Klaufalegt tap gegn Newcastle
Liverpool tapaði fyrsta deildarleik sínum á árinu þegar liðið lá 2:1 í drullunni á St James Park. Það var í raun út í hött að þessi leikur skyldi tapast því Liverpool átti urmul færa í fyrri hálfleik. En eins og alltaf þá eru það mörkin sem telja. Það hefði sannarlega verið betra ef leiknum hefði verið frestað eins og til stóð. Völlurinn var á floti nokkrum tímum fyrir leik eftir mikla rigningu en það stytti upp og völlurinn var dæmdur leikhæfur. Völlurinn var rennblautur og erfiður yfirferðar en það var vel hægt að leika á honum.
Þeir Mohamed Sissoko og Boudewijn Zenden sneru aftur eftir langvarandi meiðsli. Liverpool fékk óskabyrjun og náði forystu á 6. mínútu. Steve Harper markvörður Newcastle náði þá ekki að sparka almennilega frá marki. Boltinn fór til Jermaine Pennant. Hann lék á varnarmann og inn á teig og upp að endamörkum. Þaðan sendi hann boltann út í teig á Craig Bellamy sem skoraði með nákvæmu skoti. Sex mínútum seinna komst Bolo Zenden í færi en Steven varði með góðu úthlaupi. Heimamenn náðu allt í einu að jafna metin á 26. mínútu. Löng sending kom að marki Liverpool. Daniel Agger og Obafemi Martins eltu boltann. Jose Reina kom út fyrir vítateiginn og hugðist sparka boltanum út af. Það tókst hins vegar ekki betur til en hann sparkaði boltanum í Daniel. Boltinn hrökk að markinu þar sem Obafemi náði honum og skoraði í autt markið. Það var klaufalegt hjá Jose að spyrna boltanum í eigin mann en kannski var það bara óheppni. Fram að hálfleik sótti Liverpool linnulaust og liðið óð í færum. Það byrjaði með Craig átti skot utan teigs sem var varið. Svo slapp Veilsverjinn tvívegis einn í gegn með mínútu millibili. Í fyrra skiptið lék hann á Steve í markið en Titus Bramble bjargaði á marklínu. Í seinna skipti kom Steve vel út á móti Craig og náði að koma við boltann sem small í þverslánni. Litlu síðar átti Bolo skot sem Steve varði í horn. Það var alveg ótrúlegt að Liverpool skyldi ekki hafa örugga forystu þegar flautað var til hálfleiks.
Það var ekki eins mikið fjör í leiknum eftir hálfleik. Dirk Kuyt fékk dauðafæri til að koma Liverpool yfir á 58. mínútu. Bolo sendi boltann inn á teig á Dirk sem sneri varnarmann af sér og komst í gott færi. Hann skaut hins vegar framhjá. Eftir þetta virtust leikmenn Liverpool slaka á. Það hefndi sín 70. mínútu. Steven Taylor fékk þá boltann inn á teig. Hann féll eftir að John Arne Riise virtist rekast í hann. Vítaspyrnan var ódýr að margra mati en Perúmaðurinn Nolberto Solano skoraði úr henn af öryggi. Rafael Benítez gerði tvær breytingar í kjölfarið. Hinn efnilegi Danny Guthrie og Spánverjinn Alvaro Arbeloa, sem lék sinn fyrsta leik, komu inn með stuttu millibili. Það hefðu hins vegar margir vilja sjá Peter Crouch koma fyrr inn á en það voru ekki nema sex mínútur eftir þegar hann kom til leiks. Liverpool sótti linnulaust til leiksloka en heimamenn vörðu forystu sína af öllum mætti. Leikmenn Liverpool náðu ekki að skapa nein góð færi. Steven varði þó vel fast langskot frá Daniel Agger. En tap, sem aldrei hefði átt að vera, varð staðreynd.
Newcastle United: Harper, Taylor, Onyewu, Bramble, Babayaro, Solano (Duff 86. mín.), Parker, Butt, Milner, Dyer (Sibierski 81. mín.) og Martins. Ónotaðir varamenn: Srnicek, Luque og Huntington.
Mörk Newcastle United: Obafemi Martins (26. mín.) og Nolberto Solano víti (70. mín.).
Gult spjald: Titus Bramble.
Liverpool: Reina, Finnan (Crouch 84. mín.), Carragher, Agger, Riise, Pennant (Arbeloa 76. mín.), Sissoko, Gerrard, Zenden (Guthrie 75. mín.), Bellamy og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.
Mark Liverpool: Craig Bellamy (6. mín.).
Gult spjald: Steven Gerrard.
Áhorfendur Á St James Park: 52.305.
Maður leiksins: Carig Bellamy. Varnarmenn Newcastle réðu ekkert við hann í fyrri hálfleik og hann hefði átt að skora eins og þrjú mörk. Hann skoraði eitt sem því miður dugði skammt. En það verður ekki af Craig tekið að hann lagði sig allan fram.
Rafael Benítez var skiljanlega svekktur eftir leikinn. "Við hefðum átt að verða þremur eða fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik en svo fengum við heimskulegt mark á okkur og svo heimskulega vítaspyrnu. Það er erfitt að útskýra hvernig við fengum ekkert út úr þessum leik. Við verðum að læra að þegar opin færi skapast þá verður að færa sér þau í nyt og klára leikinn."
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!