Þrjú stig í sarpinn í höfuðstaðnum
Bikarmeistararnir sóttu þrjú stig í höfuðstaðinn í dag. Þau dugðu liðinu til að komast í þriðja sæti deildarinnar og ofar hefur liðið ekki komist á þessari leiktíð. Aðventan er tími góðverka og fyrrum leikmaður Liverpool gerði eitt slíkt snemma leiks. Það kom gamla liðinu hans á bragðið.
Bikarmeistararnir tóku öll völd frá fyrstu mínútu gegn Charlton í Dalnum. Liverpool fékk óskabyrjun á 3. mínútu þegar Xabi Alonso skoraði úr vítaspyrnu. Vítaspyrnan fékkst fyrir tilstilli Djimi Traore fyrrum leikmanns Liverpool. Mark Gonzalez sendi fyrir markið frá vinstri og inni á teignum reyndi Djimi að koma boltanum frá. Það tókst ekki betur til en svo að hann sparkaði í höfuðið á Jermaine Pennant svo Jermaine lá eftir. Heldur óvanalegt atvik en dómurinn var hárréttur. Xabi spyrnti á mitt markið. Thomas Myhre henti sér til vinstri og boltinn lá í markinu. Norðmaðurinn stóð í marki heimamanna því Scott Carson má ekki leika gegn liðinu sínu sem lánsmaður. Hér var tóninn var gefinn. Ekki löngu síðar komst Craig Bellamy inn á teig og upp að markinu. Craig náði ekki að koma boltanum í markið því Luke Young bjargaði á marklínu. Á 13. mínútu var vörn heimamanna enn sundurspiluð og Dirk Kuyt komst inn í teig en skot hans fór framhjá. Hann hefði líka getað gefið fyrir markið því þar var félagi hans óvaldaður á fjærstöng. Ekki leið á löngu þar til Jermaine komst í gott færi en nú bætti Djimi fyrir mistökin í byrjun og bjargaði meistaralega á línu. Liverpool hefði því átt að vera búið að gera endanlega út um leikinn eftir tuttugu mínútur. Liðið lék sérlega vel á þeim kafla og vörn heimamanna var sundurspiluð með reglulegu millibili. En Charlton fékk allt í einu færi eftir tuttugu mínútur. Andy Reid slapp inn á teig hægra megin og skaut að marki. Jose Reina varði en hélt ekki boltanum. Boltinn hrökk til Hermans Hreiðarssonar en hann skaut yfir úr upplögðu færi. Ekki var verra að Vestmannaeyingurinn fékk boltann á hægri fótinn!
Liverpool hafði sömu yfirburði eftir leikhlé. Thomas Myhre sló fast langskot Xabi Alonso yfir snemma í hálfleiknum. Dirk átti svo skot í stöng eftir klukkutíma eftir undirbúning Craig. Þegar leið á hálfeikinn var ljóst að ekkert mátti út af bera. Þrátt fyrir yfirburði Liverpool var liðið enn bara með eitt mark í forystu. Þegar stundarfjórðungur var eftir fékk Darren Ambrose gott færi þegar boltinn barst til hans á fjærstöng en hann skaut yfir. Litlu síðar átti Darren Bent skot rétt framhjá. Þegar átta mínútur voru eftir kom loksins annað mark Liverpool. Steve Finnan sendi þá inn á teiginn. Craig tók boltann á lofti, sneri sér snöggt að markinu og þrumaði honum í mark með viðstöðulausu skot. Glæsilegt mark hjá Veilsverjanum sem átti stórleik. Tveimur mínútum fyrir leikslok innsiglaði fyrirliðinn öruggan sigur. Löng sending kom inn á teiginn. Peter Crouch, sem kom inn sem varamaður, skallaði boltann til Steven Gerrard. Steven lagði boltann fyrir sig og sendi hann svo með nákvæmu bogaskoti í fjærhornið. Glæsilegt mark hjá fyrirliðanum. Sigurinn var öruggur og hann kom Liverpool upp í þriðja sætið í deildinni. Ofar hefur liðið ekki komist á þessari leiktíð.
Charlton: Myhre, Young (Diawara 68. mín.), El Karkouri, Hreidarsson, Traore, Rommedahl, Faye (Hughes 58. mín.), Holland, Reid (Ambrose 46. mín.), Hasselbaink og D. Bent. Ónotaðir varamenn: Andersen og M. Bent.
Gult spjald: Djimi Traore.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Pennant (Crouch 83. mín.), Gerrard, Alonso, Gonzalez (Garcia 67. mín.), Bellamy og Kuyt (Aurelio 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Agger.
Mörk Liverpool: Xabi Alonso (3. mín.) víti, Craig Bellamy (82. mín.) og Steven Gerrard (88. mín.).
Gult spjald: Sanz Luis Garcia.
Áhorfednur á The Valley: 27.111.
Maður leiksins: Craig Bellamy. Veilsverjinn var óþreytandi allan leikinn við að hrella vörn Charlton. Sjálfstraustið hefur aukist til mikilla muna og það munar um það. Hann skoraði svo fallegt mark með glæsilegu skoti.
Rafael Benítez var mjög ánægður með sína menn eftir leikinn. "Það er betra jafnvægi í liðinu núna. Við erum komnir með gott jafnvægi milli varnar og sóknar. Við sköpum okkur fullt af færum og fáum ekki ýkja mörg mörk á okkur. Þetta var góður leikur. Við sköpuðum okkur fullt af færum og skoruðum þrjú mörk en hefðum getað skorað fleiri."
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni