Öruggur sigur í Hollandi
Liverpool lagði traustan grunn að sæti í undanúrslitum í Meistaradeild Evrópu með öruggum sigri 3:0 á PSV Eindhoven í Hollandi. Vissulega var lið PSV slakt en ekki skal dregið úr því að Liverpool lék gríðarlega vel. Eftir að liðið skoraði fyrsta markið var sigurinn aldrei í hættu.
Leikurinn byrjaði rólega og bæði lið þreifuðu fyrir sér. Fyrsta færið kom eftir rúman stundarfjórðung. Liverpool fékk þá hornspyrnu sem Steven Gerrard tók. Jamie Carragher náði góðum skalla að marki en Heurelho Gomes skutlaði sér til vinstri og varði meistaralega. Ekki löngu seinna fengu heimamenn sitt besta færi í leiknum. Jan Kromkamp sendi fyrir frá hægri. Boltinn féll fyrir fætur Mika Varynen sem var óvaldaður í teignum. Hann skaut að marki en boltinn fór í Jamie og yfir markið. Þarna slapp Liverpool með skrekkinn. Eftir þetta hertu leikmenn Liverpool tökin og náðu forystu á 27. mínútu. Liverpool náði þá góðri sókn upp hægri kantinn. Javier Mascherano gaf á Steve Finnan sem sendi frábæra sendingu fyrir markið. Þar kom Steven Gerrard og skallaði í mark úr miðjum teignum. Slíkur var ákafinn í fyrirliðanum að hann stökk yfir Dirk Kuyt í leið sinni að boltanum! Fátt tíðinda gerðist það sem eftir var af hálfleiknum.
Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti. Xabi Alonso hitti boltann illa í góðu færi við vítateiginn og heimamenn sluppu. En þeir sluppu ekki á 49. mínútu. Slök sending eins varnarmanna fór til John Arne Riise. Sá norski þakkaði gott boð, lagði boltann fyrir sig og hamraði hann í netið af hátt í þrjátíu metra færi. Glæsilegt mark! Eftir þetta voru heimamenn alveg búnir og Liverpool réðu öllu á vellinum. Xabi var ekki langt frá því að skora af löngu færi en skot hans fór rétt framhjá. Enn jókst forysta Liverpool á 63. mínútu. Steve Finnan gaf frábæra sendingu fyrir markið. Boltinn fór beint á Peter Crouch sem stökk manna hæst í teignum og skallaði efst upp í markhornið. Sigurinn var nú kominn í örugga höfn en Liverpool varð þó fyrir áfalli stundarfjórungi fyrir leikslok þegar Fabio Aurelio féll án þess að nokkur kæmi við hann. Brasilíumaðurinn var borinn af velli með slitna hásin. Þetta gat ekki komið á verri tíma fyrir Brasilíumanninn sem lék sinn besta leik með Liverpool gegn Arsenal og hafði leikið vel í kvöld. Mark Gonzalez kom inn fyrir Fabio og átti litlu síðar gott skot utan teigs sem fór rétt framhjá. Öruggur sigur Liverpool var í höfn og stuðningsmenn liðsins gátu sungið þjóðsönginn óáreittir því stuðningsmenn PSV voru löngu hættir að láta til sín heyra. Liverpool er nú með óskastöðu fyrir seinni leikinn en það þarf fyrst að klára verkið áður en hugsað er lengra.
PSV Eindhoven: Gomes, Kromkamp (Feher 68. mín.), Da Costa, Simons, Salcido,Mendez (Kluivert 51. mín.), Vayrynen, Cocu, Culina, Farfan (Sun 46. mín.) og Tardelli. Ónotaðir varamenn: Moens, Addo og Marcellis.
Gul spjöld: Patrick Kluivert og Csba Feher.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise (Zenden 65. mín.), Gerrard, Mascherano, Alonso, Aurelio (Gonzalez 75. mín.), Crouch (Pennant 85. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Dudek, Arbeloa, Hyypia og Bellamy.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (27. mín.), John Arne Riise (49. mín.) og Peter Crouch (63. mín.).
Gul spjöld: Javier Mascherano og Dirk Kuyt.
Áhorfendur á Philips leikvanginum: 36.500.
Maður leiksins: Steve Finnan. Írinn leikur alltaf jafn vel. Reyndar má segja að menn taki stundum varla eftir því hversu vel hann leikur. Steve stendur bara vaktina og skilar sínu verki. Að þessu sinni gerði hann gott betur með því að leggja upp tvö mörk með frábærum sendingum.
Rafael Benítez var mjög ánægður eftir leikinn en hann telur samt að verkinu sé ekki lokið. "Við verðum að vera varkárir og við munum undirbúa okkur fyrir seinni leikinn eins og venjulega. Við vitum að við erum nærri búnir með þetta verk en í knattspyrnu verður maður að vera einbeittur og einbeita sér að hverjum einasta leik."
-
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald! -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah ekki meiddur -
| Sf. Gutt
Farinn heim -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið frá í haust -
| Heimir Eyvindarson
Er Arne Slot Bob Paisley 21.aldarinnar? -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin