Fyrirliðinn sá til þess að veturinn endaði vel!
Fyrirliðinn sá til þess að veturinn endaði vel. Hann skoraði bæði mörk Liverpool þegar bikarmeistararnir lögðu Middlesborough að velli 2:0 á Anfield Road á síðasta kveldi þessa vetrar. Liverpool náði með sigrinum aftur þriðja sæti deildarinnar. Sigurinn færði Liverpool enn nær því að tryggja Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.
Lengi framan af leik voru leikmenn Liverpool álíka kraftlitlir og í leiknum gegn Manchester Ciry á laugardaginn. Ekki var þó hitanum fyrir að fara. Líkt og á laugardaginn voru leikmenn Liverpool meira með boltann en fá færi komu. Helst færðist fjör í leikinn þegar Jermaine Pennant var með boltann. Hann sendi fyrir markið frá hægri eftir þrettán mínútur. Misheppnaður skalli Mohamed Sissoko rataði til Peter Crouch á fjærstöng en varnamenn Boro komust fyrir skot hans. Um miðjan hálfleikinn var Jermaine enn á ferðinni þegar hann lagði hann boltann fyrir Mohamed Sissoko en hann hitti ekki boltann almennilega í upplögðu færi. Boltinn fór framhjá. Boro átti fáar sóknir en upp úr þurru féll þó besta færi hálfleiksins þeim í skaut þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Jamie Carragher missti þá boltann til Fabio Rochemback. Hann komst á svo til auðan sjó upp að vítateig Liverpool en skaut slöku skoti framhjá. Hann hefði líka getað gefið boltann á félaga sinn sem var vel staðsettur. Liverpool slapp þarna með skrekkinn. Rétt á eftir náði Liverpool góðri sókn sem endaði með því að Mohamed fékk boltann í góðu færi en honum voru mislagðar fætur og hann náði ekki skoti að marki. Ekkert mark var því skorað í fyrri hálfleiknum
Rafael Benítez hafði greinilega hvatt menn sína til að reka af sér slyðruorðið í leikhléinu því þeir komu ákveðnir til leiks þegar síðari hálfleikur hófst. Snemma í hálfleiknum slapp mark Boro vel þegar Javier Mascherano skallaði í þverslá eftir hornspyrnu. Sex mínútum eftir hálfleik skipti Rafael svo Mohamed, sem hafði ekki náð sér á strik, af velli og setti Dirk Kuyt inn í sóknina. Steven Gerrard fór um leið inn á miðjuna. Þessi breyting hafði góð áhrif á leik Liverpool. Dirk lagði litlu seinna upp gott skotfæri fyrir Boudewijn Zenden en hann skaut rétt yfir úr teignum. Hann átti sannarlega að skora úr þessu færi. Liverpool náði loks að brjóta ísinn á 58. mínútu. Liverpool sótti þá upp miðjuna. Boudewijn renndi boltanum á Steven Gerrard sem þrumaði boltanum að marki af um 25 metra færi. Skotið var vel heppnað og boltinn þandi netmöskvana úti við stöng óverjandi fyrir Mark Schwarzer. Glæsilegt mark hjá fyrirliðanum. Sjö mínútum seinna má segja að Liverpool hafi farið langt með að tryggja sigurinn. Dómarinn dæmdi þá vítaspyrnu á Boro. Hann taldi að Andrew Davies hefði brotið á Peter. Brotið var ekki af alvarlegri gerðinni en víst kom Andrew Peter úr jafnvægi. Steven tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi með því að senda Mark í vitlaust horn. Það var fátt um færi það sem eftir lifði leiks. Helsta spennan var sú hvort Steven næði þrennunni. Hvorki hann né aðrir bættu við mörkum og Liverpool landaði sigrinum með mörkum fyrirliðans. Veturinn gat því ekki endað mikið betur fyrir Liverpool og vonandi verður sumarið gjöfult!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Riise, Pennant, Mascherano, Sissoko (Kuyt 51. mín.), Zenden, Gerrard (Gonzalez 87. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia og Fowler.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (58. og 65, víti, mín.)
Middlesbrough: Schwarzer, Davies, Woodgate, Pogatetz, Taylor, Boateng, Morrison (Viduka 66. mín.), Cattermole (Johnson 81. mín.), Rochemback, Downing og Yakubu. Ónotaðir varamenn: Jones, Riggott og Lee.
Gult spjald: Andrew Davies.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.458.
Maður leikins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn sýndi mátt sinn með því að skora tvívegis og gera út um leikinn. Fyrra markið hans var stórglæsilegt. Að auki átti hann góða spretti og hélt mótherjunum við efnið. Þetta var besti leikur hans í nokkurn tíma.
Rafael Benítez hrósaði fyrirliða sínum sérstaklega eftir leikinn: "Við vitum yfir hvaða hæfileikum Steven Gerrard býr og hann getur breytt gangi leikja með langskotum sínum. Það gerði hann þegar hann skoraði fyrra markið sem var lykillinn að sigrinum. Við vitum að Steven er ánægðari þegar hann leikur inn á miðjunni en stundum þarf ég að láta hann leika hægra megin á miðjunni vegna þess að það kemur liðinu vel. Mér fannst við verðskulda að vinna en við urðum að vera þolinmóðir og leggja hart að okkur."
Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til minningar um þá 96 stuðningsmenn Liverpool sem létust í harmleiknum á Hillsborough árið 1989. Það er hefð að minnast þeirra á þeim heimaleik Liverpool sem leikinn er næst 15. apríl ár hvert. Hefði mátt heyra saumnál detta á Anfield Road í kvöld þegar minningarathöfnin fór fram.
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum