Árið endaði vel!
Bikarmeistararnir enduðu árið vel með mikilvægum sigri í höfuðstaðnum. Liverpool skoraði eina markið í miklum baráttuleik.
Leikmenn Liverpool voru greinilega ákveðnir í að láta ekki fara eins og á öðrum degi jóla og mættu ákveðnir til leiks. Egyptinn Mido fékk þó fyrsta færi leiksins þegar hann fékk boltann í upplögðu færi fyrir miðju marki við vítateiginn. Skotið hans var hins vegar algerlega misheppnað og fór víðs fjarri. Eftir rúmlega tuttugu og fimm mínútur átti Craig Bellamy gott skot utan teigs sem Paul Robinson varði. Litlu síðar skaut Dirk Kuyt rétt framhjá. Hann fékk svo aftur gott færi en tókst ekki að skora. Hann hefði þó betur sent boltann á félaga sinn sem var í enn betra færi. Það leit allt út fyrir markalausan hálfleik þegar varnarmanni Spurs urðu á mistök. Orðuhafinn Steven Gerrard náði boltanum og kom honum á Dirk. Hollendingurinn sendi á Steven sem reyndi skot. Skotið var ekki vel heppnað en boltinn hrökk inn á markteig þar sem Luis Garcia skoraði. Nokkrum sekúndum seinna var flautað til hálfleiks. Betur gat hálfleikurinn ekki endað.
Það var hart barist í síðari hálfleiknum og ekki minnkaði baráttan þegar það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Liverpool varð fyrir áfalli snemma í hálfleiknum þegar Craig Bellamy varð að fara af leikvelli vegna meiðsla. Það var lengst af fátt um færi. Luis Garcia átti þó fallega hjólhestaspyrnu að marki um miðjan hálfleikinn en boltinn fór beint á Paul. Hurð skall nærri hælum við mark Liverpool þegar tuttugu mínútur voru eftir þegar Steve Finnan átti hörkuskalla í þverslá eigins marks eftir hamagang í teignum. Þegar tíu mínútur voru eftir varði Jose Reina vel frá Jermaine Defoe. Annars hélt vörn Liverpool mjög vel og löng sigurhrina heimamanna í heimavígi sínu var á enda og um leið endaði árið 2006 eins og best varð á kosið hjá bikarmeisturunum.
Tottenham: Robinson, Chimbonda, Dawson, Davenport, Lee, Ghaly, Huddlestone, Zokora (Murphy 56. mín.), Malbranque, Defoe og Mido (Berbatov 59. mín.). Ónotaðir vartamenn: Cerny, Ziegler og Gardner.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Garcia, Alonso, Gerrard, Aurelio (Gonzalez 79. mín.), Bellamy (Pennant 49. mín.) og Kuyt (Crouch 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin og Paletta.
Mark Liverpool: Sanz Luis Garcia (45. mín.).
Áhorfendur á White Hart Lane: 36.170.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Jamie barðist eins og ljón í leiknum. Það mæddi mikið á honum undir lokin þegar heimamenn reyndu að jafna en hann var eins og klettur í úthafinu.
Rafael Benítez var mjög ánægður með mikilvægan sigur. Þetta var mikið átak gegn erfiðum mótherjum. Mér fannst við stjórna miklu af leiknum. Svo vörðumst við vel og reyndum að beita skyndisóknum."
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni