Tap með minnsta mun í fyrri rimmunni gegn Chelsea
Liverpool tapaði fyrri rimmunni gegn Chelsea með minnsta mun á Stamford Bridge í kvöld. Liverpool tapaði leiknum aðeins 1:0 en ljóst er það verður ekkert áhlaupaverk að snúa því við í seinni leiknum. Ekkert annað dugar Liverpool en að vinna leikinn á Anfield Road með tveggja marka mun. Þar hafa mörg Evrópuævintýri gerst og vonandi á eitt slíkt sér stað í næstu viku.
Fyrir leikinn var Alan Ball minnst en hann lést í nótt. Alan varð heimsmeistari með enska landsliðinu árið 1966 og átti glæstan feril með liðum á borð við Everton, Arsenal og Southampton. Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti. Leikmönnum Liverpool gekk illa framan af leik og hin sterka vörn Liverpool var óvenju óörugg. Jose Reina mátti hafa sig allan við eftir sjö mínútur þegar hann varði frábærlega frá Frank Lampard eftir að Didier Drogba kom boltanum fyrir markið. Frank negldi á markið úr teignum en Jose sýndi ótrúleg viðbrögð og varði. Eftir kraftmikla byrjun Chelsea fóru leikmenn Liverpool að ná áttum en þá skoruðu Englandsmeistararnir á 29. mínútu. Ricardo Carvalho braut sókn Liverpool á bak aftur og skeiðaði fram völlinn. Hann sendi svo út til hægri á Didier Drogba sem braust inn á teig. Daniel Agger elti hann en Didier sneri á Danann og sendi inn á miðja teig. Þar koma Joe Cole og smellti boltanum óverjandi í markið. Frábærlega útfærð skyndisókn. Fátt var um fleiri færi fram að hálfleik.
Bikarmeistararnir léku miklu betur eftir leikhlé. Rafael Benítez brást líka við og setti Peter Crouch inn á fyrir Craig Bellamy, sem hafi ekki komist í takt við leikinn, þegar sjö mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Rétt á eftir kom boltinn inn á teig. Varnarmaður náði að skalla frá Peter. Boltinn fór til Steven Gerrard sem þrumaði á markið. Boltinn stefndi í markið en Petr Cech náði að verja meistaralega með því að skutla sér niður í vinstra hornið og slá boltann framhjá. Liverpool sótti mjög fram í miðjan hálfleikinn en náði ekki að opna vörn Chelsea. Leikmenn Chelsea heimtuðu víti snemma í síðari hálfleik þegar Álvaro Arbeloa hendlék boltann. Við fyrstu sýn virtist atvikið eiga sér stað inni í vítateig en við nánari skoðun kom í ljós að Álvaro var utan vítateigs þegar hann slæmdi hendi í boltann. Chelsea hefði átt að fá aukaspyrnu en ekki víti. Dómarinn dæmdi hins vegar ekkert. Þegar leið á hálfleikinn fóru leikmenn Chelsea að ná hættulegum sóknum. Tíu mínútum fyrir leikslok varði Jose glæsilega frá Frank Lampard sem skaut úr teignum. Jose sló boltann frá. Á síðustu mínútunni skallaði Didier rétt framhjá eftir einu hornspyrnu Chelsea í leiknum. Sigur Chelsea verður að teljast sanngjarn en hann var með minnsta mun. Liverpool náði því miður ekki að skora útimark og því dugar ekki annað en að vinna með tveggja marka mun á Anfield Road á þriðjudagskvöldið þegar seinni Englandsorrustan fer fram. Þá verða allir á Anfield Road að leggjast saman á árarnar og víst að það verður gjört!
Chelsea: Cech, Ferreira, Carvalho, Terry, A. Cole, Makelele, J. Cole (Wright-Phillips 84. mín.), Mikel, Lampard, Shevchenko (Kalou 76. mín.) og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini, Boulahrouz, Geremi, Bridge og Diarra.
Mark Chelsea: Joe Cole (29. mín.).
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Riise, Gerrard, Alonso (Pennant 83. mín.), Mascherano, Zenden, Kuyt og Bellamy (Crouch 52. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Gonzalez, Sissoko og Paletta.
Gult spjald: Javier Mascherano.
Áhorfendur á Stamford Bridge: 39.483.
Maður leiksins: Jose Reina. Þessi magnaði markvörður varði tvívegis frábærlega frá Frank Lampard og hélt þar með opnum raunhæfum möguleika á að Liverpool geti snúið dæminu við í síðari leiknum á Anfield Road.
Rafael Benítez var skiljanlega ekki vel sáttur eftir leikinn. "Við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik. Þeir fengu færi en það var ekki vegna þess að þeir væru að spila vel. Við misstum boltann svo oft til þeirra. Við ræddum það fyrir leikinn var fara varlega því þeim líkar að beita skyndisóknum. En í fyrri hálfleik gerður við ranga hluti og tókum rangar ákvarðanir. Við spiluðum betur í síðari hálfleik. Núna hlökkum við leiksins á Anfield og þess að spila fyrir framan stuðningsmenn okkar. Við höfum trú á okkur því við vitum að við höfum góðu liði á að skipa. Við getum skorað mörk og við vitum að við getum lagt þá að velli."
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum