| Grétar Magnússon

Fyrir leikinn gegn PSV

Nokkrir leikmenn liða Liverpool og PSV hafa verið tæpir vegna meiðsla að undanförnu og nokkrir leikmenn verða að sætta sig við að geta ekki tekið þátt í leikjunum vegna meiðsla.

Hjá PSV er það varnarjaxlinn Alex sem er meiddur og hann getur ekki tekið þátt í fyrri leiknum og ólíklegt er talið að hann verði með í seinni leiknum einnig.  Arouna Kone, sóknarmaðurinn frá Fílabeinsströndinni er meiddur á hné og Ronald Koeman sagði um helgina að Kone myndi ekki spila á morgun.  Auk þess er varnarmaðurinn þaulreyndi Michael Reiziger frá vegna meiðsla.

Steven Gerrard meiddist lítillega gegn Arsenal en þau meiðsli eru ekki alvarleg og hafa ekki vonandi ekki áhrif á frammistöðu hans í Hollandi á morgun.  Steve Finnan var hvíldur gegn Arsenal, ekki er um nein meiðsli að ræða hjá honum og sennilega hefur honum ekki veitt af því að fá hvíld en hann hefur spilað flesta leiki liðsins á tímabilinu.  Sami Hyypia var einnig ekki í hópnum á laugardaginn og Rafa Benítez segir að Finninn stóri sé ekki meiddur.

Craig Bellamy var einnig hvíldur eftir að hann meiddist lítillega í landsleikjahrinunni í síðustu viku.  Benítez er nokkuð viss um að Bellamy verði búinn að ná sér í tæka tíð og bætti við:  ,,Við tókum ákvarðanir fyrir leikinn gegn Arsenal að nota ekki nokkra leikmenn sem höfðu verið að spila með landsliðum sínum.  Stundum er auðveldara að gera þetta þegar við leikum við minni lið en gegn stóru liði eins og Arsenal þá er þetta erfitt."

,,En við þurftum að nota hópinn til þess að vera vissir um að við færum í leikinn gegn PSV með eins mikið af leikmönnum ferskum og hægt er.  PSV voru að fylgjast með leiknum og þeir sáu okkur skora fjögur mörk gegn Arsenal sem þeir slógu út úr Meistaradeildinni í síðustu umferð.  Ég vona að þeir hafi farið til Hollands aftur með áhyggjur af okkur."

Þess má geta að Momo Sissoko getur ekki tekið þátt í leiknum gegn PSV þar sem hann er í banni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan