Öruggur stórsigur á Hnífsblöðunum!
Liverpool vann öruggan stórsigur á Hnífsblöðunum í Musterinu. Guð gaf tóninn og aðrir fylgdu fordæmi hans. Stigin þrjú styrktu stöðu Liverpool við toppinn. Rafael Benítez gerði miklar breytingar á liðinu sem vann hinn frækilega sigur í Barcelona. Helstu tíðindin voru að Argentínumaðurinn Javier Mascherano lék sinn fyrsta leik með Liverpool. Jerzy Dudek kom óvænt í markið því Jose Reina var á fæðingardeild þar sem hann beið eftir að kona hans fæddi barn. Af þessum sökum fékk ítalski markmaðurinn Daniele Padelli sinn fyrsta smjörþef af aðalliðinu. Aðeins fjórir leikmenn byrjuðu leikinn af þeim sem hófu leik á Nývangi.
Það gerðist fátt títt framan af leik. Fyrsta færið kom eftir tæpan stundarfjórðung þegar Sami Hyypia sendi langa sendingu fram á Mark Gonzalez. Mark komst inn á teiginn en skot hans fór yfir. Það færðist loks fjör í leikinn þegar tæplega tuttugu mínútur voru liðnar. Liverpool fékk þá hornspyrnu. Steven Gerrard hugðist taka rispu inn á teiginn í þegar horspyrnan var tekin. Robert Kozluk hindraði hann í hlaupinu og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Ýmsum þótti þetta ódýr vítaspyrna en það hefði verið hægt að dæma víti í sömu andrá þegar einn varnarmanna gestanna sparkaði í höfuðið á Peter Crouch sem lá alblóðugur eftir. Bera þurfti Peter að velli og Dirk Kuyt kom í hans stað. Robbie Fowler gat loks tekið vítaspyrnuna á 20. mínútu. Biðin hafði ekki sett meistarann úr jafnvægi og hann skoraði með föstu skoti út við stöng vinstra megin við Paddy Kenny. The Kop hyllti goðsögnina! Fjórum mínútum seinna braust Steven inn í vítateiginn eftir að Dirk hafði skallað boltann laglega til hans. Steven var kominn í gott skotfæri þegar Nick Montgomery felldi hann og aftur var dæmd vítaspyrna. Aftur kom Robbie til skjalanna og skoraði með öruggu skoti. Núna sendi hann boltann vinstra megin við Paddy. Aftur hyllti The Kop goðsögnina! Liverpool hafði nú Hnífsblöðin fullkomlega á valdi sínu. Þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum komst Mark Gonzalez í gott færi en Paddy varði vel frá honum.
Síðari hálfleikurinn var rólegur framan af. Liverpool hafði öll völd þó svo að gestirnir gæfust aldrei upp. Steven Gerrard fékk fyrsta færið, eftir tíu mínútur, þegar hann skaut rétt framhjá eftir laglega sókn. Ekki mjög löngu síðar náði Robert Hulse að skora fyrir gestina en hann var réttilga dæmdur rangstæður. Á 63. mínútu átti John Arne Riise bylmingsskot sem fór yfir. Liverpool gerði loks endanlega út um leikinn á 70. mínútu. Jermaine Pennant tók þá hornspyrnu frá vinstri. Boltinn fór inn að markteignum. Jamie Carragher lét boltann fara milli fóta sér inn að markinu þar sem hann hrökk út í teiginn af varnarmanni. Sami Hyypia var vel vakandi og spyrnti boltanum viðstöðulaust í markið. Strax á eftir átti Robert Hulse góðan skalla að marki Liverpool en Jerzy Dudek henti sér upp í hornið og greip boltann með tilþrifum. Á 73. mínútu kom fjórða markið. Leikmenn Liverpool léku vel fram völlinn. Javier sendi af miðjunni á Robbie sem lagði boltann laglega viðstöðulaust á Steven sem fékk boltann rétt utan við teiginn. Hann lék fallega framhjá varnarmanni og skoraði svo með öruggu skoti, neðst í fjærhornið, hægra megin úr teignum. Glæsilega gert hjá fyrirliðanum. Þetta var það síðasta sem hann gerði þennan daginn enda dagsverkið orðið drjúgt. Hann skipti við Xabi Alonso eftir að hafa skorað. Jamie Carragher fékk líka hvíld stuttu síðar þegar Daniel Agger leysti hann af. Lokakafli leiksins einkenndist helst af spennu um hvort Robbie næði þrennunni og hvort Liverpool næði að halda hreinu. Robbie komst næst þrennunni þegar Paddy Kenny varði naumlega fast skot hans utan vítateigs. Sheffield United hefði getað minnkað muninn undir lokin en Robert Hulse skaut í þverslá af stuttu færi. Boltinn fór upp í loftið en Sami Hyypia skallaði frákastið frá. Þetta var sannkallað dauðafæri. Stórsigri Liverpool var ekki ógnað frekar og hann kórónaði fengsæla viku!
Liverpool: Dudek, Finnan, Carragher (Agger 77. mín.), Hyypia, Riise, Pennant, Gerrard (Alonso 74. mín.), Mascherano, Gonzalez, Crouch (Kuyt 23. mín.) og Fowler. Ónotaðir varamenn: Padelli og Sissoko.
Mörk Liverpool: Robbie Fowler (20. og 25. mín.), vítaspyrnur, Sami Hyypia (70. mín.) og Steven Gerrard (73. mín.).
Sheffield United: Kenny, Geary, Jagielka, Lucketti (Morgan 32. mín.), Armstrong, Kozluk (Kazim-Richards 25. mín.), Tonge, Fathi, Montgomery, S. Quinn (Stead 66. mín.) og Hulse. Ónotaðir varamenn: Davis og A. Quinn.
Gul spjöld: Nick Montgomery og Michael Tonge.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.198.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn var á þönum um allan völl og átti stórleik. Hann fékk tvær vítaspyrnur og skoraði svo sjálfur fjórða markið sem innsiglaði sigurinn endanlega! Dágott dagsverk og það þó hann léki ekki síðasta stundarfjórðunginn.
Rafael Benítez var kátur með afrek vikunnar. "Þetta hefur verið frábær vika fyrir félagið og stuðningsmennina. Við erum virkilga hamingjusamir. Það er alltaf erfitt að spila svona leik eftir leik í Meistaradeildinni en leikmennirnir mínir stóðu sig mjög vel og það var góður skilningur á milli þeirra. Við vissum að við þurftum að vera þolinmóðir í dag og spila boltanum hratt. Ég sagði þeim að við gætum þurft fast leikatriði eða vítaspyrnu til að við næðum forystu. Robbie Fowler stóð sig vel og mér finnst hann ein besta vítaskyttan sem í faginu."
-
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald! -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah ekki meiddur -
| Sf. Gutt
Farinn heim -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið frá í haust -
| Heimir Eyvindarson
Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar? -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Af kvennaliðinu