| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Afhroð á Anfield Road. Annað bikartapið fyrir Arsenal á einni viku. Það hefði betur ekki verið þoka í desember. Þetta er leikur Liverpool og Arsenal í hnotskurn.

- Liverpool hefur oftast allra liða unnið Deildarbikarinn eða sjö sinnum.

- Liðin áttu að leika þennan leik 19. desember en þá var honum frestað vegna þess að þoka lá yfir Liverpool.

- Þetta var í níunda sinn sem liðin hafa lent saman í Deildarbikarnum.

- Liverpool hefur unnið fimm sinnum og þetta var fjórði sigur Arsenal.

- Þetta var annar sigur Arsenal í Deildarbikarnum í Liverpool borg á þessari leiktíð. Liðið lagði líka Everton að velli fyrr í keppninni.

- Þetta var eitt versta tap í sögu Liverpool. Liðið hefur ekki fengið sex mörk á sig á heimavelli frá því liðið tapaði 6:0 fyrir Sunderland leiktíðina 1929/1930.

- Juilio Baptista varð fyrstur leikmanna til að skora þrennu gegn Liverpool í Deildarbikarnum. Reyndar gerði hann betur því hann skoraði fjögur mörk. Samt varði Jerzy Dudek vítaspyrnu frá honum.

- Robbie Fowler skoraði sitt fimmta mark á leiktíðinni. Þetta var 29. Deildarbikarmark hans fyrir Liverpool.

- Markið sem Steven Gerrard skoraði var merkilegt fyrir þær sakir að þetta var 400. Deildarbikarmarkið í sögu Liverpool. Þetta var sjöunda mark hans á leiktíðinni.

- Sami Hyypia skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni.

- Þetta var þriðja tap Liverpool fyrir Arsenal á leiktíðinni. Skytturnar hafa skorað hvorki fleiri né færri en tólf mörk gegn fjórum í þeim leikjum. 

- Liverpool féll þar með úr báðum bikarkeppnunum fyrir Arsenal á fjórum dögum og það á Anfield Road!

Jákvætt:-) Eins undarlega eins það hljómar þá lék Liverpool ekki svo afleitlega. Liðið skapaði fjölda færa og miðað við færin í leiknum hefði Liverpool getað unnið leikinn! 

Neikvætt:-( Þetta tap var eitt hið versta í sögu Liverpool og eitt það allra versta á Anfield Road. Meira þarf ekki að segja.

Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:

1. Steven Gerrard. Skoraði frábært og lagði sig allan fram. En jafnvel hinn áhrifamikli fyrirliði gat ekki bjargað Liverpool í þetta sinn.

2. Danny Guthrie. Var mjög duglegur, ákveðinn og gerði sitt besta. 

3. Robbie Fowler. Afgreiddi markið sitt eins og góður markaskorari gerir. Fékk úr litlu að moða í síðari hálfleik til að framkalla endurkomu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan