapað okkur mörg færi á útivöllum. Eini munurinn er sá að í dag skoruðum við mörk. Við vorum líklegir til að skora í hvert sinn sem fórum í sókn. Við vorum líka svolítið heppnir því þeir fengu nokkur opin færi en allt liðið lék mjög vel.”
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni