| Sf. Gutt

Páskaglaðningur í Reading!

Stuðningsmenn Liverpool fengu góðan páskaglaðning í Reading í dag þegar Liverpool sótti 2:1 sigur í fyrstu heimsókn sinni þangað. Sigurinn var mjög mikilvægur í baráttunni um þriðja og fjórða sætið í deildinni. Liverpool lék ekki ýkja vel en það er líka gott að vinna leiki þegar liðið leikur ekki upp á sitt besta.

Þetta var mikill baráttuleikur frá upphafi til enda. Fyrri hálfleikur var tíðindalítill lengst af. Heimamenn vildi fá vítaspyrnu snemma leiks eftir að Jose Reina hafði þrengt að leikmanni Reading. Það hefði verið harður dómur. Liverpool komst svo yfir eftir stundarfjórðung eftir frábæra skyndisókn. Reading var í sókn sem var brotin á bak aftur.  Álvaro Arbeloa lék fram völlinn þar sem hann sendi á Peter Crouch. Peter sendi frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Spánverjann sem hafði haldið spretti sínum áfram. Álvaro lék inn á teiginn og skoraði með öruggu skoti út í hornið fjær. Frábær skyndisókn! Það var kannski vel við hæfi að fyrsta mark Liverpool á þessum leikvangi skyldi líka vera fyrsta mark leikmanns fyrir félagið! Þetta reyndist eina marktilraun Liverpool í öllum hálfleiknum! Reading náði lítt að ógna marki Liverpool þrátt fyrir að vera meira með boltann.

Síðari hálfleikurinn gat ekki byrjað betur fyrir Reading. Nicky Hunt sendi þó góða sendingu á Brynjar Björn Gunnarsson sem braust inn á teig og skoraði með föstu skoti í fjærhornið í stöng og inn. Liverpool fór strax í sókn og Craig Bellamy komst inn á teig þar sem hann féll. Veilsverjinn vildi þá vítaspyrnu en ekkert var dæmt. Ekki er gott að segja hvort hann hafði rétt fyrir sér. Rétt á eftir var Craig skipt af velli fyrir Dirk Kuyt. Heimamenn voru mjög grimmir og ógnuðu marki Liverpool nokkrum sinnum. Það var þó leikmaður Liverpool sem komst næst því að skora fyrir Reading. Peter Crouch skallaði þá af krafti í stöng á eigin marki eftir aukaspyrnu. Liverpool slapp þar vel. Hinu megin munaði sáralitlu að Steven Gerrard næði að koma Liverpool yfir. Mohamed Sissoko sendi inn á Dirk sem náði að koma boltanum framhjá markverði Reading en Steven náði ekki til boltans þar sem hann rúllaði framhjá fyrir opnu marki. Markvörður Reading slapp svo vel þegar hann handlék boltann utan teigs en dómarinn gaf honum aðeins gult spjald. Líklega fannst mörgum stefna í jafntefli. Liverpool náði þó að næla í öll stigin þegar aðeins fjórar mínútur voru eftir. Jermaine Pennant, sem kom inn fyrir Peter, sendi þá hárnákvæma sendingu fyrir markið. Við fjærstöngina stökk Dirk Kuyt hæst og skallaði boltann í mark Reading. Langþráð mark hjá Hollendingnum og sigurinn var höfn! Sannkallaður páskaglaðningur!

Reading: Hahnemann, Gunnarsson, Ingimarsson, Duberry (Bikey 46. mín.), Shorey, Oster (Lita 82. mín.), Sidwell, Harper, Hunt, Doyle og Kitson. Ónotaðir varamenn: Federici, Long og Halford.

Mark Reading: Brynjar Björn Gunnarsson (47. mín.).

Gul spjöld: Dave Kitson og Marcus Hahnemann.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Arbeloa, Gerrard, Sissoko, Mascherano, Gonzalez (Riise 79), Crouch (Pennant 65) og Bellamy (Kuyt 50. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Agger.

Mörk Liverpool: Álvaro Arbeloa (15. mín.) og Dirk Kuyt (86. mín.).

Gult spjald: Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á Madejski leikvanginum: 24.121.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn hefur ekki leikið í síðustu leikjum en það var ekki að sjá. Hann var sallarólegur í vörninni og öryggið uppmálað. Hann braut margar sóknir Reading á bak aftur.  

Rafael Beenítez var ánægður með sigurinn því hann átti von á erfiðum leik. "Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Það er erfitt að leika gegn þeim. Þeir eltu okkur út um allt og lögðu hart að sér. Ég held að við höfum staðið okkur vel og verðskuldað sigur þegar upp er staðið."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan