| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Það fékkst snemmborinn páskaglaðningur í fyrstu heimsókn Liverpool til Reading. Þetta er leikur Liverpool og Reading í hnotskurn.

- Liverpool lék í fyrsta sinn á Madejski leikvanginum í Reading.

- Fyrir þessa leiktíð hafði Liverpool aldrei leikið gegn þeim Konunglegu.

- Nú hafa liðin hins vegar leikið þrisvar sinnum á þessari leiktíð!

- Fyrst léku liðin í Deildarbikarnum og vann Liverpool þann leik 4:3 á Anfield Road.

- Liverpool vann svo 2:0 í deildinni á sama stað.

- Álvaro Arbeloa skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool.

- Álvaro er númer tvö. Leikmaður með það númer skoraði síðast fyrir Liverpool árið 1992 og var þar að verki Mike Marsh.

- Dirk Kuty skoraði ellefta mark sitt á leiktíðinni.

- Hollendingnum líkar greinilega vel að spila gegn Reading því þetta var þriðja mark hans gegn þeim á leiktíðinni. Hann skoraði bæði mörk Liverpool þegar liðið vann Reading 2:0 í deildarleik liðanna á Anfield Road.

- Tveir Íslendingar léku gegn Liverpool. Þeir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru í byrjunarliði Reading. 

- Brynjar varð svo þriðji Íslendingurinn á eftir þeim Gunnari Felixssyni og Eiði Smára Guðjohnsen til að skora gegn Liverpool. 

- Venjulega er leikin páskahrota á Englandi um páskana og hvert lið leikur þá tvo leiki. Fyrst á laugardegi fyrir páska og svo á annan í páskum. Ensku liðin sem enn eru eftir í Evrópukeppnunum spila þó bara einn páskaleik í ár.

Jákvætt:-) Liverpool vann þótt liðið spilaði ekki eins og það best getur og það er alltaf gott. Leikmenn gáfust ekki upp þótt mótherjarnir næðu að jafna metin. Álvaro Arbeloa skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool. Það var sérlega gleðilegt að Dirk Kuty skyldi ná að skora því hann hefur ekki skorað um nokkurt skeið.    

Neikvætt:-( Liverpool missti forystuna eftir einbeitingarleysi í upphafi síðari hálfleiks. 

Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:

1. Jamie Carragher. Hann var framúrskarandi í vörninni eins og venjulega. Hann var látlaust að hvetja meðspilara sína og halda varnarmönnunum við efnið.

2. Dirk Kuyt. Skoraði mark sigurmarkið. Hann verðskuldaði það eftir að hafa lagt hart að sér. Hollendingurinn lék mjög vel eftir að hafa komið inn á sem varamaður fyrir Craig Bellamy.

3. Álvaro Arbeloa. Skoraði glæsilegt mark. Hvaða sóknarmaður sem er hefði getað verið ánægður með hvernig hann afgreiddi markið. Hvað þá varnarmaður.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan