Tap suðurfrá
Liverpool tapaði 2:1 fyrir Portsmouth á suðurströndinni í dag í kaflaskiptum leik. Slakur fyrri hálfleikur réði úrslitum um að Liverpool tapaði leik sem ekki hefði þurft að tapast. Eins og við var að búast gerði Rafael Benítez miklar breytingar á liði Liverpool frá leiknum við Chelsea á miðvikudagskvöldið. Aðeins fjórir leikmenn byrjunarliðsins í þessum leik hófu leikinn gegn Chelsea. Argentínumaðurinn ungi Emiliano Insua lék sinn fyrsta leik í aðalliði Liverpool. Hann lék í stöðu vinstri bakvarðar. Jack Hobbs, fyrirliði varaliðsins, var einn varamanna. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst í aðalliðshópinn.
Fyrir leikinn var minning Alan Ball heiðruð. Þessi magnaði kappi gegndi tvívegis stöðu framkvæmdastjóra Portsmouth. Það var mikil deyfð yfir leikmönnum Liverpool framan af leik. Reyndar skoraði Robbie Fowler, eftir um tíu mínútur, með því að lyfta boltanum yfir David James utarlega úr teignum. Robbie var dæmdur rangstæður og munaði þar litlu. Portsmouth náði forystu á 27. mínútu eftir hroðaleg mistök í vörn Liverpool. David James sparkaði boltanum langt fram. Vörn Liverpool var illa á verði og missti af boltanum. Benjani Mwaruwari komst upp að teignum. Jerzy Dudek hikaði og Benjani lék framhjá honum og skallaði svo boltann í autt markið. Rétt á eftir slæmdi einn varnarmaður heimamanna hendi í boltann inni í vítateig. Þar hefði verið hægt að dæma vítaspyrnu. Þess í stað juku heimamenn forystu sína á 32. mínútu. Löng sending kom þá frá Lauren frá hægri. Vörn Liverpool var aftur illa á verði og Niko Kranjcar slapp í gegn vinstra megin. Hann sýndi mikla yfirvegun og skoraði af öryggi. Vörn Liverpool gerði slæm mistök í báðum mörkunum. Reyndar höfðu þessir menn sem skipuðu vörnina aldrei leikið saman áður. Rétt fyrir hálfleik munaði engu að Liverpool næði að minnka muninn þegar Boudewijn Zenden átti frábært skot af um þrjátíu metra færi en boltann small í þverslánni. Þetta hefði orðið eitt af mörkum leiktíðarinnar.
Leikmenn Liverpool hristu af sér slenið eftir leikhlé. Leikmenn liðsins börðust nú fyrir því að komast aftur inn í leikinn. Heimamenn fengu þó upplagt færi til að gera út um leikinn á 57. mínútu. Benjani Mwaruwari komst þá inn á teig og skaut að marki. Jerzy Dudek varði hins vegar mjög vel. Tveimur mínútum seinna skoraði Liverpool. Robbie Fowler tók hornspyrnu frá hægri. Sending hans inn á teiginn var góð. Sami Hyypia stökk manna hæst í teignum og skallaði boltann í markið. Leikmenn Liverpool efldust mjög við markið og sóttu nú án afláts. Heimamenn voru mjög baráttuglaðir enda gátu þeir náð Evrópusæti með sigri. Þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir sendi Robbie frábæra sendingu á Craig Bellamy sem komst inn á teig en varnarmaður komst fyrir skot hans á síðustu stundu. Tveimur mínútum fyrir leikslok komst svo Robbie í færi inni á teiginn eftir sendingu frá Jermaine Pennant en fyrrum félagi hans David James varði skot hans naumlega. Sigurinn varð því heimamanna sem þar með komust upp í Evrópusæti. Í herbúðum Liverpool geta menn hins vegar farið að huga að seinni helmingi Englandsorrustunnar gegn Chelsea.
Portsmouth: James, Johnson, Primus, Stefanovic, Traore, O´Neil, Lauren, Hughes, Taylor (Kranjcar 21. mín.), Kanu (LuaLua 71. mín.) og Mwaruwari (Davis 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Ashdown og Mvuemba.
Mörk Portsmouth: Benjani Mwaruwari (27. mín.) og Niko Kranjcar (32. mín.).
Gult spjald: Richard Hughes.
Liverpool: Dudek, Arbeloa, Hyypia, Paletta, Insua, Sissoko (El Zhar 83. mín.), Alonso, Zenden, Gonzalez (Pennant 67. mín.), Fowler og Bellamy. Ónotaðir varamenn: Padelli, Kuyt og Hobbs.
Mark Liverpool: Sami Hyypia (59. mín.)
Gult spjald: Xabi Alonso.
Áhorfendur á Fratton Park: 20.201.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finnski foringinn átti góðan leik í sínum fjögurhundraðasta leik með Liverpool. Sérstaklega var hann góður í seinni hálfleik þegar hann dreif liðið áfram. Hann skoraði fallegt mark og braut margar sóknir á bak aftur.
Rafael Benítez sagði slæm mistök hafa valdið því að leikurinn tapaðist. "Fyrsta markið var ótrúlegt. Þetta var bara löng spyrna fram og við verðum að reyna að átta okkur á því hvað fór úrskeiðis. Við sýndum miklu meiri skapstyrk og baráttu í síðari hálfleik og lékum miklu betur. Við fórum að eins og á að gera og sköpuðum okkur marktækifæri. Kannski verðskulduðum við eitthvað út úr leiknum. En maður hefur ekki efni á að gera svona mistök eins og við gerðum í dag."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!