Jafnglími grannanna
Liverpool og Everton skildu án marka í miklum baráttuleik á Anfield Road um hádegisbilið. Liverpool var sterkari aðilinn og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Bláliðar vörðu mark sitt með kjafti og klóm og uppskáru jafntefli eins og þeir lögðu upp með.
Það var þokuslæðingur yfir Anfield Road þegar leikurinn hófst og fram eftir öllum fyrri hálfleik. Kannski villti þokan leikmönnum eitthvað sýn. Að minnsta kosti gekk leikmönnum beggja liða illa að spila boltanum sín á milli með einhverri nákvæmni. Leikmenn beggja liða virtust líka vera mjög taugaspenntir. Everton fékk fyrsta færið eftir fimm mínútur en skot Tony Hibbert frá vítateig fór beint á Jose Reina. Á 8. mínútu náði Peter Crouch að klippa boltann að marki Everton, úr teignum, en Tim Howard náði að verja með naumindum með fæti. Tveimur mínútum seinna skoraði Liverpool. Craig Bellamy slapp inn á teig vinstra megin eftir fallegt samspil við Dirk Kuyt. Craig skoraði með góðu skoti úr þröngu færi en var réttilega dæmdur rangstæður. Xabi Alonso svo átti gott langskot sem strauk þverslána eftir hálftíma. Það var sem sagt ekkert skorað í fyrri hálfleik.
Liverpool herti sóknina eftir hlé og Everton stillti upp sannkallaðri handboltavörn. Sú var sannarlega vel heppnuð. Xabi átti gott langskot snemma í hálfleiknum en það fór beint á markið. Á 50. mínútu átti Jamie Carragher bylmingsskot, eftir hornspyrnu, sem stefndi í markið en boltinn fór í einn varnarmanna Everton við markteiginn. Tíu mínútum seinna komst í eina færi sitt í hálfleiknum. Andy Johnson komst í dauðafæri eftir misskilning milli varnarmanna Liverpool. Hann komst framhjá Daniel og náði skot sem Jamie komst fyrir. Andy fékk boltann aftur og skaut en Jose varði meistaralega með öðrum fæti sínum. Frábær markvarsla. Rétt á eftir átti Dirk skot utan teigs sem fór framhjá. Ekki löngu seinna átti Steven Gerrard skot úr aukaspyrnu sem fór rétt framhjá. Sókn Liverpool var linnulaus en leikmönnum gekk ekkrt að skapa sér opin færi. Leikmenn Everton vörðust af miklum móð og gáfu ekkert eftir. Það vakti nokkra furðu að Rafael Benítez skyldi ekki skipta Mark Gonzalez og Robbie Fowler inn á til að fá nýja menn til að breyta gangi mála. Robbie kom loks inn á þegar fimm mínútur voru eftir. Hann átti þátt í að skapa besta færi Liverpool í hálfleiknum. Peter fékk boltann í góðu færi inn á teig en náði ekki að hitta boltann nógu vel í góðu færi. Þetta var síðasti möguleiki Liverpool og gestirnir voru kátir með að ná stigi eins og þeir höfðu ætlað sér. Sókn Liverpool í síðari hálfleik var vissulega linnulítil en leikmenn liðsins náðu einfaldlega ekki að skapa sér nógu góð færi til að vinna leikinn. Því fór sem fór að þessu sinni.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant, Alonso, Gerrard, Bellamy (Fowler 85. mín.), Kuyt og Crouch. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Gonzalez og Zenden.
Everton: Howard, Hibbert, Yobo, Stubbs, Lescott, Carsley, Neville, Cahill, Arteta, Osman og Johnson (Anichebe 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Wright, Naysmith, Beattie og Fernandes.
Gul spjöld: Leon Osman, Phil Neville og Mikel Arteta.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.234.
Maður leiksins: Jermiane Pennant. Jermaine var mjög duglegur á kantinum og það var helst að hann næði að hræra í vörn Everton. Hann og Steve Finnan unnu mjög vel saman á hægri vængnum.
Rafael Benítez var þungur á brún eftir leikinn. "Ég er mjög vonsvikinn. Það var bara annað liðið sem vildi vinna leikinn. Við reyndum að halda áfram að sækja og skapa okkur færi en það er erfitt að skapa mörg opin færi þegar leikið er gegn liði sem stillir upp átta mönnum í vörn og heldur sig aftarlega á vellinum. Meira er ekki að segja."
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!